16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4845 í B-deild Alþingistíðinda. (4157)

249. mál, afborgunarkaup

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég gerði í gær aths. við frv., sem er hér til umr., og leyfði mér að benda á að þar sem seint hefðu komið fram umsagnir, annars vegar frá Verslunarráðinu og hins vegar frá Neytendasamtökunum, væri tilhlýðilegt að hv. fjh.- og viðskn. tæki málið til athugunar aftur, þó að ekki væri nema í hálftíma eða klukkutíma, til að fjalla um það við fulltrúa þessara samtaka, auk lagasmiðsins sem mér skilst að sé Gylfi Knudsen fulltrúi eða deildarstjóri í rn. Þetta hefur ekki verið gert, enda eru menn önnum kafnir. Ég verð að harma þetta, því að hv. 3. þm. Vestf. ætlaði reynda að bera þau boð hv. 1. þm. Austurl. að þetta yrði gert í n. á milli umr. Þar sem hæstv. viðskrh. hefur hins vegar sagt mér að hann muni beita sér fyrir því að hv. fjh.- og viðskn. Ed. taki á málinu með þessum hætti sé ég ekki ástæðu til að fara fram á frekari .frest. En ég bendi enn þá einu sinni á að ef samþykkt þessa frv. leiðir til þess að afborgunarkaup, þ. e. a. s. kaup með afborgunarskilmálum og eignarréttarfyrirvara, falla úr gildi, en í staðinn verður eingöngu um víxlaviðskipti að ræða, þá er verr af stað farið en heima setið.

Í trausti þess, að viðskrh. láti könnun fara fram í Ed. og sjái til þess að tilvonandi lög nái þannig tilgangi sínum, ætla ég ekki að tefja málið frekar.