17.05.1979
Neðri deild: 90. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4898 í B-deild Alþingistíðinda. (4240)

270. mál, aðstoð við þroskahefta

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Til þess að forðast misskilning, þá er ég mikill stuðningsmaður þroskaheftra enda þótt ég sé mikill andstæðingur hæstv. ríkisstj. Það þarf ekki endilega að blanda þessu alltaf saman. Ég minni á það, að við afgreiðslu á frv., sem hv. 12. þm. Reykv. flutti hér í hv. d. á sínum tíma, greiddi ég með mikilli ánægju atkv. með fjáröflun í þessu sama skyni. Síðan hefur sá sami hv. þm. ásamt öðrum stjórnarliðum sett fyrir mig lög sem stefna í allt aðra átt. Ég er löghlýðinn maður og hlýt að fara eftir því sem segir í 8. gr. laga um stjórn efnahagsmála, þar sem allt önnur stefna er tekin en sú sem hér er uppi. Svo er að heyra á hv. stjórnarliðum, að þeir verji sig í þessum málum með því að óhætt sé að samþykkja a-lið 25. gr. þessa frv., sem hér um teflir, vegna þess að í landinu séu lög sem gefa þeim færi á að taka þetta upp til endurskoðunar fyrir n. k. áramót. Það er lag á þessu. Þetta er yfirtak, býsn og fádæmi, það er varla hægt að tala um það mýkri orðum. Það liggur við að ég taki mér í munn orð sem hæstv. félmrh. lét sér um munn fara eigi alls fyrir löngu, bara með öfugum formerkjum, að slíkt ákvæði eins og a-lið 25. gr. geti enginn heilvita maður samþykkt. En ég geri þetta ekki af því að ég heyri að ýmsir eiga þarna hlut að sem ég vil ekki fara slíkum orðum um. En með vísan til nýsettra efnahagslaga er ég til þess knúinn, fyrir nú utan það að vera flm. till., að segja já við henni.