16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4869 í B-deild Alþingistíðinda. (4191)

277. mál, verslun ríkisins með áfengi

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni, að mér finnst heldur illur þefur af þessu frv. Mér þykir heldur hvimleitt þegar ríkisvaldið skýtur sér á bak við hið eiginlega erindi frv. inn á þing, þ. e. a. s. að draga meira fjármagn í ríkiskassann, og segir eitthvað í þá veru að frv. sé flutt til að reyna að draga úr áfengisneyslu í landinu. Þetta er ekki skynsamlega að farið og óeðlileg vinnubrögð að mínu mati.

Ég vona að þetta erindi ríkisvaldsins inn á þing fái svipaðan endi og þegar þjóðkunnur sómamaður, sem á árum áður eltist við bruggara, mætti pilti á götu með fötu í hendi sem smjörpappír var bundinn yfir og þótti honum það hið grunsamlegasta mál. Hann vék sér að piltinum, benti á fötuna og spurði hvað í henni væri. Piltur svaraði að bragði: „Það er blikk.“ Þá greip maðurinn í jakkaboðung pilts og spurði: „Hvað er þetta, drengur?“ — og hristi hann til. „Ja, þetta er nú ekta enskt ullargaberdín, 20-kall metrinn,“ sagði hann. Þá sagði sá sem var að elta: „Ja, það er kjaftur á þér, drengur.“ „Það er von,“ sagði strákurinn. „Við erum 9 í heimili, það eru bara til 8 skeiðar og ég verð að borða með sleifinni.“ Það er trúa mín að þetta frv. fari svipaða erindisleysu hingað inn í þingsali og þegar þessi sómamaður átti erindi við þennan pilt.

Mér er ekki ljóst, eftir að hafa lesið þetta frv., hvort það er ætlun ríkisins að taka upp sölu á bruggefnum sjálft. Þætti mér vænt um að hæstv. fjmrh. útskýrði það fyrir d., hvort tilgangurinn með frv. sé að taka sölu á þessum efnum úr höndum einkaaðila og fara að selja þau sjálft. Ef svo er er fullyrðingin um að ríkisvaldið sé að reyna að hafa vit fyrir fólkinu í landinu úr lausu lofti gripin.

Ég vil minna þm. á að hér á landi hefur verið bruggað um ekki bara áratuga, heldúr árhundraða skeið. Ef þeir halda, ágætir flm. þessa frv., að þeir geti stöðvað þá þróun er það einhver hlægilegasti misskilningur sem komið hefur upp á margra ára bili. Áfengisvandi íslensku þjóðarinnar verður ekki leystur með því að ríkisvaldið taki að sér einkasölu á bruggefnum, ef það er tilgangurinn eða ef ríkisvaldið ætlar að stöðva sölu á bruggefnum. Þar þarf allt annað og miklu meira að koma til.

Ég held að menn verði einnig að gera sér ljósa grein fyrir því, að eftir þá þróun, sem orðið hefur hér á landi á meðan ríkisvaldið hefur lokað augunum fyrir auðsæjum lagabrotum sem átt hafa sér stað um áratugaskeið, þ. e. a. s. brotum á lögum um bann við bruggun í heimahúsum, er hæpið að láta sér detta í hug að með einfaldri lagasetningu verði hægt að stöðva bruggun. Menn fara eins og kettir í kringum heitan graut og láta sem svo að bruggun hafi ekki átt sér stað. En allir menn vita að hún á sér stað í mjög ríkum mæli. Víngerðarefni er hægt að kaupa erlendis og flytja inn. Gerlum er hægt að halda lifandi með litlum tilkostnaði og lítilli kunnáttu. Það er hægt að nota margvísleg efni sem fást í búðum, hverri einustu matvöruverslun á Íslandi, til þess að brugga úr. Þetta vita allir.

En ég vil enn og aftur koma að því, að mér finnst ólykt af þessu frv., einfaldlega vegna þess hvernig það hefur verið grundvallað í framsetningu, þ. e. a. s. að láta að því liggja að með þessu sé ríkisvaldið, sem oft reynir að hafa vit fyrir einstaklingnum, að reyna að draga úr því vandamáli sem ofneysla áfengis er hér á landi. Þetta er hlægilegt — og ekki bara hlægilegt: fáránlegt. Ég mun eindregið leggjast gegn þessu frv. Það er ekki spor í neina átt. Ef það væri spar í einhverja átt væri það spor í ranga átt. Það er a. m. k. ekki spor í rétta átt.

Ég vil taka undir með síðasta hv. ræðumanni, sem benti á að endurskoðun áfengislöggjafarinnar er brýnasta verkefnið ef við ætlum einhverju sinni að komast að rótum þess meins sem við eigum við að stríða í sambandi við áfengismál hér á landi. Og þar er númer eitt fræðsluþátturinn, sem þarf að hyggja að og hefur allt of lengi verið sýnt áhugaleysi bæði í skólakerfinu og annars staðar í þjóðfélaginu.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri um þetta mál. Ég er á móti frv. Það er byggt á röngum forsendum og er heimskulegt.