17.05.1979
Neðri deild: 90. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4902 í B-deild Alþingistíðinda. (4248)

275. mál, skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í ræðu um þetta mál sem nú er komið úr hv. fjh.- og viðskn. Hér er um að ræða frv. til l. um skipan gjaldeyris-. og viðskiptamála og frsm. meiri og minni hl. hafa mælt fyrir sínu áliti. Ég þarf vart að taka það fram, að ég styð álit minni hl. sem er í þá veru að þetta frv. fái ekki staðfestingu Alþingis á þessu þingi, heldur verði kannað betur með sérstöku tilliti til þeirra ábendinga sem fram hafa komið.

Það er alveg ljóst, að það er stefna Sjálfstfl. að okkur beri að taka skref í átt til frjálsræðis í gjaldeyris- og viðskiptamálunum eins og annars staðar í efnahagskerfinu. Hv. frsm. minni hl. minntist í því sambandi á stofnun gjaldeyrisreikninganna sem eitt af þeim fáu skrefum sem tekin hafa verið frá því að gjörbreyting var á þessum málum og mörgum öðrum um 1960 eða við upphaf viðreisnarstjórnarinnar. Ég þarf ekki að fara fleiri orðum um það, að það er í þeim anda og í þá átt sem Sjálfstfl. vill ganga í þessum málum. Hann hefur sífellt lagt á það áherslu í öllum sínum yfirlýsingum að hann vilji halda því áfram og fái hann afl til í íslenskum stjórnmálum, þá vilji hann ganga í frjálsræðisátt í þessum málum. Við verðum að hafa það í huga, að ef uppræta á spillingu og ef hér á að koma á sæmilega heilbrigðu kerfi í viðskipta- og gjaldeyrismálum, þá er sú stjórn, sem best er til að ná þeim árangri, fólgin fyrst og fremst í réttri gengisskráningu, í þeim almennu aðgerðum sem tiltækar eru til þess að leggja mælistiku á þau verðmæti sem um er að ræða.

Ég hafði ekki tækifæri til að kynna mér þetta frv. ítarlega fyrr, en hef í samstarfi við aðila utan þingsins, sem ég treysti, farið yfir þetta frv. og hef nú til íhugunar hvort ekki sé rétt að flytja við 3. umr. málsins ákveðnar brtt. Ég vil þó, án þess að það sé ákveðið, gefa hv. Nd. og þá sérstaklega hæstv. viðskrh. tækifæri til að hlýða á í hverju þessar brtt. yrðu fólgnar ef þær yrðu fluttar við 3. umr.,

Þá er fyrst til að taka 1. gr. frv., en þar kemur til greina að orða hana á þessa leið:

„Heimilt er að flytja inn til landsins hvers konar vörur, nema annað sé ákveðið með lögum: Viðskrn. getur þó ákveðið að leyfi þess þurfi til innflutnings á lifandi dýrum, kjöt- og mjólkurafurðum, jarðolíu og eldsneytisolíum svo og sópum og burstum.

Jafnframt er innlendum aðilum heimilt að kaupa hvers konar erlenda þjónustu, nema annað sé ákveðið með lögum.

Heimilt er að inna af hendi í erlendum gjaldeyri sannanlegar greiðslur fyrir löglega innflutta vöru og keypta erlenda þjónustu, þar með taldir vextir af skuldum. Á sama hátt er heimilt að inna af hendi afborganir eða aðra umsamda endurgreiðslu erlendra skulda, sem löglega er til stofnað.

Aðrar fjármagnsgreiðslur til útlanda skulu háðar reglum, sem viðskrn. setur að höfðu samráði við Seðlabankann. Með reglum þessum skal komið í veg fyrir að til skaðlegs fjármagnsútflutnings geti komið, án þess þó að hindruð sé þjóðhagslega hagkvæm fjárfesting eða viðskipti innlendra aðila erlendis og búferlaflutningur eða arftaka einstaklinga.“

Þessi texti kæmi í stað 1. gr., og eins og allir heyra gengur það mun lengra í frjálsræðisátt en 1. gr. frv. gerir ráð fyrir. Ef af því verður að þessi brtt. verði flutt nær hún enn fremur til annarra greina og þ. á m. til 2. gr. frv., en þar mundi verða lagt til að 1. mgr. orðaðist þannig:

„Að svo miklu leyti sem vöruinnflutningur er háður innflutningsleyfum samkv. 1. gr. annast viðskrn. útgáfu þeirra. Seðlabankinn veitir leyfi fyrir fjármagnsgreiðslum samkv. 1. gr. og erlendum lántökum samkv. 12. gr. í þeim tilvikum sem almennar reglur settar samkv. þeim greinum ná ekki til.“

Og 2. mgr. mundi þá orðast þannig:

„Seðlabankinn skal vera til ráðuneytis um framkvæmd gjaldeyrismála, og getur rn. falið honum ákvörðunarvald um einstaka þætti þeirra.“

3. mgr. yrði síðan óbreytt.

Í þriðja lagi yrði lagt til að 1. mgr. 5. gr. frv. orðaðist upp á nýtt og yrði þá þannig:

„Viðskiptabankar hafa rétt til að versla með erlendan gjaldeyri.“

Þar er um að ræða ákveðnara orðalag en gert er ráð fyrir í núverandi frvgr.

Í fjórða lagi yrði lagt til, að 3. mgr. 8. gr. félli brott, í fimmta lagi, að 11. gr. félli út, og í sjötta lagi, að 12. gr. yrði orðuð upp og félli niður eins og hún er orðuð núna, en í stað hennar kæmi texti sem hljóðaði á þessa leið, með leyfi forseta:

„Erlendar lántökur, þar með taldar lántökur opinberra aðila, viðskiptabanka og einkaaðila, notkun á greiðslufresti á vörum og þjónustu svo og kaupleigusamninga, skulu háðar reglum, sem viðskrn. setur að höfðu samráði við Seðlabankann. Með reglum þessum skal komið í veg fyrir það annars vegar, að fjármagnsinnflutningur valdi ofþenslu innanlands, og hins vegar, að óeðlileg skuldasöfnun eigi sér stað erlendis. Þess skal þó jafnframt gætt, að reglur þessar leyfi eðlilega endurnýjun og aukningu innfluttra fjármuna, nauðsynlega fjármögnun birgða innfluttrar vöru og komi ekki í veg fyrir þjóðhagslega hagkvæm viðskipti.

Um heimildir Seðlabankans til þess að taka erlent lán fer eftir 20. gr. laga nr. 10/1961, og um heimildir gjaldeyrisviðskiptabankanna til að semja um yfirdráttarheimildir til skamms tíma fer eftir 10. gr. laga þessara.

Í sjöunda lagi yrði lagt til að 13. gr. orðaðist upp á þennan veg, með leyfi forseta:

„Ráðuneytinu er heimilt að ákveða, að ekki sé heimilt að bjóða, selja eða flytja vörur til útlanda, sem mikilvægar eru í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar, nema að fengnu leyfi þess, enda sé hætta á að of mikið tímabundið framboð eða undirboð gæti valdið verulegu tjóni. Útflutningsleyfi samkv. þessari grein getur rn. bundið skilyrðum, sem það telur nauðsynleg.

Útflytjendur eru skyldir til þess að veita rn. þær upplýsingar, sem það óskar og nauðsynlegar eru, um sölu og útflutning vara, sem seljast eiga til útlanda.“

Síðan féllu 14. gr. og 15. gr. niður.

Eins og ljóst er af þessum upplestri og þessari kynningu á hugsanlegum breytingum við þetta frv. er hér aðeins verið að bæta það ófullkomna plagg sem hér er til umr. Það er ávallt spurning, þegar togast á tvær andstæðar stefnur í þessum málum, hvort þeir, sem vilja stefna í aðra átt en ráðandi aðilar, eigi að leggja út í það að flytja brtt. og reyna þannig að laga eða fínstilla þá stefnu, sem tekin hefur verið, eða hvort sýna eigi virka andstöðu og koma í veg fyrir samþykkt frv. á borð við þetta og bíða síðan næsta þings, þegar nokkuð ljóst er að núv. stjórnarandstaða verður komin í stjórnaraðstöðu. Ég viðurkenni að sjálfsögðu að þetta er álitamál. Ég hef ekki enn haft tækifæri til að bera þessar hugsanlegu till. mínar undir þá aðila sem ég starfa með hér á þingi, samflokksmenn mína, en vildi þó á þessu stigi kynna þingheimi þær og þá sérstaklega vegna þess að hér er staddur hæstv. viðskrh.