16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4874 í B-deild Alþingistíðinda. (4195)

277. mál, verslun ríkisins með áfengi

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hélt því fram, að brugg í heimahúsum hefði stóraukist. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það er rétt.

Ég hef heyrt, en getur vel verið að það sé rangt, að drykkjulæti í heimahúsum hafi minnkað. Það er gott ef það reynist rétt.

Sala á áfengum drykkjum hjá ÁTVR hefur dregist saman. Það er líka gott ef rétt reynist. Áfengi, eins og það er skattlagt hér, er mjög dýr drykkur. Ef brugg í heimahúsum getur haft þær afleiðingar sem ég var að tala um, að drykkjulæti minnka og þar með verða kannske heilbrigðari drykkjuvenjur, held ég að það sé gott.

Mér skilst — ég er ekki mikill áfengismaður sjálfur — að fólk, sem veitir áfengi bruggað ólöglega, sé miklu sparara á áfengi sitt þegar það veitir heimabruggað vín en þegar veitt er úr flösku sem keypt er í áfengisverslun ríkisins. Það er nú einhvern veginn þannig, að þegar Íslendingur opnar þá flösku, sem hann kaupir í áfengisverslun ríkisins, verður hún að tæmast. Það er rétt, eins og gripið var fram í, að tappanum er þá venjulega kastað. Ef þessi er þróunin tel ég slíkt mjög heppilega þróun. Þá er mér ómögulegt að skilja, af hverju bindindissamtök eru andvíg slíkri þróun. Þau hafa barist árum og áratugum saman fyrir minnkandi drykkju, betri drykkjuvenjum og minni ólátum í heimahúsum.

Hitt er svo annað mál, að ég tel það ákaflega vafasaman málflutning hjá hæstv. fjmrh. að hafa allt það magn, sem flutt er inn til bruggunar, í huga þegar hann talar um heildarframleiðslu á væntanlega áfengum drykkjum úr þeim efnum sem flutt hafa verið inn til bruggunar á veikari drykkjum. Hann talar um að framleiddar séu um 250 þús. flöskur af mjög sterku áfengi. Þetta tel ég alhæfingu sem ekki eigi erindi inn í málið og geri ekkert annað en skemma þann málflutning sem hann vill að verði máli sinu til framdráttar. Ég held að einhver hluti af þeim efnum, sem flutt eru inn og brugga má úr, séu notuð til að brjóta lög, en ekki heildarmagnið.

Í sambandi við tekjurýrnun ríkissjóðs getur vel verið og ég efast ekkert um að tekjurýrnun ríkissjóðs, sem kemur fram í minnkandi sölu áfengisverslunar ríkisins, stafi að einhverju leyti af innflutningi á bruggunartækjum og efnum til bruggunar. En ég vona að hún stafi líka af því að þjóðin sé að verða bindindissamari, reglusamari.

Ég held að okkur sé öllum ljóst að boð og bönn ná aldrei því takmarki sem þeim er sett. Íslendingar eru þannig, að þeir láta ekki hefta sig fram yfir það sem réttlætiskennd hvers og eins býður. Það er hægt að setja hér lög eftir lög, en menn fara ekkert eftir þeim ef þau brjóta á móti réttlætiskennd þeirra. Spennitreyju þola Íslendingar ekki. Það þýðir ekkert. Við erum búin að fá mörg dæmi um það. Það þýðir ekkert, hvorki fyrir ríkisstj.Alþ., að ætla að fara að hugsa í öllum smáatriðum fyrir fólk.

Hæstv. fjmrh. leggur þetta frv. fram á þeim forsendum að stemma þurfi stigu við innflutningi á bruggtækjum og efnum til bruggunar vegna tekjutaps ríkissjóðs. Þá er eðlilegt að spyrja, og ég ætlast til þess að fjmrh. hafi búist við þeirri spurningu við þessar umr. og sé reiðubúinn að svara henni: Hvert er hið raunverulega tekjutap ríkissjóðs, úr því að málið er svona lagt fram? Hverjar eru tolltekjur af bruggunartækjum og efnum til bruggunar sem hér hafa verið rædd? Það getur ekki verið að fjmrh. komi hingað svo illa vopnum búinn að hann geti ekki svarað þessari spurningu. Hver er nettómismunurinn á tolltekjutapi, þ. e. a. s. tekjum af bruggunartækjum og efni til bruggunar, og svo hinni minnkandi sölu áfengisverslunar ríkisins? Ég tel sjálfsagt, og af þeim ástæðum mun ég styðja þá frávísunartill. sem hér hefur verið lögð fram, að vita hvort er skaðlegra íslensku þjóðinni: sala og tekjuöflun ríkissjóðs af áfengum drykkjum eða framleiðsla einstaklinga sem sögð er vera í talsverðum mæli í heimahúsum. Ég er reiðubúinn til þess að standa að samþykkt á hvaða lögum sem er sem bæta sambúð þjóðarinnar við vínföng og áfenga drykki. En það verður að vera ljóst, að lög, sem samþykkt eru á hv. Alþ., séu óumdeilanlega til bóta þegar til framkvæmdar þeirra kemur. Ef það liggur ekki ljóst fyrir, held ég að rangt sé að bera fram það frv. sem hér liggur fyrir.