16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4866 í B-deild Alþingistíðinda. (4190)

277. mál, verslun ríkisins með áfengi

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það mál, sem hæstv. fjmrh. mælti fyrir, hefur verið kynnt í blöðum, auk þess að hafa fengið afgreiðslu í Ed.

Ég vil strax í upphafi máls míns rifja það upp, að á sínum tíma — um áramótin — var sýnt í sjónvarpinu áramótaskaup og einn frábærasti þátturinn í því áramótaskaupi sýndi þegar hæstv. fjmrh. var að smala viðskiptavinum inn í ríkið vegna þess hve þeim hafði fækkað og hve tekjutap ríkissjóðs var mikið af þeim sökum. Mér datt þetta í hug þegar hæstv. ráðh. leggur svona gífurlega mikla áherslu á tekjutap ríkissjóðs í þessu sambandi. Tvískinnungurinn kemur fram í því, að verið er að segja annars vegar að slíkt frv. sé flutt til þess að minnka drykkjuskap í landinu og hins vegar til þess að ríkið fái meiri tekjur af brennivínssölu. Slíkar röksemdir ná náttúrlega ekki nokkurri átt og sér hvert mannsbarn á Hofsósi og víðast hvar á landinu að hér er farið með málið með allt öðrum hætti en eðlilegt getur talist.

Í fyrsta lagi ber að benda á það, að ekki er ljóst að þeir, sem brugga öl með þeim efnum sem hér eru til sölu og verið er að koma í veg fyrir með þessu frv. að seljist, bruggi það sem við getum kallað áfengi samkv. skilgreiningu laganna, en það er yfir 2.25% alkóhólinnihald. Á þetta ber að leggja áherslu, þótt eflaust megi reikna með að einhverjir þeir, sem nota slík efni, fari yfir leyfileg mörk. Það skiptir þó kannske mestu máli að slíkar veigar eru ekki seldar manna á meðal, að því er vitað er. Hins vegar má gera ráð fyrir að þetta minnki að einhverju leyti sölu áfengra drykkja í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Það er einmitt það sem hæstv. fjmrh. sér og þess vegna vill hann koma í veg fyrir bruggunina.

Mig langar strax í upphafi þessa máls við 1. umr. að benda á að verið hafa í vetur til umfjöllunar í þessari hv. þd. og enn fremur í hv. allshn. Nd. frv. er varða áfengislöggjöfina. Ég tel eðlilegt að þau mál, sem komið hafa fram á þessu þingi um áfengismálefni, verði samferða í gegnum þingið. Við höfum nægan tíma. Það er sjálfsagt að nota sumarið til þess að kanna með hverjum hætti best sé að breyta áfengislöggjöfinni til þess að hún nái þeim tilgangi sínum að koma í veg fyrir þau félagslegu vandamál sem af áfengisdrykkju þjóðarinnar hljótast. Við eigum ekki að hlaupa upp til handa og fóta í hvert skipti sem hæstv. fjmrh. þarf á meiri peningum að halda og láta þá lönd og leið öll grundvallaratriði í þessum málum.

Ég minni jafnframt á að á hv. Alþ. hefur annað slagið verið rætt talsvert um hvort ekki bæri að leyfa bruggun og sölu áfengs öls. Mér finnst koma til greina að þn. kanni hvort ekki sé hægt að útbúa spurningar sem leggja mætti fyrir þjóðina í einhvers konar skoðanakönnun er varðar bjórinn, hvort hún vilji einhverjar breytingar á þeirri löggjöf sem við höfum orðið að búa við fram að þessum tíma. Ég held að mikið sé unnið ef okkur tekst að ná einhverju samkomulagi um hvernig við viljum standa að framkvæmd frjálslegri áfengislöggjafar sem geri að verkum að fólk hér á landi umgangist áfengi þannig að sem minnst félagsleg vandamál komi til með að stafa af. Á þetta vil ég leggja áherslu. Auðvitað dettur engum í hug áfengisbann, nema þeim sem hafa lýst því yfir og eru í félagsskap sem berst af oddi og egg gegn áfengisnotkun í landinu almennt. Við verðum að gera mikinn og skýran greinarmun á því, hvort við viljum í raun leggja niður áfengissölu í landinu og leysa vandamálin með þeim hætti, sem að mínu viti er engin lausn á málunum, eða hvort við viljum takast á við þessi vandamál, eins og þau hljóta að snúa að þjóðinni, sem félagsleg vandamál sem verði að leysa. Að koma hingað og ræða úr þessum ræðustól eingöngu um þessi mál sem tekjuöflun, sem skattamál ríkisstj., finnst mér fyrir neðan allar hellur.

Ég minni á það jafnframt, að verið hafa til umr. í þessari hv. d. og einnig í allshn. Nd. hugmyndir í frv., sem Vilmundur Gylfason og fleiri hv. þm. fluttu, varðandi opnunartíma og jafnframt breytingu á áfengislöggjöfinni í víðtækustu merkingu. Það mál er brýnt, ekki síst vegna samþykktar borgarstjórnar Reykjavíkur í þeim málum.

Þá vil ég benda á eitt atriði sem sumum finnst e. t. v. vera smátt, en í mínum augum er stórt, og það varðar einkaleyfi ríkisins á eldspýtnasölu, en samkv. áfengislögunum er ríkið eini aðilinn sem selja má eldspýtur í landinu. Það hefur leitt til þess, að hér á landi fást aðeins eldspýtur sem eru svo ónýtar og skaðlegar að ég hugsa að hvergi í heiminum sé hægt að finna annað eins, enda veit ég að þær viðbótartekjur, sem hæstv. fjmrh. er nú að sækjast eftir hjá þeim sem á að smala inn í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, mundu ekki duga til að greiða bætur fyrir það tjón sem verður af ónýtum eldspýtum sem sá hinn sami hæstv. ráðh. er að selja. Ég vek athygli á þessu. Þarna er breytinga þörf. Ég skora á hæstv. ráðh. að láta hendur standa fram úr ermum í því máli og reyna m. a. að koma í veg fyrir að þeir Íslendingar, sem nota eldspýtur, reykingamenn sem eru helstu og bestu skattgreiðendur hæstv. ráðh., þurfi ekki að notast við ónýtar eldspýtur sem fást í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

Í þessu máli verður einnig að hafa fleira í huga. Þegar tekin eru skref í þá átt sem hæstv. ráðh. leggur til spyr maður sjálfan sig: Hvar enda þessi ósköp? Hvenær verður ríkið einkaleyfishafi á innflutningi á sykri, rúsínum, Tropicana o. s. frv., o. s. frv.? Öllum er ljóst að það er enginn vandi að brugga í þessu landi, það hefur verið gert frá alda öðli. Ég veit t. d. að ættmenn mínir, sem eru norðan úr Húnavatnssýslu, brugguðu löngu áður en nokkurt ger fékkst hér í landinu — það ger sem nú er verið að selja. Og ég veit m. a. s. að ýmsir sýslumenn reyndu að eltast við þá ágætu menn, en það tókst engan veginn því að þeir voru ekki bara á öðrum hvorum bæ, þeir voru á hverjum bæ og margir á hverjum bæ. Þetta hefur reyndar breyst eitthvað, og ég held að a. m. k. nokkrir þeirra séu það góðir skattgreiðendur að þeir gangi í búð hæstv. fjmrh. og kaupi annað veifið eina eða tvær flöskur frá honum. En allir vita að hæstv. ráðh. er eini og stærsti — ja, ég ætlaði ekki að segja sprúttsalinn, mér datt það í hug, en alla vega áfengissalinn á landinu og er ekkert að fela það, því að hann er maður sem reynir að halda vel um ríkissjóð og ná peningum með öllum tiltækum ráðum í þann sjóð sem ekki er digur um þessar mundir, eins og allir vita.

Þegar rætt er um skatta í þessu sambandi hafa sumir hv. þm., þ. á m. hv. 7. þm. Reykv., sagt að í raun séu það nánast skattsvik að brugga. Auðvitað má segja að ríkissjóður verði af einhverjum tekjum. Það má auðvitað leggja hærri tolla eða gjöld á það ger, sem þarna er um að ræða. En það er óþarfi að fá einkaleyfi á innflutningi á því geri þegar svo er yfirlýst að ekki á að selja eitt einasta gramm af því í landinu. En varðandi þetta skattsvikalögmál vil ég benda á, að það eru jafnmikil skattsvik að brugga og að borða heima hjá sér. Ég veit að vísu að hv. 7. þm. Reykv. borðar á Hótel Borg og þar borgar hann söluskatt af því sem hann borðar, en heima hjá sér sleppur hann við það, þannig að í hvert skipti sem maður borðar heima hjá sér eða á mötuneyti hins opinbera er maður að svíkja undan skatti samkv. þessu lögmáli. Þetta sjá allir að er tóm vitleysa og alger rökleysa.

Í bréfi, sem Guttormur Einarsson sendi þm. og ég ætla ekki að lesa allt, það er langt og ítarlegt bréf, en ég vona að hv. þm. kynni sér það bréf, kemur ýmislegt fram, og ég skal vera stuttorður í þessari upptalningu. Ég vitna í orð hans, og ég held að það sé ástæða til þess að þm. kynni sér þetta, því að hann er ágætur skattgreiðandi. (Gripið fram í: Og óhlutdrægur kannske?) Og óhlutdrægur í aðra röndina, a. m. k. ekkí hlutdrægari en hæstv. fjmrh., þeir eru að sjálfsögðu báðir aðilar máls. Hann bendir á að það sé upplýst að frv. byggist í fyrsta lagi á blekkjandi tilgangi, í öðru lagi á fölsuðum aðdraganda, í þriðja lagi á fræðilegri misnotkun á opinberu fé, í fjórða lagi á misnotuðum útreikningum, í fimmta lagi á villandi tilvitnunum í erlend lög, í sjötta lagi á uppspunnum félagslegum vandamálum, í sjöunda lagi á ísmeygilegum lagabreytingum gegn innlendum ölverksmiðjum og drykkjarvöruframleiðendum, í áttunda lagi á fáfræði fjmrn. og almennri vanþekkingu á gerlum og í níunda lagi á óskhyggju um 3 milljarða kr. kjaraskerðingu landsmanna og jafna viðbótarútgjaldaaukningu.

Ég ætla ekki að leggja dóm á hvað er rétt í máli Guttorms Einarssonar, en það er vissulega athugunarefni þegar ágætur skattgreiðandi fer með slíkt mál.

Þá vil ég að lokum, herra forseti, benda á að um þetta mál urðu snarpar umr. í Ed. og þar kom fram till. til rökst. dagskrár. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Með því að

a) vandi þjóðarinnar í áfengismálum er fólginn í mikilli neyslu áfengra drykkja,

b) úrbætur í áfengismálum leiða til minnkandi tekna ríkissjóðs af áfengissölu,

c) æskileg þróun er, að ríkissjóður byggi sem minnst á tekjum af áfengissölu, en

d) frv. þetta stefnir í öfuga átt með þeim tilgangi sínum að auka tekjur ríkissjóðs af áfengissölu,

samþykkir deildin að taka fyrir næsta mál á dagskrá í trausti þess, að ríkisstj. láti endurskoða áfengislöggjöfina í þeim tilgangi að draga úr áfengisneyslu þjóðarinnar, stuðla að hófsemi í meðferð áfengra drykkja, efla bindindi í landinu og auka aðstoð við drykkjusjúklinga, enda verði málið lagt fyrir Alþ. í byrjun næsta þings.“

Þessi till. féll í Ed. Ég ætla að leyfa mér að skýra það þannig, að það sé ekki vegna þess að þm. séu á móti bindindi og hófsemi í þessum efnum, heldur hafi hún verið felld af þjónkun við hæstv. ráðh. og vegna þeirrar staðreyndar, sem ég held að sé rétt, að í Ed. eru heldur íhaldssamari þm. en í hv. Nd. — Svo hefur verið frá fornu fari, ég þarf ekki að rifja upp þá sögu, hún er þekkt í Íslandssögunni, og allir vita hvers vegna deildaskipting er hér á Alþ. Mætti segja mér að eiginlega eimi dálítið eftir af íhaldssemi eftir deildum. Ég vil þess vegna skora á hv. þingsystkini mín hér í Nd. að sjá til þess, að það frv., sem hér liggur fyrir, fái verðuga útreið í þinginu. Ég skora á nm., sem fá þetta mál til meðferðar, að kynna sér það vel, ekki út frá tekjusjónarmiðum ríkissjóðs, heldur út frá þeim sjónarmiðum að ræða á áfengisvandamál þjóðarinnar í heild og skipulega. N. á að kynna sér og kanna hvort ekki séu fleiri og aðrar betri leiðir en sú sem hæstv. ráðh. er að fara hér, sem hann kallar að eigi að draga úr áfengisneyslu, en er í raun aðeins ein skattpíningarherferðin enn.

Ég læt svo máli mínu lokið, herra forseti, en ég veit að n. hlýtur að taka þessi sjónarmið til greina.