16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4863 í B-deild Alþingistíðinda. (4189)

277. mál, verslun ríkisins með áfengi

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 63 frá 28. maí 1969. Þetta mál kemur frá Ed. og var samþ. þar í þeim búningi sem það var lagt fyrir hv. Ed.

Um og eftir 1970 tók að bera nokkuð á innflutningi og verslun með tilbúin bruggunarefni í neytendaumbúðum. Framan af var um tiltölulega lítið magn að ræða, en hins vegar hefur orðið mjög veruleg aukning innflutnings og verslunar með þessi efni s. l. 3–4 ár. Á þessu tímabili hefur a. m. k. eitt íslenskt fyrirtæki hafið framleiðslu á tilbúnum bruggunarefnum. Auk þessa hefur innflutningur og sala á hvers konar gerlum, bæði víngeri og pressugeri verið algerlega frjáls síðan 1969, en þá var einkasala Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á pressugeri afnumin, sbr. lög nr. 63 frá 1969. Ef umrædd efni eru fyrir hendi er næsta auðvelt að framleiða á tiltölulega skömmum tíma áfenga drykki. Raunin hefur og orðið sú, eins og flestum má reyndar vera kunnugt, að framleiðsla eða bruggun áfengra drykkja í heimahúsum og á vinnustöðum hefur aukist gífurlega í kjölfar hinnar frjálsu verslunar með þessi efni.

Samkv. 7. gr. áfengislaga, nr. 82 frá 1969, er bannað að brugga eða búa til áfengi á Íslandi. Þetta skýlausa bannákvæði dugar skammt í baráttu við þá óheillavænlegu þróun sem átt hefur sér stað í þessum efnum á undanförnum árum, þar eð áfengislöggjöfin er að öðru leyti mjög ófullkomin og veitir ekki möguleika til að fylgja banni þessu eftir svo að vel sé. Samkv. 2. gr. áfengislaganna er áfengi skilgreint á þessa leið: „Áfengi telst samkv. lögum þessum hver sá vökvi, sem meira er í en 2.25% af vínanda að rúmmáli. Duft, kökur og annað, sem þau efni eru í, sem sundur má leysa í vökva og hafa nefndan áfengisstyrkleika, skal fara með sem áfengan drykk.“ Í skjóli þessa ákvæðis má segja að sala umræddra efna hafi þrifist. Þeir aðilar, sem hafa séð um innflutning og dreifingu umræddra vara, hafa einfaldlega bent kaupendum á hvernig þeir eigi að halda styrkleika bruggsins innan löglegra marka og hverju það varði fari hann fram úr lögleyfðu hámarki. Þess skal getið hér, að þó svo 2. mgr. 2. gr. taki til dufts, sem leysa megi upp í vatni, nær ákvæðið ekki til umræddra efna, því að þótt þau séu leyst upp í vatni nægir það eitt sér ekki til þess að úr verði áfengur vökvi, heldur þarf a. m. k. að bæta við þau sykri og gerlum. Samkv. gildandi löggjöf verða brot á 7. gr. áfengislaganna varla sönnuð nema með því að staðreyna að áfengi hafi verið framleitt úr nefndum efnum. Til þess að svo megi verða þarf að hafa hendur í hári þeirra sem kaupa þessi efni í smásölu og framleiða eða brugga úr þeim áfenga drykki, t. d. í heimahúsum. Af skiljanlegum ástæðum hafa lögregluyfirvöld verið treg til aðgerða af þessu tagi. Á meðan söluaðilar umræddra efna geta skákað í því skjóli að brugga megi óáfenga drykki úr efnunum, þótt sá sé eðlilega ekki tilgangur þeirra sem kaupa þessi efni til bruggunar, má ljóst vera af framansögðu að þess er ekki að vænta að hægt verði að stemma stigu við ólöglegri bruggun hérlendis að óbreyttum lögum.

Nýlega var að tilhlutan fjmrn. athugað fræðilega hve mikið áfengi mætti framleiða úr því magni bruggunarefna sem stærsti innflutningsaðili þessara efna flutti inn á árinu 1978. Niðurstöður athugunar þessarar, sem unnin var af ölgerðarverkfræðingi, leiddu í ljós að úr ofangreindum efnum, sem aðeins umræddur aðili flutti inn, mátti a. m. k. framleiða áfengi sem samsvarar ca. 250 þús. 0.7 lítra flöskum af brennivíni með 40% rúmmálsprósentu styrkleika.

Vegna ummæla í blöðum um áætlun þessa skal tekið fram að hún styðst við athugun á innflutningi 1977 og fyrstu 10 mánuðum 1978. Væri innflutningurinn, eins og hann í raun og veru varð 1978, lagður til grundvallar yrðu tölur þessar talsvert hærri. — Já, ég heyri að þm. stynja yfir þessu sem von er. (Gripið fram í.) Þetta er, eins og ég sagði áðan, athugun sem fór fram á vegum, að því er ég ætla, hlutlauss aðila, byggð á skýrslum sem eru til.

Af því m. a., sem að framan hefur verið rakið, má ljóst vera að alvarleg félagsleg vandamál fylgja því ástandi sem nú ríkir í þessum málum. Það er að mínu mati aðalatriði þessa máls. Hitt er ágreiningsefni, hvort þetta er leiðin til þess að uppræta brugg í svo víðtækum mæli sem verið hefur. Ég skal ekki um það dæma. En ég vil aðeins vísa til þess, að síðan sala víngerðarefna var gefin frjáls 1969 hefur orðið gífurlega mikil aukning á bruggi í heimahúsum, eftir því sem talið er.

Einnig er rétt að taka það fram, þó að það sé ekkert aðalatriði málsins, að ríkissjóður hefur orðið fyrir mjög verulegu tekjutapi af þessum sökum. Tekjur af rekstri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins hafa verið minni en menn hafa ætlað. Telja þeir, sem kunnugir eru, að þetta hafi valdið nokkru þar um.

Í framhaldi af þessu skal þess getið, að svipuð vandamál hafa verið uppi annars staðar á Norðurlöndum. Þetta er alls ekki séríslenskt fyrirbrigði. T. d. gripu Svíar til þess ráðs í ársbyrjun 1978 að banna með lögum notkun á „extrakti“ og „koncentrati“ úr malti, þrúgusafa eða öðrum ávaxtasafa við framleiðslu á áfengi. Sala þessara efna er talin hlutdeild í brotum á þeim ákvæðum sem banna notkun efnanna við bruggun. Engu að síður er bruggun áfengra drykkja leyfileg í Svíþjóð ef aðeins er notast við ávexti, malt, ómalað korn o. s. frv. sem grunnefni, en þess jafnframt gætt að áfengisstyrkleikinn fari ekki fram úr 4.5%.

Með þessu frv. er lagt til að ríkisstj. einni verði heimilt að flytja inn eða framleiða tilbúin bruggunarefni svo og hvers konar lifandi gerla. Þessi tilhögun hefur verið ríkjandi varðandi innflutning áfengis og tóbaks hér á landi, eins og kunnugt er. Þá er nauðsynlegt, ef aðgerðir af þessu tagi eiga að bera raunhæfan árangur, að færa innflutning og sölu á lifandi gerlum aftur í hendur hins opinbera, en notkun gerla er nauðsynleg við bruggun áfengra drykkja. Það er sem sé höfuðtilgangurinn með þessu frv. að færa þessi mál í sama horf og þau voru í fyrir 1969.

Það er rétt að taka það fram, að samkv. frv. er gert ráð fyrir að heimila megi öðrum aðilum en Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins innflutning og sölu á gerlum, enda uppfylli þessir aðilar skilyrði sem sett kunna að verða í því sambandi. Kemur einkum til álita að heimila öðrum aðilum innflutning á pressugeri, enda verði tryggt að það verði einungis notað til brauð- og kökugerðar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja efni einstakra greina frv. Það er kjarni málsins sem ég hef hér drepið á, en þó vil ég aðeins víkja að ákvæði til bráðabirgða, sem er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeim aðilum, sem við gildistöku þessara laga eiga birgðir af tilbúnum bruggunarefnum svo og birgðir af hvers konar lifandi gerlum, er frjálst að selja þær fram til 1. jan. 1980. Að þeim tíma liðnum skal Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skylt að kaupa þær birgðir, sem viðkomandi aðilar kunna að eiga af framantöldum vörum, á verði sem ákveðið skal af dómkvöddum matsmönnum.“

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta frv., en leyfi mér að beina þeim tilmælum til þeirrar þn., sem fær málið til meðferðar, að hún hraði meðferð þess til þess að unnt verði að afgreiða málið fyrir þinglausnir. Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.