16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4848 í B-deild Alþingistíðinda. (4166)

243. mál, jarðræktarlög

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 763 leggur minni hl. landbn., við fulltrúar stjórnarandstöðunnar, til að frv. þetta verði fellt.

Aðdragandi frv. þessa er með óvenjulegum hætti. Venja er að þegar frv. til l. um breyt. á jarðræktarlögum er til meðferðar Alþingis hafi starfað mþn. af hálfu Búnaðarþings skipuð fulltrúum bændasamtakanna ásamt öðrum sem til eru kvaddir. Það hefur ekki gerst að þessu sinni. Eigi að síður voru drög að þessu frv. lögð fyrir Búnaðarþing á s. l. vetri og klofnaði Búnaðarþing í afstöðu sinni til þess. Niðurstaðan varð samt sú, að tekin var ákvörðun um að skipa mþn. frá bændasamtökunum til þess að endurskoða jarðræktarlögin. Það er enda sú eðlilega leið sem frv. af þessu tagi á að ganga að mínum dómi.

Nú skal ég ekki fullyrða að ekki sé ástæða til að breyta jarðræktarlögunum í einu eða öðru. Hitt er ljóst, að með tilliti til þess, sem nú er rætt um stefnu í landbúnaði, er nauðsynlegt og eðlilegt að marka fyrst stefnuna. Það hefur ekki verið gert. Alþ. hefur ekki ákveðið hvaða stefnu á að framfylgja í landbúnaði á næstu árum. Eftir að stefna hefur verið tekin er eðlilegt að jarðræktarlög sem og aðrir þættir landbúnaðarlöggjafarinnar séu færð í það horf að samræmist þeirri stefnu sem Alþ. hefur markað. Þetta frv. er því á tvennan hátt rangt tímasett og hefur ekki hlotið þann undirbúning sem eðlilegur má teljast. Efnisatriði þessa frv. eru enda sum þessu marki brennd.

Í fyrsta lagi er það nýmæli í landbúnaðarlöggjöf, að hún feli í sér að veita landbrh. mjög yfirgripsmiklar heimildir til ráðstöfunar fjármagns án þess að það sé bundið í lögum. Þær leiðir, sem rætt er um í frv. að nota til þess að verja því fjármagni sem hér er um að tefla, sem væntanlega kynni að verða nokkur hundruð millj. kr. á ári, eru enda sumar hverjar þess háttar að næsta óljóst er hvað um framkvæmd yrði og hversu mikið gagn yrði að fjárveitingum. Einnig þessi þáttur málsins er mjög svo óljós og óeðlilegur og úr samhengi við það sem tíðkast hefur í sambandi við fjárveitingar til landbúnaðarins. Enn má minna á að hæstv. núv. landbrh. hefur rætt um að fé, sem kynni að koma í hans vörslu og til útdeilingar af hans hálfu á grundvelli þessa lagafrv., ef samþykkt verður, kynni að verða notað til að endurgreiða lán, sem er næsta óskytt þeim verkefnum sem talin eru upp í frv. sjálfu.

Af öllum þessum tilteknu ástæðum og raunar miklu fleiri sér minni hl. ekki ástæðu til að samþykkja þetta frv. og leggur til að það verði fellt, eins og fyrr er frá greint.

Með tilliti til þess, sem nú blasir við um eindæma vorharðindi, gífurlegan gadd í jörð, algert gróðurleysi og nauman heyforða í landinu, að ekki sé sterkara að orði kveðið, er ekki vitað hvort ástæða sé til að samþykkja á þessari stundu lög sem skera stórlega niður framlög til jarðræktarframkvæmda. Ég skal ekki fara lengra út í þá sálma, það mætti hafa um það langt mál, en ítreka afstöðu minni hl. sem leggur til að frv. verði fellt.