16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4852 í B-deild Alþingistíðinda. (4176)

270. mál, aðstoð við þroskahefta

Frsm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég held að það geti varla dulist nokkrum, að með þessum tillöguflutningi, brtt. sem gerð er eftir fimm umr. um málið, þrjár í Ed. og tvær í Nd., auk þriggja umr. til viðbótar í þessari d. um Framkvæmdasjóð öryrkja og eina í Ed., eða níu umr., þar sem hver atlagan er gerð af annarri til að koma í veg fyrir að tryggt sé fjármagn til afskiptra verkefna öryrkja, fer nú fram örvæntingarfull úrslitatilraun til að bregða endanlega fæti fyrir málið. Efni þessarar brtt. er einfaldlega að enn skuli ráðast með skömmtunarframlögum á fjárlögum, eins og þau nú hafa verið vegleg til öryrkja og þá sérstaklega þroskaheftra, hvað skuli varið miklu til þessara verkefna.

Fjárlög síðustu ára tala skýrustu máli um fjársvelti til málefna þroskaheftra. Aðeins það eina dæmi, sem er sérkennslumál þroskaheftra og byggingarframkvæmdir vegna þeirra, ber þess glöggt vitni, hvað brýna nauðsyn ber til að leggja meira fé til þessa mála. Skýrsla menntmrh. til Alþ. um sérkennslumál þroskaheftra er greinilega lítið notuð til hliðsjónar þegar fjárveitingavaldið hefur ár eftir ár látið tífalt minna af hendi rakna en skýrar tölur sýna að nauðsyn ber til, og er þá eingöngu verið að tala um einn þáttinn í þeim málum sem nauðsynlegt er að fjármagna til að jafnrétti þroskaheftra á við heilbrigða sé tryggt.

Í þessari úrslitatilraun til að drepa málið er lagt til að fjármagn megi vera allt að 1000 millj. En hvað þýðir allt að 1000 millj.? Það getur hreinlega þýtt óbreytt ástand í þessum málum. Allt að 1000 millj. þýðir auðvitað að áfram er það í hendi fjárveitingavaldsins hvort í þessi verkefni verði settar 60 millj. eins og venjulega eða ekki.

Ég hef verið á nokkrum fundum með þeim sem barist hafa fyrir að ná fram bættri aðstöðu fyrir þroskahefta. Þar ríkir mikil ánægja og eftirvænting, því að nú eygir það fólk loksins þá von að skilningur sé að vakna á málefnum þeirra og réttlætismál þeirra sé að komast í höfn — heildarlöggjöf um málefni þroskaheftra og tryggt fjármagn til þess að standa undir nauðsynlegum kostnaði við ýmis verkefni sem dregist hafa svo langt aftur úr, að það er til vansæmdar fyrir lýðræðis- og velferðarríki á borð við Ísland. Ég trúi því ekki að óreyndu að hv. þdm. taki undir þessa brtt. og láti vonir þessa fólks verða að engu. Ég hef sagt það áður og ég segi það enn: Lagasetning án fjármagns til þess að hrinda ýmsum nauðsynlegum framkvæmdum hennar í framkvæmd tryggir ekki betri daga fyrir þroskahefta.

Frv. um aðstoð við þroskahefta fékk dyggilegan stuðning við 2. umr. málsins, og vona ég að þessi till. hafi ekki áhrif í þá veru að breyta afstöðu þm. frá því sem þeir höfðu þá. Brtt. þessi gæti tafið frv. svo mjög að það fengi ekki afgreiðslu á þessu þingi, þar sem það þarf aftur að fara fyrir Ed. ef þessi brtt. yrði samþykkt. Það væri dapurlegur endir á máli sem miklar vonir eru bundnar við ef slík yrðu örlög þess. Því vona ég að þdm. felli þessa till. og styðji frv. óbreytt við 3. umr.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson kom inn á að verið væri að brjóta ákvæði í lögum um stjórn efnahagsmála með því ákvæði sem er í 25. gr. frv. til l. um aðstoð við þroskahefta. Ég mótmæli því, því að auðvitað hlýtur þetta ákvæði að lúta endurskoðun sem aðrir markaðir tekjustofnar, eins og efnahagslögin gera ráð fyrir. Flm. brtt., sem svo mjög vex í augum fjármagn til þessa verkefnis, hlýt ég því að benda á að fjármagnsþáttur þessa frv. á sennilega eftir að fara í gegnum hreinsunareld við endurskoðun á mörkuðum tekjustofnum og framlögum, og þó að von sé til þess að slíkt félagslegt málefni sem afskipt hefur verið sleppi vel frá þeirri endurskoðun er skerðingarhætta á fjármagninu þar einnig fyrir hendi. Með hliðsjón af því ættu þessir hv. tveir þdm. að falla frá till. sinni.

Ég held einnig að nauðsynlegt sé að benda þeim á, sem flytja þessa till., að þó að þeim vaxi í augum þetta fjármagn á sjóðurinn að fjármagna svo geysilega mikið, bæði ákvæði heildarlöggjafarinnar, sérkennslumál þroskaheftra og endurhæfingarmál öryrkja, að varla er um neina ofrausn að ræða og nauðsynlegt er að hafa fjármagnið verðtryggt. Og ég vil undirstrika enn þá, að fjármögnunin hlýtur að lúta endurskoðunarákvæðum efnahagslaganna. — Það er reyndar furðulegt að hv. þm. Sverrir Hermannsson skuli nú bera upp brtt. við þetta mál, þar sem hann studdi frv. um Framkvæmdasjóð öryrkja og tekjuöflun þess þegar það var í formi þess að teknanna ætti að afla af áfengi og tóbaki og var þannig verðtryggt. Þar var um svipaða upphæð að ræða. Er furðulegt hvernig þessi hv. þdm. hefur breytt um skoðun á málinu.

Ég vona að allir hv. þdm. styðji frv. óbreytt við 3. umr. og felli þessa brtt.