17.05.1979
Sameinað þing: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4909 í B-deild Alþingistíðinda. (4254)

Almennar stjórnmálaumræður

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Alþingi það, sem senn á að ljúka störfum, hefur verið sérkennilegt á marga lund. Það hefur verið þing mikilla og stundum marklítilla umræðna, en lítilla verka. Afgreiðslur hafa verið fáar þangað til allra síðustu dagana, og þýðingarmikil mál, sem flutt hafa verið, hafa þurft að bíða vikum og mánuðum saman eftir að komast til 1. umr. Fjölda þeirra hafa n. ekki afgreitt og þokast því ekki fram á þessu þingi. Tíminn hefur ótrúlega mikið farið í innbyrðis karp stjórnarflokkanna, þar sem skipst hafa á yfirlýsingar, fyrirvarar og svigurmæli talsmanna þeirra hvers í annars garð. Jafnvel ráðh. láta ekki sitt eftir liggja á þessum vettvangi, og birta hinir málglöðustu þeirra yfirlýsingar sitt á hvað, svo að grandvarir stuðningsmenn ríkisstj. hafa orð á að þeir tali af sér næstum á hverjum degi. Heilindi og samhugur virðist framandi á stjórnarheimilinu. Þess í stað hafa sundurlyndi og hráskinnsleikur stjórnarflokkanna um hin þýðingarmestu mál mjög sett svip sinn á Alþ., tafið störf þess og hindrað eðlileg afköst.

Afgreiðslu fjárl. var þó klúðrað af fyrir jól, eftir að gengið höfðu vikum saman á víxl hótanir, fyrirbænir og fyrirvarar. Lánsfjáráætlun ríkisstj., sem ætlast er til að fylgi afgreiðslu fjárl., var hins vegar ekki lögð fyrir Alþ. fyrr en á útmánuðum. Er hún fyrst til afgreiðslu þessa daga og í afstöðu til einstakra till. um breytingar á henni hefur stjórnarliðið sundrast.

Vegáætlun fyrir árin 1979–1982 var ekki lögð fram á Alþ. fyrr en 2. maí, sem er a. m. k. tveimur mánuðum of seint. Eru það óhæf vinnubrögð sem hljóta fremur að byggjast á ósamkomulagi stjórnarflokkanna en slóðaskap samgrh. Í ríkisstj. er ekki samstaða um marga þætti landbúnaðarmála. Og allir sjá hvernig ástandið er í kjaramálum, þar sem allt stefnir til upplausnar. Hér er fátt eitt talið um ástandið á stjórnarheimilinu, sem í mörgum öðrum málaflokkum er með líkum hætti.

Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna segir að byggðastefnu verði haldið áfram með svipuðum þunga og verið hefur.

Þetta fyrirheit hefur m. a. verið efnt þannig að opinberar framkvæmdir, svo sem í skólabyggingum, heilbrigðisframkvæmdum og hafnargerðum, hafa verið skornar niður um 12% á sama tíma sem innheimtur ríkissjóðs fara stórum vaxandi miðað við þjóðarframleiðslu. Þetta er gert þannig að fé til nýbyggingar vega og brúa er skorið niður um 13–15% milli áranna 1978 og 1979 og er nú minna en í heilan áratug. Er það í litlu samræmi við ræður núv. samgrh. á síðasta kjörtímabili. Á sama tíma stóraukast tekjur ríkissjóðs af umferðinni og ríkisframlag til vegagerðar er lækkað úr 1490 millj. 1978 í 522 millj. 1979. Nokkur hækkun er fyrirhuguð á framkvæmdafé vegagerðar árin 1980–1982, ef verðbólgan hefur þá ekki étið þá hækkun upp, enda er fjáröflunin óviss.

Þetta fyrirheit í byggðamálum er efnt þannig, að mjög er takmarkað ráðstöfunarfé stofnlánasjóða atvinnuveganna og skorið niður um 10% lögbundið framlag til þeirra úr ríkissjóði. Sama regla er látin ná yfir sjóði er sinna félagslegum viðfangsefnum, svo sem Byggingarsjóð ríkisins, Lánasjóð sveitarfélaga og Bjargráðasjóð. Allt er þetta til að hafa meira fé handa á milli í rekstrarútgjöldum ríkisins sem stöðugt þenjast út. Þetta fyrirheit er einnig efnt með því að skerða ráðstöfunarfé Byggðasjóðs um 1130 millj. kr. og takmarkast sem því nemur þýðingarmikil aðstoð hans við atvinnulífið á landsbyggðinni. Þetta heitir á máli ríkisstj. að halda af svipuðum þunga í byggðamálum og verið hefur. Þannig eru þessi fyrirheit efnd.

Enn er ekkert samkomulag innan ríkisstj. um lausn á vanda bænda vegna óverðtryggðrar framleiðslu þessa verðlagsárs sem nemur 1.2–1.3 millj, kr. á bónda að meðaltali. Stjórnarflokkarnir felldu till. frá okkur sjálfstæðismönnum um rúma heimild fyrir ríkisstj. til þess að greiða úr þessu máli, og viðhafði landbrh. um þá till. háðuleg orð. Nú flytur þessi sami ráðh. till. um að setja málið í nefnd og fresta því til 1. sept. n. k. Sennilega býst hann við að þá hafi ríkisstj. endanlega lagt upp laupana og komist þannig frá málinu.

Ríkisstj. hefur boðað í samstarfsyfirlýsingu sinni að framleiðsla búvöru skuli miðast fyrst og fremst við innanlandsmarkað. Landbrh. hefur ítrekað þessa stefnu, m. a. í ýmsum þskj. sem hann hefur lagt fram. Hann leggur til að sauðfjárframleiðslan verði skorin niður um 18–20% og mjólkurframleiðslan álíka mikið. Það fer vel á því, að landbrh. skuli í framhaldi af þessu lýsa því yfir sem nýkjörinn formaður Framsfl. að Framsfl. sé ekki bændaflokkur.

Landbrh. hefur lagt fram till. um stefnumörkun í landbúnaði sem að ýmsu leyti er furðulegt plagg. Sumt í till. er þó þannig vaxið að samrýmist eðlilegum sjónarmiðum. Hún er þó lituð af oftrú á áætlanir og skipulagningu án þess að á nokkur úrræði sé bent til að gera þær áætlanir virkar í raun. Samdráttarstefnan er undirstrikuð með því að segja að framleiðslan verði miðuð við innanlandsþarfir og ekki verði stefnt að útflutningi á framleiðsluvörum nema viðunandi markaður sé fyrir hendi.

Viðamikil grg. fylgir till. Mikill hluti hennar er yfirlit um þróun og starfsemi ýmissa þátta landbúnaðarins sem vinningur er að fá á einn stað. En þegar kemur að leiðbeiningum um hvernig eigi að framkvæma samdráttarstefnu ráðh., þá tekur í hnúkana. Á bls. 82 segir m. a.: „Fækkun gripa getur í megindráttum orðið á tvennan hátt: í fyrsta lagi fækkun framleiðenda og í öðru lagi fækkun gripa á framleiðenda.“ Á næstu bls. segir m, a.: „Áhrifaríkasta leiðin til að draga úr afurðum eftir grip er að takmarka magn og gæði fóðurs.“ Þannig hljóða þau orð úr Steingrímsbiblíu og er þá fátt eitt talið. Ég fullyrði að Steingrímur Hermannsson er fyrsti landbrh. á Íslandi sem lætur slíkan boðskap frá sér fara.

Við sjálfstæðismenn viðurkennum vandamál í landbúnaðinum. Við fluttum till. um þau mál einum og hálfum mánuði á undan landbrh. Þar er sett fram skýr stefna, sem leggur áherslu á sjálfstæði bænda með eðlilegri aðstoð ríkisins. Við leggjum m. a. til að gerð verði úttekt á þjóðhagslegu gildi búvöruframleiðslunnar, einkum þess hluta hennar sem er umfram innanlandsþarfir. Við leggjum til að tekið verði upp nýtt verðtryggingarkerfi sem hægt er að beita til áhrifa á framleiðslumagnið þannig að nálgast verði þjóðhagslegt mark og fullt verð fáist fyrir umsamið magn. Við teljum að nokkuð þurfi að draga saman mjólkurframleiðslu, en höfnum samdrætti sauðfjárframleiðslunnar án undangenginnar úttektar. Ég trúi því, að sú úttekt muni sanna að núverandi sauðfjárframleiðsla sé þjóðhagslega hagstæð ef á allt er lítið. 20% samdráttur tveggja höfuðbúgreina landbúnaðarins, eins og landbrh. boðar, mundi valda hruni í bændastétt og segja þunglega til sín víðar í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Það eru vorharðindi í landinu. Þorraveður geisa um miðjan maí. Fóðurskorturinn bíður helst til stutt frá dyrum ýmissa bænda. Útlitið er uggvænlegt. Skylt væri ríkisstj. að leitast við að greiða úr málum eftir því sem unnt er. En það er líka hráslagalegt um að lítast í þjóðfélaginu í heild. Við völd situr sundruð ríkisstj. þar sem hver situr á svikráðum við annan eftir því sem færi gefst. Við blasa erfiðar atvinnuhorfur og upplausn í kjaramálum, þar sem spáð er yfir 100% verðbólgu verði gengið að þriðjungi þeirra launakrafna sem fyrir liggja. Ríkisstj. er rúin trausti. Hún mun því ekki ráða við vandamálin. Spurning er hvort hún lifir lengur eða skemur. Síst mun ég finna að sumu því sem hún hefur reynt á sviði kjaramála. Því fylgir að fulltrúar A-flokkanna hafa étið ofan í sig öll stóru orðin um „kauprán“ og „samningana í gildi“ sem gert var að aðalmáli í kosningunum í fyrra. Það væri hláleg niðurstaða ef þessari ríkisstj. entist aldur til að setja lög um bann við verkföllum og kauphækkunum, eins og skrafskjóður ríkisstj. hafa rætt um. Hvort svo verður veit enginn, þótt það megi telja ólíklegt eftir orð Sighvats Björgvinssonar hér á Alþ. í dag.

Hitt er víst, að á erfiðum tímum þarf þjóðin forustu sem hún treystir. Sú forusta fæst ekki fyrr en að þessari ríkisstj. genginni. Þá eins og fyrr verður það undir þjóðinni komið hvernig ríkisstj. hún kýs sér. Reynslan sýnir að samsteypustjórnir ráða því verr við vandamálin sem þær eru myndaðar af fleiri flokkum. Ekkert stjórnmálaafl hefur möguleika á að ná meiri hluta í kosningum nema Sjálfstfl. Að því þarf þjóðin að hyggja. — Góða nótt.