17.05.1979
Efri deild: 106. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4891 í B-deild Alþingistíðinda. (4217)

226. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. skrifaði ég undir það án fyrirvara. Ég sé ekki neina ástæðu til annars, og ég sé ekki heldur neina ástæðu til þess, eins og hv. frummælandi nefndarinnar, að vera með meiningar um ætlun flm. frv. Þetta er ekki nema sjálfsagt mál. Það er stutt síðan við fengum full yfirráð yfir 200 mílna fiskveiðilögsögunni og það eru miklar breytingar að verða hjá okkur í fiskveiðimálum. Það er mikill skoðanamunur fiskifræðinga og fiskveiðimanna um það hvert stefni, og það er ekki nema sjálfsagt að við þreifum fyrir okkur á miðunum og gerum okkur grein fyrir hvernig veiðum verði best við komið. Því gerðist ég nú í vetur flm.till. um að leyfa dragnótaveiðar í Faxaflóa. Og á sama hátt skrifa ég hiklaust undir þetta nál.

Við vitum að við getum ekkí eingöngu veitt á togaraflotanum. Við verðum að nota þann flota sem til er. Við eigum mikið af bátum sem hafa takmarkaða möguleika, og við verðum að leysa þann vanda sem þessi floti og útgerðarmenn hans standa frammi fyrir. Hér er gerð tilraun til að leysa vanda þess flota sem er á Vestfjörðum og ekki nema sjálfsagt að gera það. Þarna er skarkolinn á göngu. Hann er að ganga úr fjörðunum út á dýpið á haustin, og hann er í mjög góðu ástandi á þessum tíma og því bæði vinnanlegur og seljanlegur.

Sú skoðun fiskifræðinganna kom fram, að þeir eru ekkert hræddir um að þarna verði veitt mikið af smáfiski. Það er lítið af öðrum fiski á þessum slóðum á þessum tíma að áliti þeirra og því algerlega hættulaust. Eins kom það fram í máli þeirra manna sem þarna eiga hlut að máli, fiskimannanna, að þeir bjóðast til þess að nota þarna 170 mm möskva, og því getur ekki orðið nein hætta fyrir þorsk eða ýsu og verður ekki annað en skarkoli sem í það troll verður tekið.

Ég tek einnig undir þann ótta sem komið hefur fram hjá þeim, sem talað hafa á undan mér, um rækjuveiðarnar. Þær hafa vissa hættu í för með sér sem við þurfum helst að komast hjá, og því þarf að kanna hvaða möguleika þessir bátar hafa annan en að veiða rækju. Það er staðreynd, að reglur okkar um fiskveiðar verða að vera í stöðugri endurskoðun og við verðum að afla okkur þeirrar reynslu sem nauðsynleg er, ekki aðeins fyrir Vestfjörðum, heldur og í öðrum landshlutum. Ég hef ekkert á móti því að till. komi um að leysa vanda annarra landshluta innan tíðar þar sem hann er fyrir hendi.