16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4845 í B-deild Alþingistíðinda. (4158)

249. mál, afborgunarkaup

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég bjóst satt að segja við að ósk hv. síðasta ræðumanns um að afgreiðslu þessa máls yrði frestað og málið athugað betur yrði samþ. Ég er jafnsannfærður og hann um að ábending þeirra, sem mest skipta við þá þjóðfélagsþegna sem nota sér afborgunarskilmála, er þess virði að hún verði skoðuð betur. Ef víxlakaup aukast og viðskiptavenjur breytast þar af leiðandi í þá átt sem varað hefur verið við vil ég að þm. sé ljóst, þegar þeir samþykkja þetta frv. og neita að athuga það betur, eins og ósk hefur komið fram um, að útgáfa víxla er ekkert annað en útgáfa á peningaseðlum sem fólkið sjálft gefur út vegna þess að það eru hömlur á gjaldmiðli þjóðarinnar, settar af opinberum aðilum: ríkisstj. að ráðum þjóðbankanna. Aukin víxlaútgáfa er seðlaútgáfa til viðbótar við það sem þjóðbankastjórar og aðrir ráðgjafar ríkisstj. ráðleggja. Það er svo mikill verðbólguauki, að ég sé ástæðu til að undirstrika ósk hv. síðasta ræðumanns um að afgreiðstu þessa máls verði frestað og allar afleiðingar af samþykkt frv. verði kannaðar betur áður en endanlega verður frá því gengið, en að þm. gangi með opin augun til samþykktar þessa frv. og geri sér ljóst að víxlaviðskipti eru ekkert annað en aukin seðlavelta í landinu, hvað sem það kann svo að kasta fyrir þjóðfélagið í heild.