17.05.1979
Neðri deild: 90. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4899 í B-deild Alþingistíðinda. (4246)

275. mál, skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

Frsm. meiri hl. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar d. hefur haft þetta frv. til athugunar og skilað um það nál. á þskj. 740. Meiri hl. n., stuðningsmenn ríkisstj. í n. mæla allir með samþykkt frv. án breytinga. Minni hl. í n., fulltrúar Sjálfstfl. gefa hins vegar út sérstakt nál. á þskj. 761 og gera þar grein fyrir afstöðu sinni til málsins.

Á fund fjh.- og viðskn. komu þeir aðilar úr viðskrn. og frá Seðlabankanum, gjaldeyriseftirliti bankans, sem mest höfðu haft með að gera að semja þetta frv., og veittu n. þær upplýsingar sem um var beðið.

Í ljós kom að þetta frv. gerir ráð fyrir nokkru skýrari ákvæðum um ýmis atriði, sem snerta eftirlit með gjaldeyri og gjaldeyrisskilum, en nú eru í lögum og reglugerðum og einnig nokkur ákvæði sem telja verður alveg ný, þess efnis að veita gjaldeyriseftirlitinu og stjórnvöldum nokkuð aukinn lagalegan rétt til eftirlits í þessum efnum.

Fulltrúar gjaldeyriseftirlitsins lögðu á það allmikla áherslu að þetta frv. næði fram að ganga, ef gjaldeyriseftirlitið ætti að geta sinnt störfum sínum á þann hátt sem þeir telja að nauðsynlegt sé.

Niðurstaðan í fjh.- og viðskn. varð sem sagt sú, að meiri hl. mælir með því að frv. nái fram að ganga óbreytt.