16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4860 í B-deild Alþingistíðinda. (4183)

311. mál, tímabundið aðlögunargjald

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það eru örfá orð vegna fsp. hv. 1. þm. Reykv.

Hann talaði um að hér væri raunverulega um að ræða hækkun á jöfnunargjaldi því sem nú er lögfest. Það má út af fyrir sig til sanns vegar færa að því leyti að fyrirhugað er að gjaldið leggist á sömu vörur og verði innheimt e. t. v. jafnhliða, þannig að um er að ræða tvöföldun á því 3% gjaldi sem fyrir var. Hins vegar munu um þetta gjald gilda aðgreind lög, eins og kemur fram í þessu frv., og því fylgja ákveðnir kostir.

Það eru mismunandi rök sem þessi gjaldtaka og vernd byggjast á. Álagning jöfnunargjaldsins á árinu 1978 var fyrst og fremst rökstudd með því að endurgreiða þyrfti íslenskum iðnfyrirtækjum uppsafnaðan söluskatt og eyða óhagræði sem því fylgir, en söluskattskerfi í því formi sem hér er er óvíða í viðskiptalöndum okkar. Innan EFTA er það aðeins hjá Finnum sem um slíkt kerfi er að ræða enn. Önnur lönd hafa tekið upp svonefnd virðisaukaskattkerfi þar sem söluskattur safnast ekki upp með sama hætti og hér gerist. Rökin fyrir þessari gjaldtöku eru hins vegar almennara eðlis: þörfin á lengri aðlögunartíma fyrir íslenskan iðnað og ákveðnum stuðningsaðgerðum við hann eða bættum aðbúnaði til þess að unnt sé að gera hann samkeppnisfærari en hann nú er. Og þegar þannig er um tvö aðgreind mál að ræða sem byggjast á mismunandi rökum og þá ekki síst í augum viðskiptalanda okkar, á það að gera okkur kleift að afnema þetta gjald á mismunandi tíma. Það hefur verulegt gildi í mínum augum.

Eins og þessi lög bera með sér er gert ráð fyrir, að gjaldtöku þessari ljúki í árslok 1980. Hið sama mun varða jöfnunargjaldið sem rökstutt er vegna uppsafnaðs söluskatts, en svo lengi sem við búum við það kerfi hygg ég að það verði óátalið látið að við leggjum það gjald á innfluttar samkeppnisvörur. Þetta gefur okkur möguleika á sveigjanleika í sambandi við afnám þessara gjalda.

Hv. 1. þm. Reykv. spurði einnig um notkun þessa gjalds og upphæð, hvað fengist mikið fyrir það. Ég get upplýst, að áætlað er að jöfnunargjaldið, sem nú er innheimt, gefi í ár tæplega 1200 millj. kr. samkv. þeim tólum sem ég hef séð frá fjmrn. Þriðjungur af því gjaldi rennur til ríkissjóðs eða réttara sagt: ríkissjóður heldur eftir þriðjungi af því gjaldi hjá sér. Hins vegar er með þessu frv. ótvírætt skorið úr um það, að öllu því fjármagni, sem inn kemur fyrir hið tímabundna aðlógunargjald, skuli varið til sérstakra iðnþróunaraðgerða. Raunar hefur hv. 9. þm. Reykv. vitnað í þá grein frv. sem tekur af tvímæli um þetta. Ríkisstj. ákvarðar til hvaða iðnþróunaraðgerða þessu gjaldi verður varið í ár að fengnum tillögum frá iðnrn. Hins vegar er gert ráð fyrir að þetta verði tengt fjárlagaafgreiðslu með tilliti til tekna á næsta ári, en þá með sama móti, að fyrir liggi till. um sérstakar iðnþróunaraðgerðir sem gjald þetta verði notað til.

Ég geri ráð fyrir að þegar till. verða mótaðar um skiptingu þessa gjalds verði haft samráð við aðila iðnaðarins um það, þannig að þar komi ýmsir við sögu sem hagsmuna eiga að gæta varðandi skiptingu jöfnunargjaldsins, þess litla hluta af því sem fengist hefur til iðnþróunaraðgerða. Þá hefur samstarfsnefnd um iðnþróun, sem starfar á vegum rn. míns, verið til ráðuneytis um það, og mér þykir líklegt að við munum hafa slíkt samráð einnig varðandi mótun tillagna að því er þetta gjald varðar. Ég tek undir það, sem fram kom hjá hv. 9. þm. Reykv., að mikil nauðsyn er á að þær tekjur, sem þannig fást, verði vel notaðar og verði reynt tryggja að þær skili íslenskum iðnaði áleiðis þannig að hann verði samkeppnishæfari en áður að loknu því tímabili sem gjaldtaka þessi snertir. Það er meginmarkmið, og ég tel að það þurfi að gæta þess við ráðstöfun gjaldsins, að því verði hvorki varið af handahófi né til einhverra skammtímaúrræða, heldur fyrst og fremst til að treysta grunninn fyrir iðnþróun hérlendis.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að víkja að einstökum verkefnum, þó að þar gæti verið af mörgu að taka. En þetta mál verður til meðferðar í iðnrn. og á vettvangi ríkisstj. þegar ljóst verður hvort þessar tekjur fást.