16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4870 í B-deild Alþingistíðinda. (4192)

277. mál, verslun ríkisins með áfengi

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Stefna ríkisstj. í áfengismálum hefur verið mikið til umræðu á meðal þjóðarinnar í vetur. Kemur þar margt til en fyrst og fremst vegna þess máls sem nú er til umr. Hefur verið að vefjast fyrir rn. hvernig megi koma í veg fyrir að sú bruggun, sem á sér stað í landinu, haldi áfram.

Miðað við þær umr., sem hafa átt sér stað, og þær yfirlýsingar, sem ráðh. hafa gefið um málið, er ljóst að áhyggjur þeirra af brugguninni eru ekki fólgnar í að það kynni að vera meira drukkið af áfengi, heldur eru áhyggjurnar fyrst og fremst fólgnar í því að víngerð í heimahúsum kunni að leiða til einhvers tekjutaps fyrir ríkissjóð. Ég vil benda á að allar umræður um áfengismál og yfirlýsingar ráðh. um þau mál miða eingöngu að því að reyna að auka tekjur ríkissjóðs af áfengissölunni í landinu. Lítum aðeins á 2. gr. frv. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins annast innflutning vínanda, áfengis, tóbaks og annarra vara, sem ríkisstj. einni er heimilt að flytja inn, sbr. 1. gr., og dreifingu þessara vara undir yfirstjórn fjmrh. í því skyni að afla ríkissjóði tekna.“ — Ég undirstrika: „í því skyni að afla ríkissjóði tekna.“

Það má eiginlega segja að þarna standi skýrt og skorinort hver stefna ríkisstj. sé í áfengismálum: að afla ríkissjóði tekna.

Ég hef trú á því, að þetta frv. stöðvi ekki sölu á bruggefnunum, heldur haldi slíkt áfram á stórhækkuðu verði í áfengisútsölum ríkisins og áfengisneyslan og bruggunin stóraukist, vegna þess að náttúrlega hljóta það að verða hagsmunir fjmrh. og ríkissjóðs að enn verði aukið við áfengiskaupin. Hér er stórhætta á ferðum. Það hlýtur að verða stórhætta á ferðum þegar ríkissjóður er orðinn jafnháður áfengissölunni í landinu og hann raunverulega er, þegar það gerist á hv. Alþ. að borið er fram frv. eins og þetta eingöngu í því skyni að reyna að afla meiri tekna af áfengisneyslunni. Það er ekki verið að tala fyrst og fremst um að bruggunin sem slík sé eitthvert óæskilegt fyrirbrigði, þó hún sé náttúrlega bönnuð þegar alkóhólinnihald vökva fer fram úr 2.25%. Það er löglegt að brugga hvaða vökva sem er ef hann inniheldur ekki meira áfengismagn en 2.25%. En málið fjallar ekki um þetta, heldur að tryggja að tekjurnar af allri áfengissölu komi í ríkissjóð. Hér er vissulega hætta á ferðum. Ég ítreka, að við förum að sjá að okkur og taka höndum saman um að reyna að stemma stigu við að ríkissjóður verði jafnháður áfengissölunni og hann er, þannig að hægt verði að beita raunhæfum aðgerðum til þess að berjast gegn áfengisdrykkjunni í landinu.

Mér kæmi á óvart ef þetta mál hefði verið rætt í ríkisstj. Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. fjmrh. hvort svo sé, hvort þetta sé mál ríkisstj. eða hans eigið. Einnig vildi ég gjarnan að það kæmi fram, hvaða hæstv. ráðherrar komi. til með að styðja þetta mál. Ég man ekki eftir því að málið hafi verið rætt í þingflokki Alþfl. áður en það var lagt fyrir Alþingi.

Herra forseti. Ég lít svo á, að við höfum öðrum hnöppum að hneppa en horfa enn á það atriði að auka tekjur ríkissjóðs af brennivínssölu í landinu. Við höfum þeim hnöppum að hneppa að taka höndum saman um, hvernig við getum gert ríkissjóð óháðari áfengissölunni en hann er, og stemma raunverulega stigu við þeirri áfengisneyslu sem við eigum við að etja í þjóðfélaginu og er fyrir löngu orðin mikið vandamál.