17.05.1979
Sameinað þing: 96. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4886 í B-deild Alþingistíðinda. (4209)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég ætlaði að segja hér aðeins nokkur orð vegna þeirrar undarlegu ræðu sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson flutti áðan, þar sem var að finna allfurðulegar hugmyndir um störf þingsins og þær umr. sem hafa átt sér stað milli ríkisstjórnarflokkanna um efnahags- og kjaramál að undanförnu. Ef reynt er að rýna í meginatriðin í þessari undarlegu ræðu, þá virtist þar vera krafa um að þingið sæti áfram, eins og hæstv. forsrh. var að víkja að áðan, þar til séð væri fyrir endann á því, hvort ríkisstj. ætlaði að grípa til lagasetningar. En á sama tíma kom það fram hjá hv. þm., að þegar við aðrir stuðningsmenn þessarar ríkisstj., þm. ríkisstjórnarliðsins, höfum nú í tæpan hálfan mánuð beðið eftir till. frá Alþfl. í þessum efnum, þá hefur hann engar till. fram að færa. Alþfl. virðist eftir næturfund hafa komist að þeirri niðurstöðu, að a. m. k. í bráð, e. t. v. um langa framtíð, eigi hæstv. ríkisstj. ekkert að gera í þessum málum — ekki neitt. Ég sé þess vegna ekki hvernig sami flokkur getur síðan — eða formaður þingflokks hans — krafist þess sérstaklega að Alþ. sitji hér og bíði eftir því sem hann telur og virðist vera stefna Alþfl., að ekki eigi að gera neitt, vegna þess að af þeirri skýrslu, sem hann gaf hér, virðist að loksins eftir erfiðar fæðingarhríðir, marga þingflokksfundi hjá Alþfl., sérstaka nefndaskipun og annað, hafi niðurstaðan orðið núll, þá hafi niðurstaðan orðið sú, að Alþfl. hafi engar till. um hvað ríkisstj. eigi að gera.

Ég vil upplýsa hv. þm. Sighvat Björgvinsson, sem situr í Nd., um að nú er þannig komið þingstörfum að hv. Ed. þessa þings er á góðri leið með að ljúka þeim málum sem þar liggja fyrir eða eru til umr. (Gripið fram í.) Nei, það var einmitt það sem ég ætlaði að koma að. Starfshættir Ed. þingsins, þingmanna þar og þess ágæta forseta sem við höfum þar, hafa verið slíkir að Ed. er nú næstum því búin að tæma verkefni sín og þar hafa mál verið afgreidd hvert á fætur öðru, svo að innan tíðar blasir það við, ef heldur áfram þeim starfsháttum sem m. a. hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur átt verulega hlutdeild að í Nd. þessa þings, að Ed. verður verkefnalaus. Og hvað sem líður hinum svokölluðu fræðilegu bollaleggingum hv. þm. Sighvats Björgvinssonar um þingræði hér áðan og fallegum orðum um það, þá er ég viss um að þjóðin vill ekki þingræði aðgerða- og verkefnalausra þm. Og ég held að við verðum að horfast í augu við það, að annar hluti þingsins, hv. Ed., er innan örfárra daga búinn að ljúka öllum þeim verkefnum sem þar eru fyrirliggjandi. M. a. hefur d. nú á síðustu dögum afgreitt hvert málið á eftir öðru sem hæstv. ráðh. Alþfl. hafa lagt fyrir þá deild. Ég vil því sem þm. Ed. koma því á framfæri við hv. þm. Sighvat Björgvinsson og aðra þm. Alþfl., að ef þeir gera kröfu til þess að þingið sitji áfram lon og don, þá sjái þeir í fyrsta lagi þinginu fyrir einhverjum verkefnum, í öðru lagi semji þeir einhverjar till. um þau vandamál sem við þjóðinni blasa nú, því að staðreyndin er sú, að þar sem unnið hefur verið vel í þessu þingi, í hv. Ed., þar er verkinu að verða lokið.