09.11.1978
Sameinað þing: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

55. mál, jöfnun upphitunarkostnaðar í skólum

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð um till. sem hér liggur fyrir. Hún kemur inn á málefni sem brennur mjög á okkur sem búum á hinum svokölluðu köldu svæðum, á fyllilega rétt á sér og ég tek undir efni hennar. Það er fyllilega tímabært bæði að vekja athygli á því og eins að reyna leiðir til frekari úrbóta í þessu máli en þegar hefur verið gert.

Eftir hina miklu sveiflu í olíuhækkunum sem varð hér 1973 og 1974 varð auðvitað ljóst, að hér kom upp mismunun sem ekki hafði verið gert ráð fyrir þegar verkaskipting ríkis og sveitarfélaga varðandi skólakostnað var ákveðin. Því var það, að á þinginu 1974–1975 flutti Sigurður Blöndal frv. hér á Alþ. um þetta mál, beint varðandi lausn þess, frekari jöfnun og að segja má þá frekustu jöfnun sem hann gat þá hugsað sér, og hafði í því sambandi samráð við menntmrn. um þá leið sem hentugust væri og réttust í þessu efni. Frv. var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta, að aðalefni, að ríkissjóður greiði upphitun skólahúsnæðis á móti sveitarsjóðum í því hlutfalli sem nú skal greina: Sveitarsjóðir greiði upphitun sem nemur meðaltalskostnaði á fermetra í skólahúsnæði þar sem nýtur jarðhita, sbr. útreikninga sem við höfðum þá til grundvallar því, en ríkissjóður greiði eftir á samkv. endurskoðuðum reikningum og fskj. upphitun sem er yfir því marki, sem 4. mgr. tiltekur, upp að meðaltalskostnaði á fermetra í skólahúsnæði þar sem hitað er með olíu eða rafmagni.

Hér var sem sagt miðað við meðaltal af hvoru tveggja og ekki gert ráð fyrir ítrustu greiðslu ríkissjóðs á því sem umfram væri, heldur aðeins upp að því marki sem meðaltalið við upphitun með olíu eða rafmagni gerði ráð fyrir.

Þetta frv. var flutt síðla á þessu þingi og fékk þar ekki afgreiðslu. Það var svo endurflutt af okkur hv. þm. Stefáni Jónssyni árið eftir og fékk þá nokkrar undirtektir. M.a. var þá skýrt frá því, að í ráði væri breyting á lögum um ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnaði íbúða sem lytu að þessu marki, og á þeim forsendum var þessu frv. þá vísað frá.

Ákvæðið, sem kom síðan inn í þessi lög, er svo hljóðandi, með leyfi forseta, að fjárhæðinni, sem ákveðin er í fjárl. hverju sinni til að draga úr áhrifum olíuverðhækkunar á hitunarkostnaði íbúða, skal varið til að styrkja heimavistarskóla á grunnskólastigi sem verða að nota olíu til upphitunar. Skal styrkur á hvern nemanda í heimavist þann tíma sem skólinn starfar vera sambærilegur við það sem veitt er á hvern einstakling samkv. a-lið. Nú upplýsti flm. þessarar till., að þegar heildardæmið væri skoðað breytti þetta ekki niðurstöðunni um mismun, eins og raunar var bent á þegar þessi lagabreyting kom fyrst fram, þó að óneitanlega samþykktum við, sem þá vorum í stjórnarandstöðu, að þetta væri þó til nokkurra bóta.

Ég sé sem sagt á þeim tölum, að þrátt fyrir þetta hafa þær niðurstöður, sem hv. flm. kynnti hér áðan, lítt breyst í samanburði við þær upplýsingar sem við Sigurður Blöndal fengum frá menntmrn. á sínum tíma. Hér er enn þá, þrátt fyrir þennan olíustyrk, um gífurlegan mismun að ræða. Það var á það bent líka þegar þessi breyting var gerð, að hér væri um of litla leiðréttingu að ræða. Hún fékkst þá ekki fram frekar. Ég hlýt því að taka rækilega undir með flm., að það sé skylt að rasa auðvitað ekki um ráð fram í þessu efni, kanna vel í hverju þessi mismunur liggur, hve mikill hann er, gera till. um með hvaða hætti best sé að ná þessum jöfnuði, eins og í till. segir, en svo fyrst og fremst auðvitað að framkvæma eitthvað í þá átt að koma hér á nokkrum jöfnuði. Það má gera með ýmsum hætti, og ég treysti því, að hæstv. núv. iðnrh. muni leggja sitt af mörkum til þess að meginefni þessarar till. komist í framkvæmd í samráði við aðra ráðh. hæstv. ríkisstj.