18.05.1979
Efri deild: 108. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4939 í B-deild Alþingistíðinda. (4263)

314. mál, landflutningasjóður

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Í forföllum formanns samgn. Ed., hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar, hef ég verið beðinn um að flytja stutta framsögu fyrir því frv., sem hér er á þskj. 779, um landflutningasjóð, og gera grein fyrir því, hvernig á tilkomu þess stendur.

Fyrr í vetur lagði samgrh. fram hér í hv. Ed. frv. til l. um landflutningasjóð, sem átti að stuðla með lánveitingum að bættum vöru- og fólksflutningum með stórum bifreiðum. Úr þessum sjóði átti að lána til þriggja aðila, þ. e. a. s. sérleyfishafa og hópferðaleyfishafa, til eigenda vöruflutningabifreiða í reglubundnum akstri á langleiðum og til eigenda leigubifreiða til vöruflutninga.

Í samgn. kom mjög skýrt fram, að tveir þeir aðilar sem þarna voru tilnefndir, þ. e. a. s. sérleyfis- og hópferðaleyfishafar og eigendur leigubifreiða til vöruflutninga, höfðu mjög mikið við stjfrv. að athuga eins og það kom frá rn. og vildu fá gerbreytingu á því, bæði varðandi tekjur og eins skýrari ákvæði um lán úr þessum sjóði, ef þeir ættu eða vildu vera aðilar að honum. Ég verð að segja að þetta olli mér allmiklum vonbrigðum, því að svo sterkar óskir höfðu áður komið frá þessum aðilum um að stofnlánasjóður yrði myndaður til að auðvelda þeim kaup á vinnutækjum sínum og einmitt í því skyni var sú till. flutt sem við fluttum nokkrir þm. fyrir nokkrum árum og er hvatinn að þessu frv.

Hins vegar kom í ljós að landssamband vörubifreiðastjóra á flutningaleiðum, Landvari, vildi mjög gjarnan fá þennan sjóð lögfestan, að vísu með þeirri breytingu að tekjur landflutningasjóðsins yrðu 1% gjald af starfsemi þeirra aðila, sem eiga og reka bifreiðar til skipulagsbundinna vöruflutninga um landið, í stað 2% sem upphaflega frv. gerði ráð fyrir.

Samgn. féllst einróma á að flytja þetta frv. fyrir vörubifreiðaeigendur eina, þó að nm. séu enn þeirrar skoðunar að stefna beri að því í framtíðinni að mynda landflutningasjóð fyrir alla þá aðila sem um er rætt í stjfrv. Vörubifreiðaeigendur hafa hins vegar sýnt málinu mestan áhuga, vilja gjarnan að það nái fram að ganga og hafa sýnt okkur fram á og sannað að þeir eigi þar ríkra hagsmuna að gæta, ríkari en aðrir. Því hefur samgn. ákveðið að einskorða frv. við þessa aðila eina, þ. e. a. s. eigendur vörubifreiða á langferðaleiðum, og ákveða tekjur sjóðsins, framlög og aðra þætti með tilliti til þess að aðeins sé um einn aðila að ræða í staðinn fyrir þá þrjá sem áður voru.

Ég hygg að ég þurfi ekki að hafa um frv. fleiri orð, en legg til að að lokinni þessari umr. verði því vísað til 2. umr. Kannske er rétt að vísa því til samgn. sérstaklega ef aths. koma fram, en það er hins vegar óþarfi — læt ég þó forseta eftir að dæma það því að frv. er af samgn. flutt.