08.11.1978
Neðri deild: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

9. mál, Seðlabanki Íslands

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Þetta skulu vera aðeins örfá orð. Ég þarf aðeins að bera af mér þær sakir, að ég sé höfundur þessarar verðbólguskýrslu. Það er allt of mikil sök til þess að ég vilji liggja undir henni ómótmælt, þó auðvitað hefði ekki átt að vera þörf á því, því það kemur greinilega fram í skýrslunni sjálfri og var reyndar mjög vel vitað af þeim þm. sem hélt því hér fram að þetta væri mín skýrsla og ég segði þetta. (Gripið fram í.) Ég mótmælti því meira að segja úr sæti mínu eins og ég gat, og síðan ætla ég að gera það hér aftur. Þar að auki var það svo, að hv. þm. hafði þann hátt á að segja: Mér er ekki kunnugt um að hv. þm. Lúðvík Jósepsson hafi sagt nokkuð gegn þessu. — Auðvitað mótmælti ég þessu í nefndinni allan tímann. Hann ætti að spyrja t.d. fyrrv. form. Alþfl., Gylfa Þ. Gíslason, sem var líka í minni hl. í nefndinni. Þar að auki hefur þessi skýrsla verið rædd hér á Alþ. og greinilega tekið fram þar, að við værum andvígir mörgu í þessari skýrslu, reyndar tekið fram að hún sé samin af forstöðumanni Þjóðhagsstofnunar og starfsmönnum hans.

Þetta vissi auðvitað hv. 4. þm. Vestf. vel, en fékkst ekki til að leiðrétta það á neinn hátt. Hann vildi hafa það sem rangara var í þessu máli. Það var ósk hans. En það var auðvitað í stíl við málflutning hans á annan hátt, sem í rauninni var allur út í hött í sambandi við það mál sem hér er um að ræða. Það var álíka og þegar hann hélt því fram, að ég hefði sagt að það væru ekki neinar sérstakar ástæður almenns eðlis í efnahagskerfinu sem hefðu leitt af sér verðbólgu. Nei, nei, ég hefði haldið því fram að það væru eingöngu blöðin sem hefðu búið til verðbólguna með skrifum sínum. Hugsa sér nú slíkan málflutning eins og pennann!

Ég hafði rakið hér í ítarlegu máti, hvað ég teldi að hefði gengið úrskeiðis einmitt í efnahagsmálum og leitt til verðbólgu og hvað ég teldi að ætti að gera til að vinna bug á verðbólgunni. En þegar ég gaf þá skýringu á miklum verðhækkunum sem hér hefðu gengið yfir, að það hefði m.a. verið vegna þess að hér hefði verið stanslaus áróður, m.a. í blöðum, fyrir því að til stæði gengislækkun, þá vita auðvitað allir að það er rétt. Slíkur áróður hefur auðvitað ýtt undir verðhækkanir.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Ég tel að allur mátflutningur hv. 4. þm. Vestf. hafi verið af því tagi, að það sé í rauninni óþarft að svara honum. Hann var í rauninni rugl út í bláinn og staðhæfingar um það sem ekki var rétt.