17.05.1979
Efri deild: 106. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4889 í B-deild Alþingistíðinda. (4215)

226. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 793 skrifaði ég undir það með fyrirvara. Ég get raunar tekið undir þá skoðun, sem kom fram hér hjá hv. frsm., 5. þm. Reykn., að eðlilegra hefði verið, þegar á annað borð var farið að gera breytingar á lögum um fiskveiðilandhelgi Íslands, að það hefði verið gert að undangenginni frekari athugun fyrir fleiri landssvæði en hér kemur fram. En eins og hv, dm. vita hefur ekki gefist tími til þess að fara mikið ofan í þessi mál hér á hv. Alþ. Þetta er mjög viðkvæmt og viðamikið mál sem hér er um að ræða.

Gera má ráð fyrir að þetta frv. verði að lögum þar sem hv. Nd. hefur samþ. það, og því vil ég benda á og láta koma fram hér sem mína skoðun, að vitanlega opnar þetta rétt annarra landshluta til þess að fara fram á það við hv. Alþ. að fiskveiðilandhelgin verði opnuð á ýmsum svæðum umhverfis landið, þar sem nauðsyn kann að vera að veita smærri bátum möguleika til veiða eftir fyrirframgerðri athugun fiskifræðinga. Ég tel að það sé ekkert vafamál að eftir því verði leitað, því að eftir að þessi till. kom fram hér á hv. Alþ. hef ég m. a. verið beðinn að flytja brtt., sem ég þó hef ekki gert, vegna þess að ég tel að þetta sé svo vandasamt mál að það þurfi að fara fram á því ítarleg skoðun bæði fiskifræðinga og hagsmunaaðila í hverjum landshluta áður en gengið verður að því gefnu að Alþ. fari að breyta þessum lögum.

Ég verð að segja það, að sá rökstuðningur, sem kemur fram í þessari brtt. við lögin, að það væri nauðsynlegt að opna þetta svæði vegna vannýtts skarkolastofns, að það fær ekki að mínu mati staðist. Ég tel að það sé ákaflega furðuleg staðhæfing þegar þess er gætt, að hér er ætlast til að bátar fái að fara inn í landhelgina með fiskitroll sem eru með 35 mm möskva í nót og þegar vitað er að þarna er um að ræða litla báta, allt upp að 50 tonnum, sem geta ekki haft útbúnað veiðarfæra sinna öðruvísi en að það hlýtur að vera hálflokuð nót sem um verður að ræða. Ég dreg í efa að þessi svæði verði þannig nýtt með þessari opnun að þar komi eingöngu til greina veiðar á skarkola, heldur muni verða um aðrar fisktegundir að ræða. Fiskifræðingar, sem komu á fund nefndarinnar í morgun, gátu ekki fullyrt að svo yrði ekki. Ég óttast því að þarna verði um hættu á smáfiskadrápi að ræða.

Ég vil hins vegar taka undir það, að nauðsynlegt er að athuga rækilega hvort ekki sé eðlilegt að bátar við Ísafjarðardjúp eða Vestfirði, sem árum saman hafa stundað rækjuveiðar, fái annað hlutverk, því að ég tel að rækjuveiðar, eins og þær hafa verið stundaðar hér á Íslandi á undanförnum árum, hafi verið hættulegar í sambandi við uppeldi þorskstofnsins. Ég efast ekkert um að þar hefur árum saman verið um að ræða seiðadráp, þó að það hafi ekki komið fram fyrr en nú á síðustu árum þegar tæknin var orðin slík að hægt er að fylgjast vandlega með þessu frá degi til dags.

Með tilliti til þess, að nú er komið að þinglokum og að þetta er sjálfsagt nauðsynleg aðgerð fyrir hluta fiskiskipaflotans sem hefur ekkert verkefni á þessu tímabili í þessum landshluta, hef ég fallist á að skrifa undir þetta nál., en taldi rétt að hafa þennan fyrirvara. Og ég vil endurtaka, að þessi lagabreyting, ef að lögum verður, hlýtur að verða til þess að aðrir landshlutar sæki fast á það að fá sérstök svæði opnuð fyrir sína báta sem þurfa á því að halda.