16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4859 í B-deild Alþingistíðinda. (4182)

311. mál, tímabundið aðlögunargjald

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég skal tala stutt. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir þau óverðskulduðu lofsyrði sem hann lét falla í minn garð a. m. k. fyrir þá ferð sem ég tókst á hendur með nokkru hiki í upphafi, en reyndist kannske fullt eins vel og ég gat frekast vonað. Ég held, almennt talað, alveg án hliðsjónar af því hverjir fóru slíka ferð, að íslensk ríkisstj., hver sem hún er, ætti að vinna þannig að málum að kynna þau fyrir fram hjá þeim ríkjum sem þau snerta, eins og gert var þegar landhelgin var færð út og eins og ég tel að gert hafi verið í þessu máli.

Í þeim viðræðum, sem hér hafa verið gerðar lítillega að umtalsefni, voru það aðallega þrjú atriði sem allar ríkisstj., sem rætt var við, lögðu höfuðáherslu á.

Það var í fyrsta lagi að þetta gjald skapaði ekki fordæmi og það yrði lagt á allar innfluttar vörur, ekki bara frá EFTA, heldur einnig frá Efnahagsbandalagi Evrópu, svo og aðrar vörur frá löndum sem við eigum í engum skuldbindingum við. — Og ég hygg að það sé ekkert ofmælt, sem hæstv. iðnrh. sagði áðan, að það er sá fyrirvari sem fyrrv. viðskrh., Gylfi Þ. Gíslason, gerði þegar EFTA-samningnum var breytt 1970, að mig minnir, skömmu eftir að við gengum í bandalagið, sem gerir það að verkum að EFTA-þjóðirnar a. m. k. telja sér fært að fallast á þetta gjald.

Annað atriði, sem mjög mikil áhersla var lögð á og ég legg höfuðáherslu á miðað við þann málflutning sem ég leyfði mér að hafa uppi í þessari ferð og við sem hana fórum, er að þetta gjald verði fellt niður í árslok 1980. Það er ekki hægt að fara fram á svona undanþágur á fölskum forsendum. Alþ. og ríkisstj. verða því á því eina og hálfa ári, sem til stefnu er, að gera aðrar ráðstafanir ef iðnaðurinn íslenski þarf þá enn á áframhaldandi vernd að halda. Það er ekki hægt að svíkja gerða samninga, það megum við ekki láta henda okkur. Það höfum við ekki gert í þessu tilviki, vegna þess að við fengum þetta samþykkt með eðlilegu og jákvæðu móti hjá þeim þjóðum sem við áttum þarna skipti við, og ég geri mér fullar vonir um að sama samkomulag fáist hjá Efnahagsbandalagi Evrópu eða a. m. k., afskiptaleysi, þegar ekki er um mismunun að tefla. En þá verðum við að gæta þess að gjaldið falli niður, þannig að við svíkjum ekki þennan samning þótt hann hafi aðeins verið munnlegur.

Enn fremur vil ég svo undirstrika það sem hv. 1. þm. Reykv. kom að áðan og ég tek alveg gilt. Í aths. með 7. gr. segir um aðlögunargjaldið, með leyfi forseta:

„Þar er um að ræða aðgerð sem í raun felur í sér ígildi lengingar á aðlögunartíma íslensks iðnaðar að fríverslun og verður afnumið í árslok 1980. Af þeim sökum er ekki gert ráð fyrir að ríkissjóður ætli sér hluta af tekjum af gjaldinu, heldur verði þeim alfarið varið til brýnna iðnþróunaraðgerða.“

Þessu vil ég leyfa mér að treysta, því að annað væri brigð á því sem við höfum haldið fram.

Að síðustu vil ég svo aðeins segja að geysilega miklu skiptir hvernig þessu fjármagni verður varið, m. a. vegna þess að það verður að falla niður þegar þess skeið er á enda runnið. Þess vegna verður að vera búið að nota það á þeim tíma sem til ráðstöfunar er, til þess að gera iðnaðinn þannig settan að hann standist erlenda samkeppni. Ef það er ekki hægt enn þá í árslok 1980 verður að leita annarra leiða til að gera honum samkeppnina bærilega, t. a. m. að fella af honum þau gjöld sem nú eru á hann lögð, þ. e. a. s. aðstöðugjöld og launaskatt, minnir mig að það heiti.

Ég get svo sem vel tekið undir það, að æskilegt hefði verið að þessu frv. hefði fylgt nákvæmari sundurliðun á því, með hverjum hætti þetta fé skuli notað. En ég sætti mig við það sem hæstv. iðnrh. gerði grein fyrir: að lesa um það í öðru þskj. hvað helst sé nauðsynlegt til hjálpar íslenskum iðnaði. Ég get skilið að ákveðnar beinar till. um þetta liggi ekki fyrir með þessu frv., en ég styð það þá í trausti þess að fjármagninu verði raunverulega varið til að efla iðnaðinn og þó allra helst með því fororði að því loforði verði ekki brugðið að gjaldið falli niður í árslok 1980.