16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4875 í B-deild Alþingistíðinda. (4196)

277. mál, verslun ríkisins með áfengi

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Satt að segja átti ég ekki von á því, að tími gæfist til að ræða ítarlega það frv. sem hér er á dagskrá, þegar tekið er tillit til þess að á dagskrá fundarins eru 24 mál. Manni hefur skilist að hæstv. ríkisstj. hafi áhuga á að koma ýmsum málum fram áður en þingi lýkur, og var þá kannske tilefni til að taka fyrir einhver önnur mál og reyna að fá afgreiðslu á þeim. En úr því að ekkert brýnna er en að ræða þetta mál eins ítarlega og raun ber vitni er sjálfsagt að taka þátt í þeim umr., fara nokkrum orðum um frv. og lýsa skoðunum á því í stórum dráttum.

Ég vil fyrst segja það, að ég er enginn áhugamaður um vínneyslu og mæli ekki bót óleyfilegri bruggun. Ég tel að Alþ. eigi auðvitað að stuðla að því með löggjöf og með framkvæmd laga að lög séu ekki brotin, eins og hugsanlega er gert á þessum vettvangi.

Hér hefur komið fram, m. a. í máli hæstv. ráðh., að áfengisneysla sé hið alvarlegasta vandamál og hann vilji gera flest til þess að eyða því vandamáli. Ég tek undir það. En þá er auðvitað einfaldasta ráðið hjá ráðamönnum þessarar þjóðar að banna sölu áfengra drykkja á Íslandi, grípa til þess ráðs að banna hér sölu áfengra drykkja og þá um leið neyslu þeirra. En hvers vegna skyldi það ekki vera gert? Auðvitað vegna þess að áfengi er staðreynd á Íslandi og notkun þess sömuleiðis. Menn gera sér grein fyrir því, að það er algerlega þýðingarlaust að setja hér á vínbann. Enda þótt slíkt bann yrði sett á mundu landsmenn fara í kringum það bann með ýmsum ráðum, eins og sagan sannar. Upphefjast mundi stórfellt smygl og brugg mundi vaxa að miklum mun og menn mundu grípa til ýmissa ráða til þess að verða sér úti um áfengi og neyta þess. Þess vegna er þýðingarlaust að berjast gegn vínneyslu með því að halda uppi bannstefnu í þeim efnum.

Viðbrögð þeirra, sem vilja draga úr vandamálum sem stafa af áfengisneyslu, hljóta að verða önnur en setja á bann. Þau viðbrögð gætu verið og eiga að vera fólgin í því að uppfræða fólk um skaðsemi áfengisneyslu með því að veita hvers konar aðstoð þeirri æskulýðs- og félagsstarfsemi í landinu sem beinir almenningi og þá ekki síst unglingum frá því að neyta áfengra drykkja. Það þarf að örva hvers konar tómstundastarf og áhugastarf hjá æskulýð landsins þannig að hann fái útrás í ýmsum verkefnum og ýmsum störfum sem ekki kalla á áfengisneyslu og fæla fólkið frá ofneyslu þess. Ég held að það sé miklu verðugra og merkilegra verkefni fyrir löggjafarvaldið og fyrir ríkisstj. og þá aðila, sem eru á móti áfengisnotkun, að reyna að stuðla einmitt að því að meira fé sé veitt til æskulýðsstarfa, t. d. íþróttastarfa, og vinna þannig fyrirbyggjandi starf.

Ég held að líka sé nauðsynlegt, um leið og horfst er í augu við að vín sé notað, að bæta vínmenningu almennings, kenna fólki að umgangast vín í hófi og haga áfengislöggjöfinni og verðlagningu á áfengi þannig að fólk drekki meira í hófi og drekki þau vín sem draga úr miklum áhrifum af neyslu þeirra.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að vegna mjög rangrar áfengislöggjafar á Íslandi og vegna mjög rangrar verðlagningar á áfengum drykkjum sé m. a. það staðreynd, að brugg hefur aukist mjög verulega á Íslandi á allra síðustu árum. Þetta brugg er opinbert leyndarmál. Ég skal ekki leggja dóm á þær tölur sem hér hefur verið farið með um magn bruggsins, hvorki að innihaldi né magninu sjálfu til en það er staðreynd að mikið er bruggað á Íslandi. Ég skil þetta frv. svo, að verið sé að gera tilraun til að draga úr bruggun. Bruggið er auðvitað afleiðing af rangri áfengislöggjöf og rangri verðlagningu á víninu: Þarna kemur fram sjálfsbjargarviðleitni fólks sem vill hafa vín um hönd og sér þarna ódýrari og hagkvæmari leið til þess að verða sér úti um áfengi en einfaldlega að kaupa það dýru verði í áfengisverslun ríkisins.

Það sorglega við þetta frv. er þó það, að samkv. framsögu með þessu máli og samkv. grg., sem fylgir frv., virðist meginþunginn. liggja á því að auka tekjur ríkisins með því að taka upp einkasölu á þeim efnum sem hér um ræðir. Það er athyglisvert að lesa grg. Ég gríp niður þar sem segir, með leyfi forseta:

„Af því, sem hér að framan hefur verið rakið, má ljóst vera að auk þeirra alvarlegu félagslegu vandamála, sem fylgja eða fylgja kunna ástandi því sem nú ríkir í þessum málum, hefur ríkissjóður þegar orðið fyrir mjög verulegu tekjutapi af þessum sökum. Í þessu sambandi er vert að geta þess, að tekjur ÁTVR af áfengissölu á s. l. ári voru ca. 1.5 milljarði lægri en gert var ráð fyrir að þær yrðu samkv. fjárlögum 1978. Þá eru tekjur ÁTVR af áfengissölu á fyrsta ársfjórðungi þessa árs ca. 20% lægri en gert hafði verið ráð fyrir. Verði ekkert aðhafst til að hamla gegn þessari þróun hefur það í för með sér að tekjur ÁTVR verða a. m. k. 3 milljörðum kr. lægri í ár en gert var ráð fyrir að þær yrðu samkv. fjárlögum.“

Af upplestri þessara setninga er ljóst að þeir, sem semja þetta frv. og bera það fram, hafa mestar áhyggjur af því að tekjutap áfengisverslunarinnar og þá ríkissjóðs sé svo mikið að ríkissjóði sjálfum stafi veruleg hætta af. Þeir vilja stemma stigu við þessu tekjutapi, þeir vilja grípa til einhverra aðgerða og þá er þetta frv. flutt. Það er alveg augljóst að samkv. grg. er sá megintilgangurinn með flutningi frv.

Hæstv. ráðh. reyndi að klóra í bakkann í seinni ræðu sinni og fór nokkrum orðum um það félagslega vandamál sem stafar af áfengisneyslu. Það var út af fyrir sig góðra gjalda vert, og ég veit að hann meinar allt það sem hann segir. En það er of seint í rassinn gripið vegna þess að frv. er flutt í öðrum tilgangi. Í ræðu hæstv. ráðh. kemur líka fram mikill tvískinnungur, vegna þess að sami ráðh., eins og hér hefur komið fram, er langsamlega stærsti áfengissalinn í landinu. Ef hann vill draga úr því félagslega vandamáli sem áfengisneysla hefur í för með sér ætti hann auðvitað að leita leiða með því að draga úr vínsölunni, en ekki að tíunda þau rök, sem mér virðast koma fram í þessu frv., að það þurfi einhvern veginn að auka áfengissöluna til að forða ríkissjóði frá verulegu tekjutapi.

Ef við ræðum um hið félagslega vandamál, sem við erum auðvitað sammála um að er fyrir hendi vegna áfengisneyslu, kemur upp sú spurning: Mundu hin félagslegu vandamál minnka við samþykkt þessa frv.? Ég stórlega efast um það. Sannleikurinn er sá, að það áfengi eða þau vín, sem brugguð eru, teljast til léttra vína. Við vitum af reynslu að mikill munur er á hvort fólk neytir léttra vína eða sterkra drykkja. Hættan er auðvitað sú, að ef dregið verður úr bruggi með þessu frv. t. d. og gerðar einhverjar ráðstafanir í því sambandi muni fólk aftur leita í sterku drykkina. Ég held að ein ástæðan fyrir því, að brugg hefur aukist eins mikið og raun ber vitni um, sé röng verðlagning á léttum vínum. Ríkissjóður hefur lagt svo mikla áherslu á að hafa miklar tekjur af áfengissölu að hann hefur sífellt hækkað verð m. a. á léttum vínum og bægt þannig fólki frá því að kaupa þau vín í áfengisversluninni og neytt það til að fara að brugga sjálft. Ég held því að röng verðlagning á hinum einstöku tegundum áfengra drykkja sé ein skýringin á því að fólk hefur gripið til þess að brugga. Ég er þeirrar skoðunar að neysla léttra vína, hvort sem það er léttra vína, sem keypt eru í áfengisversluninni, eða neysla bruggaðra, áfengra drykkja, skapi ekki mestu vandamálin varðandi áfengi. Og ég held að um leið og við gerum okkur grein fyrir að vinneysla er staðreynd förum við að bæta umgengni fólks á víni og vínmenninguna. Ég held að ein aðferðin sé að beina neyslunni að léttum vínum frekar en sterkum drykkjum.

Því miður held ég að það sé rétt, sem hér hefur verið sagt í dag, að enda þótt þetta frv. yrði samþ. mundi það ekki breyta neinu, fólk héldi áfram að brugga, það mundi leita annarra ráða. Það er alveg vonlaust að stöðva þá þróun, a. m. k. með þessum hætti. Ég hef haft áhyggjur af því, að einmitt vaxandi bruggun á Íslandi sé að leiða til þess að útilokað verði annað en heimila sölu á áfengu öli. Því miður, segi ég. Ég mun styðja hvert það mál og hverja þá till. sem stuðlar að því að dregið sé úr áfengisneyslu á Íslandi, og ég hef ekki verið hrifinn af því að heimila sölu á áfengu öli á Íslandi, en ég held að sú hætta sé því miður fyrir hendi núna og sala áfengs öls sé eina ráðið til að stöðva óleyfilega bruggun og til að bæta vínneyslu á Íslandi. Þetta er óhugnanleg niðurstaða, ef hún er rétt, en ég bið menn um að velta þessu fyrir sér. Allt bendir til þess að þetta sé rétt ályktun af minni hálfu.

Mér þykir það miður að áfengi sé haft að féþúfu og það sé orðinn svo mikilvægur tekjuliður hjá ríkissjóði að grípa þurfi til ráða eins og þetta frv. felur í sér til að bæta hag ríkissjóðs. Ég tek undir það sem fram kom hér, að ég held hjá hv. þm. Gunnlaugi Stefánssyni, að auðvitað á alls ekki að vera nein forsenda í þessu máli hvaða tekjur ríkissjóður hefur af áfengisneyslunni. Það á auðvitað að vera meginsjónarmið ríkisvaldsins og okkar allra að á þessum málum sé tekið þannig að við getum dregið úr áfengisneyslunni, að við séum alls ekki að velta því fyrir okkur hvort ríkissjóður hafi meiri eða minni tekjur af sölu áfengis. Því miður sýnist mér af lestri grg. með frv. að það sé hins vegar forsenda fyrir flutningi þessa máls.

Herra forseti. Ég er andvígur þessu frv. af þeim ástæðum sem ég hef rakið. Ég tel að það nái engan veginn tilgangi sínum, það leysi engin félagsleg vandamál. Ég vík til hliðar öllu tali um meiri eða minni tekjur af sölu þeirra efna sem hér um ræðir. Og ég er andvígur því, að tekin sé upp einkasala á efnum sem þessum. Reyndar tel ég að einkasölur séu til lítils gagns, ef á annað borð er leyfð sala á einu eða öðru. Ég held að samþykkt á þessu frv. mundi einfaldlega leiða til aukins smygls og áframhaldandi bruggs. Ég held að það sé til lítils að vera að hafa vit fyrir fólkinu í þessum efnum, það finnur sér einhvern farveg til þess að verða sér úti um þá drykki sem sagt er að séu bruggaðir úr þeim efnum sem hér um ræðir. Ég held, eins og hv. þm. Árni Gunnarsson sagði áðan, að boð og bönn séu fánýt á þessum vettvangi. Það, sem skiptir máli, er auðvitað að fræða fólk um skaðsemi áfengisins og efla hvers konar starfsemi í þjóðfélaginu sem bægir fólki frá því að neyta áfengra drykkja, að kenna fólki að leita hamingju með öðrum hætti en þeim að drekka brennd vín.

Þessum sjónarmiðum vildi ég koma á framfæri, herra forseti, strax núna við 1. umr. Ég fer ekki út í einstakar aths. við greinar frv. Það bíður betri tíma, ef það þá kemur úr n. aftur, sem ég vona að verði ekki.