16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4849 í B-deild Alþingistíðinda. (4167)

243. mál, jarðræktarlög

Finnur Torfi Stefánsson:

Herra forseti. Ég styð þetta frv. í heild sinni og vísa til máls frsm. meiri hl. hvað það varðar, en hef þó fyrirvara um eina grein og ætla að leyfa mér að lýsa þeim fyrirvara.

Umrædd grein er 4. gr. frv., þar sem segir á þá leið í ákvæði til bráðabirgða að „á árunum 1980–1985 skal í fjárlögum ætla til framkvæmda samkv. ákvæðum 10. gr. fjárhæð sem nemur meðaltali slíkra framlaga árið 1978 og 1979. Á þá fjárhæð skal árlega greiða verðlagsuppbót í samræmi við ákvæði 1. mgr. þessarar greinar.“ — Hér er lagt til að á árunum 1980–1985 verði með þessum lögum bundin framlög á fjárlögum og Alþ. þar með skyldað til að leggja fé í þessa hluti á fjárlögum á sama tímabili. Í lögum, sem samþykkt voru á hv. Alþ. um stjórn efnahagsmála o. fl. ekki alls fyrir löngu, er í 8. gr. kveðið á um að fyrir árslok 1979 skuli ákvæði í lögum, sem kveða á um skyldu ríkissjóðs til fjárframlaga til sjóða og einstakra verkefna með föstum reglubundnum hætti, tekin til endurskoðunar. Ég hef litið svo á að með þessu ákvæði hefði ríkisstj. markað þá stefnu að taka ekki frekari bindingar í lög, þ. e. a. s. bindingar sem skylda þingið til þess að samþykkja fjárframlög í eitt og annað, og það verði auðvitað að standa við þá stefnu í reynd. Það er ekki nóg að marka slíka stefnu, menn verða líka að framkvæma hana. Af þessum ástæðum þykir mér ekki fært að styðja 4. gr., en ítreka að ég er fullkomlega fylgjandi frv. að öðru leyti og tel það nauðsynlegt.