17.05.1979
Sameinað þing: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4919 í B-deild Alþingistíðinda. (4257)

Almennar stjórnmálaumræður

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Þessi ríkisstj. sem nú situr og mynduð var fyrir aðeins rúmum 81/2 mánuði, setti sér sjálf það markmið að vinna að hjöðnun verðbólgunnar í markvissum áföngum. Þrátt fyrir mikið fylgistap í síðustu kosningum taldi Framsfl. skyldu sína að taka þátt í slíku starfi. Sérhver stjórnmálaflokkur ber þá ábyrgð gagnvart kjósendum sínum og þjóðinni.

Um þetta grundvallaratriði stjórnarsamstarfsins er ítarlega fjallað í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna. Þar kemur fram að stjórnarflokkarnir settu sér að vinna að hjöðnun verðbólgunnar í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og jafnframt þannig að ekki hlytist af atvinnuleysi eða skerðing á kaupmætti launa, einkum lægri og meðallauna.

Okkur framsóknarmönnum var að sjálfsögðu ljóst að þennan gullna meðalveg yrði erfitt að rata. Til þess að það megi takast þarf fullkomin heilindi allra samstarfsflokka, þor og festu.

Ríkisstj. hóf aðgerðir sínar á sviði efnahagsmála með ráðstöfunum 1. sept. s. l. Þær höfðu fyrst og fremst það markmið að koma í veg fyrir það atvinnuleysi og hrun sem við blasti. Þjóðarskútan hafði þá nánast verið stjórnlaus í tvo mánuði á meðan unnið var að myndun ríkisstj. Má segja að þá hafi ríkt hið frjálsa markaðskerfi sem Sjálfstfl. boðar nú. Þessum aðgerðum var jafnframt ætlað að skapa nokkurt svigrúm til varanlegri ráðstafana 1. des.

Með ráðstöfunum til viðnáms gegn verðbólgu í lok nóv. var fyrsta skrefið stigið á braut breyttrar efnahagsstefnu. Með þeim ráðstöfunum voru felld niður 2 vísitölustig gegn tilfærslu tekjuskatts af lágtekjum á hærri tekjur og 3 vísitölustig í stað viðtækra félagslegra umbóta.

Í þeirri samstöðu fulltrúa launafólks, sem náðist um þessar ráðstafanir, kom fram vaxandi skilningur almennings á vafasömum hagnaði af vísitöluhækkun launa. Mönnum er orðið ljóst að slíkar hækkanir renna út í sandinn á örstuttum tíma í hækkun verðlags. Vafalaust munu þær félagslegu umbætur, sem smám saman hefur verið hrundið í framkvæmd í vetur, reynast launþegum haldbetri en skammvinnar launahækkanir.

Í grg. með því frv., sem hér um ræðir, komu jafnframt fram mjög mikilvægar stefnuyfirlýsingar flokkanna. Vil ég sérstaklega minna á það markmið að halda hækkun verðlags og peningalauna innan 5% á hverju vísitöluverðbótatímabili á árinu 1979, þannig að verðbólgan náist niður fyrir 30% í lok ársins.

Stærsti áfangi í viðureign ríkisstj. við verðbólguna náðist þó tvímælalaust með samþykkt laga um stjórn efnahagsmála o. fl. 7. apríl s. l. Við framsóknarmenn lögðum mikla vinnu í undirbúning þess máls. Stefna Framsfl. í efnahagsmálum var útfærð ítarlega af sérfróðum mönnum og gefin út í sérriti. Við framsóknarmenn vildum að með slíkri löggjöf yrðu mörkuð afgerandi tímamót í stjórn efnahagsmála. Þótt við meðferð málsins hjá stjórnarflokkunum væri því miður dregið úr ýmsum mikilvægum atriðum í till. okkar hygg ég að með sanni megi segja, að í þessum lögum felist nánast bylting ef þau verða framkvæmd eins og vera ber. Með þeim er leitast við að tryggja festu í stjórn ríkisfjármála og gerð fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar í samræmi við tillögur okkar.

Tillaga okkar framsóknarmanna um gjörbreytt vaxta- og verðtryggingarkerfi náði einnig fram að ganga, svo eitthvað sé nefnt. Með henni er gert ráð fyrir lágum vöxtum með fullri verðtryggingu sem bætist við höfuðstólinn og dreifist því yfir lánstímabilið. Gert er ráð fyrir að fyrsta skref í þessum efnum komi til framkvæmda um næstu mánaðamót. Hygg ég að í þessu felist markverðari breyting en margir gera sér grein fyrir.

Með þessum lögum fékkst einnig fram nokkur lagfæring á því vísitölukerfi sem við Íslendingar búum við. Við framsóknarmenn teljum þetta kerfi einhverja mestu meinsemd okkar verðbólguþjóðfélags. Engri þjóð hefur tekist að búa við slíkar víxlverkanir launa og verðlags. Við fögnum þeim breytingum sem fengust, en hörmum hins vegar að ekki var lengra gengið, t. d. með því að taka út úr vísitölunni bæði óbeina skatta og niðurgreiðslur.

Lög um stjórn efnahagsmála o. fl. boða fyrst og fremst viðnám gegn verðbólgu á breiðum grundvelli með samræmdum aðgerðum á mörgum sviðum og til langs tíma.

Annar mikilvægur þáttur í viðureigninni við verðbólguna kemur fram í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna þar sem segir: „Ríkisstj. mun leita eftir samkomulagi við samtök launafólks um skipan launamála fram til 1. des. 1979 á þeim grundvelli að samningarnir frá 1977 verði framlengdir til þess tíma án breytinga á grunnkaupi.“ Frysting grunnkaups átti þannig að vera enn einn þáttur í samræmdum aðgerðum gegn verðbólgunni. Norðmenn gripu til þess ráðs við svipaðar aðstæður, en þó stórum minni verðbólgu, að frysta kaup og verðlag til tveggja ára. Að sjálfsögðu hefðum við ekki síður átt að gera það. Um það náðist hins vegar ekki samstaða í verki, og nú eftir að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur fellt samkomulag það, sem gert var við ríkisstj., er ljóst að þessi grunnkaupsfrysting hefur mistekist.

Alvarlegra er þó, að viðleitni ríkisstj. til þess að stuðla að launajöfnuði í þjóðfélaginu hefur brugðist. Að mati okkar framsóknarmanna er viss launamunur sjálfsagður í sérhverju þjóðfélagi, m. a. með tilliti til menntunar, ábyrgðar og fleira. Við teljum hins vegar að um slíkan launamun beri að semja í almennum kjarasamningum.

Ríkisstj. taldi rétt að setja um tíma þak á vísitölubætur þar til vísitölunefndin hefði komið sér saman um hvernig greiða beri slíkar bætur. Ríkisstj. vildi með því vinna nokkuð gegn vaxandi launamun sem hefur orðið með því að greiða fullar vísitölubætur á laun upp úr frá því að síðustu kjarasamningar voru gerðir 1977. Þessi viðleitni mistókst. Tvímælalaust má rekja þetta til þess, að Reykjavíkurborg undir forustu Alþb. ákvað að greiða fullar vísitölubætur á öll laun. Eftir það varð ljóst að dómstólar mundu ekki fallast á að tveir aðilar í sama stéttarfélagi, annar hjá ríki og hinn hjá bæ, fengju mismunandi laun fyrir sambærilega vinnu. Mesta áfallið í þessari þaklyftingu var það þó er stjórn Flugleiða ákvað að bjóða þeim, er hæst laun hafa í þjóðfélaginu, fullar vísitölubætur. Það var gert án þess að nokkurt samráð væri haft við ríkisstj.

Alvarlegast í þessari skriðu launahækkana eru þó kröfur þeirra, sem betri kjör hafa í þjóðfélaginu, um stórhækkuð grunnlaun. Öllum hlýtur að vera ljóst að þeim, sem lægri launin hafa, verður ekki neitað um a. m. k. eins mikla hækkun grunnlauna og slíkir hópar kunna að fá. Annað samræmist ekki þeirri stefnu ríkisstj. að tryggja kaupmátt lægri laun.

Ekki verður því neitað, að verðhækkanir á opinberri þjónustu hafa verið allt of miklar. Við verðhækkanir, sem eru af erlendum togaspunnar, verður ekki ráðið. En ég get ekki varist þeirri skoðun, að lítillar viðleitni gæti hjá ýmsum opinberum stofnunum til þess að draga úr rekstrarkostnaði. Slíkar hækkanir fá launþegar að vísu bættar með vísitöluhækkun launa, en þær hljóta að draga úr trausti almennings á því að takast muni að draga úr verðbólgunni. Öllum hlýtur að vera ljóst að framhald þess ástands, sem ríkir og ég hef rakið, getur ekki leitt til annars en nýrrar holskeflu óðaverðbólgu og öngþveitis í þjóðfélaginu. Það getur þessi ríkisstj. ekki látið afskiptalaust. Því hefur Framsfl. lagt eftirgreindar till. fram í ríkisstj.:

1. Að ekki verði hvikað frá markmiðum um hjöðnun verðbólgu í markvissum áföngum, en staðan endurmetin með tilliti til breyttra aðstæðna. Gerð verði áætlun til eins árs þar sem m. a. komi fram áætlaðar ársfjórðungslegar vísitöluhækkanir launa. Óhjákvæmilegar hækkanir á verðlagi og þjónustu verði athugaðar ársfjórðungslega og aldrei leyfðar hærri en sem nemur áætlaðri vísitöluhækkun launa.

2. Með lögum verði ákveðin í fyrsta lagi almenn hækkun grunnlauna um 3%. Í öðru lagi, að aðrar grunnkaupshækkanir verði ekki leyfðar til áramóta. Í þriðja lagi, að þak verði sett á vísitölubætur til áramóta þannig að fullar bætur verði greiddar upp að 400 þús. kr., en jöfn krónutala eftir það.

3. Þegar verði rætt við deiluaðila um frestun verkfalla og verkbanna til áramóta gegn því að grunnlaun hækki um 3% og sáttanefndir verði skipaðar. Ef ekki næst samkomulag um slíkt fresti ríkisstj. verkföllum og verkbönnum til áramóta með lögum.

4. Sérstakur skyldusparnaður verði ákveðinn á hæstu laun.

5. Hert verði stórlega á öllum sparnaði í ríkisrekstri með endurskoðun á starfsemi ríkisstofnana.

6. Hraðað verði framkvæmd ákvæða í lögum um stjórn efnahagsmála o. fl. m. a. ákvæði um verðtryggingu inn- og útlána.

7. Samráð stjórnvalda við samtök launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda verði þegar aukið og framkvæmt í samræmi við II. kafla laga um stjórn efnahagsmála o. fl. Fjallað verði um þau mál sem í þeim kafla eru talin; en sérstaklega þó í fyrsta lagi um þær aðgerðir sem að fráman eru taldar, í öðru lagi um gerð kjarasamninga, m. a. einföldun og samræmingu, og í þriðja lagi um endurskoðun vísitölunnar, m. a. hvernig vísitölubætur verði greiddar á laun.

8. Stefnt verði að nýjum heildarsamningum um kaup og kjör, sem taki gildi í janúar 1980 og gildi til tveggja ára.

Þessar till. hafa verið ræddar í ríkisstj. Samkomulag varð um að skipa sáttanefnd í vinnudeilu farmanna og mjólkurfræðinga við atvinnurekendur, bjóða 3% grunnkaupshækkun og fara fram á frestun verkfalla og verkbanns. Beiðninni um frestun hefur verið hafnað. Harma ég það. Sýnir það lítinn vilja til þess að takmarka það tjón sem þjóðfélagið verður fyrir af þessum deilum. Ástandið er hins vegar orðið svo alvarlegt að sáttanefndir hafa takmarkaðan tíma. Hlýtur fljótlega á það að reyna hvort samkomulag næst eða ríkisstj. hefur kjark til að taka á þeim málum. Það er prófsteinninn á vilja og getu ríkisstj. til þess að hafa hemil á verðbólgunni og stjórna. Á það mun Framsfl. láta reyna ef nauðsynlegt verður.

Framsfl. telur að forðast beri í lengstu lög bein afskipti ríkisvaldsins af vinnudeilum. Ríkisvaldið verður þó að gripa í taumana þegar í algjört óefni stefnir. Það er einlæg von okkar framsóknarmanna, að samkomulag megi takast í yfirstandandi vinnudeilum og launþegar og aðrir aðilar fallist á að fresta ágreiningsmálum þar til nýir heildarsamningar verða gerðir. Við leggjum til, að slíkir samningar verði gerðir þegar í janúar n. k. Er satt að segja ekki til mikils mælst að leggja deilur til hliðar í nokkra mánuði.

Menn hafa að sjálfsögðu spurt í allan vetur: Hver er stefna Sjálfstfl. í efnahagsmálum? Svarið kom að vísu fyrir nokkru og við heyrðum það áðan hjá hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen. Mönnum skilst að Sjálfstfl. vilji láta hið svokallaða frjálsa markaðskerfi ráða ferðinni. Það kerfi réð ferðinni í vestrænum heimi eftir heimstyrjöldina fyrri og leiddi til heimskreppunnar miklu 1929. Síðan hafa allar þjóðir heims forðast það eins og heitan eldinn. Það hefur gjarnan verið nefnt „lögmál frumskógarins“. Er nokkur furða þótt menn spyrji enn hvort slíkt geti verið stefna Sjálfstfl. Og þrátt fyrir það að hv. þm. Matthías Á. Mathiesen lýsti því hér áðan hvernig tókst til um slíka samninga 1974 og 1977 á engu að síður að taka það kerfi upp að nýju og í enn óheftari mynd. Þarna er Sjálfstfl. ekki að hverfa 20 ár aftur í tímann, eins og hv. þm. komst að orði, um þessa ríkisstj., heldur 50 ár, fram fyrir heimskreppuna 1929.

Þótt efnahagsmálin hafi líklega tekið mestan tíma þingsins hafa landbúnaðarmálin þó ekki verið þar langt á eftir. Því veldur það álvarlega ástand sem skapast hefur vegna sölutregðu erlendis á umframframleiðslu á nautgripa- og sauðfjárafurðum.

Það hefur því miður ekki verið á valdi bændastéttarinnar að koma í veg fyrir slíka þróun. Alþ. hefur þar til nú neitað að veita nauðsynlegar heimildir til þess að sporna gegn aukinni framleiðslu. Jafnframt er bað staðreynd, að þessir erfiðleikar stafa ekki síður af óhagstæðri verðlagsþróun og miklum niðurgreiðslum erlendis en aukinni framleiðslu innanlands. Af þessum ástæðum blasir nú við bændum tekjuskerðing sem nemur um 1.2 millj. kr. á meðalbú ofan á þau harðindi sem ríkja.

Stefna mín hefur verið og er sú, að ríkissjóður dragi úr tekjuskerðingunni, en bændur skuldbindi sig hins vegar til þess að draga svo úr framleiðslunni að hún verði vel innan þeirra marka sem verðtrygging ríkissjóðs samkv. lögum ákveður. Þetta er vandasamt mál og að því verður að vinna með gát, annars getur hlotist af stórtjón sem kosta mundi þjóðfélagið ótalda milljarða, t. d. í byggðaröskun.

Ánægjulegt hefur verið að um þessa stefnubreytingu hefur nást víðtæk samstaða við bændur. Hins vegar hefur gengið treglega að koma ýmsum á Alþ. í skilning um eðli þessa vandamáls. T. d. hlyti slík stefnubreyting sem felur í sér mikinn samdrátt í landbúnaðarframleiðslunni að vera nánast vonlaus ef skerða á tekjur bónda um 1.2 millj. kr. á ári ofan á allt annað.

Ég átti að vísu von á því að ýmsir hv. þm., sem lítið þekkja til landbúnaðarins, hefðu takmarkaðan skilning á þessu vandamáli. Hitt verð ég þó að viðurkenna, að ég bjóst við öðru frá hv. þm. sem talaði hér áðan, Pálma Jónssyni. Hv. þm. telur sig meðal bænda. En hv. þm. hefur þó á þessu þingi verið einna erfiðastur viðfangs í þessum málum. Hann hefur látið sér nægja að tína upp þá brauðmola sem af borðum falla. Svo var t. d. um till. þá sem hann ásamt fleirum sjálfstæðismönnum flytur um stefnumörkun í landbúnaði. Hún er öll byggð á þeim frumdrögum sem ég lagði fram í jan. s. l. á fjölmennum fundi fulltrúa bænda og neytenda.

Hv. þm. fullyrðir að ég tali um 18–20% samdrátt í sauðfjárrækt. Í öllu því, sem fram hefur komið, er rætt um 15% samdrátt í sauðfjárrækt og það á 5 árum. Þetta er mikill samdráttur, og ég tek undir að það er vandmeðfarið. Á hitt vil ég þó benda, að meira en helmingurinn af því sauðfé, sem þyrfti að fækka, er í eigu þéttbýlisbúa og í eigu manna sem ekki hafa aðaltekjur sínar af landbúnaði.

Hvernig á að fara að þessum málum? Er það till. hv. þm. í samræmi við stefnu Sjálfstfl. að hið frjálsa markaðskerfi eigi að ráða samdrætti í landbúnaði? Hvernig halda menn að þá yrði umhorfs í ýmsum byggðum þessa lands sem eiga nú í miklum erfiðleikum? En þrátt fyrir slíkt skilningsleysi hefur tekist að fá mikilvæga löggjöf samþ. í vetur á Alþ. Nefni ég breytingu á Framleiðsluráðslögum, lög um forfallaþjónustu, lög um lausaskuldir bænda, breytingu á jarðræktarlögum og væntanleg lög um beina samninga bænda við ríkisvaldið og till. til þál. um stefnumörkun í landbúnaði.

Hv. þm. Pálmi Jónsson heldur áfram að snúa út úr þeim orðum mínum að Framsfl. sé ekki bændaflokkur. Að vísu hefur hann nú fært sig upp á skaftið og fullyrðir að ég hafi sagt að flokkurinn væri ekki flokkur bænda. Hann mætti gjarnan vísa lengra í þau orð sem ég lét falla í þessu sambandi. Ég hef ávallt lagt á það áherslu, að Framsfl. er flokkur frjálsra einstaklinga. Hann er flokkur frjálsra einstaklinga sem eru hvattir til þess að standa á eigin fótum og vera efnalega sjálfstæðir, en eru hins vegar fúsir til þess að taka höndum saman um hin stóru verkefni á grundvelli samvinnuhreyfingarinnar og annarrar félagshyggju. Þetta á vitanlega erindi til manna í öllum stéttum, bæði í þéttbýli og í dreifbýli, en sem betur fer er ákaflega mikill fjöldi bænda þessa sinnis og styður því Framsfl.

Góðir hlustendur. Því verður ekki neitað að þessi vetur á þingi hefur verið stormasamur. Stjórnarsamstarfið hefur ekki heldur gengið hljóðalaust. Því hefur fyrst og fremst valdið gífurleg tortryggni á milli Alþfl. og Alþb. Forustuhlutverk okkar framsóknarmanna hefur ekki verið auðvelt við þessar aðstæður. Þetta verður að breytast ef ríkisstj. á að auðnast að ná því markmiði sem hún setti sér: að draga úr verðbólgunni markvisst og örugglega. Til þess þarf kjark og dug samstæðrar ríkisstj., ekki síst við þær aðstæður sem skapast hafa í þjóðfélaginu. Á þetta mun reyna næstu vikur eða jafnvel daga. Ekki vil ég óska þjóðinni þess að þurfa að þola hið óhefta markaðskerfi Sjálfstfl. Við skulum því vona að þetta takist. — Ég þakka þeim sem hlýddu.