18.05.1979
Efri deild: 108. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4942 í B-deild Alþingistíðinda. (4273)

19. mál, dómvextir og meðferð einkamála í héraði

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Þetta mál var afgreitt frá hv. allshn. með meðmælum eins og það kom frá Nd., en því hafði verið breytt verulega þar. Nú kom fram í áliti Lögmannafélags Íslands að örðugt mundi að framkvæma fyrirmæli frv. og laganna, ef að lögum yrði, eins og málið lá fyrir þegar það kom til hv, deildar. Nú er það vitanlega mikið atriði að mögulegt sé að framkvæma lög sem sett eru á Alþ., og maður skyldi ætla að lögmenn og dómarar væru sérstaklega dómbærir á það. Það er ekki neinn ágreiningur frá þeirra hálfu um að æskilegt sé að setja ákvæði í lög um þetta atriði heldur einungis um hversu þau skuli forma.

Í samráði við flm. málsins í Nd. leitaði ég til fjögurra lögmanna: Stefáns Más Stefánssonar prófessors, Hrafns Bragasonar borgardómara, enn fremur til Baldurs Guðlaugssonar og Jóns Finnssonar, og bað þá að fara yfir málið og móta hugmyndir sínar um nauðsynlegar breytingar á orðalagi lagagreinarinnar. Þeir höfðu áður rætt þetta sín á milli, ræddu það á stuttum fundi með mér og flm. fyrir fáum dögum og tóku sér síðan tíma og hittust — þessir menn sem ég nefndi — og ræddu þetta enn á ný og mótuðu till. um breytingu á orðalagi frvgr. Nú höfum við ekki formlega gengið frá þessu í hv. allshn., en ég hef náð til flestra nm. og mér virðist þeir flestir ásáttir með afgreiðslu á þessa lund.

En brtt. sú, sem ég mun leggja fram hér skriflega, með leyfi hæstv. forseta, er þó ekki frá n., heldur frá mér einum. Og hún er svo hljóðandi:

„Við 1. gr. Greinin orðist svo:

Dómari skal í dómi ákveða eftir kröfu aðila, að dæmdir vextir fyrir tímabilið frá birtingardegi stefnu til greiðsludags skuli vera jafnháir hæstu innlánsvöxtum við innlánsstofnanir eins og þeir eru ákveðnir samkv. lögum á hverjum tíma, þannig að sem fyllst tillit sé tekið til varðveislu á verðgildi fjármagns.

Dómari skal þó ekki verða við slíkri kröfu ef atvik þau, sem getið er í 1. og 3. tölul. 2. mgr. 177, gr. laga nr. 85/1936, eiga við um aðila, eða ef þegar hefur verið tekið tillit til verðbólgu við endanlega kröfugerð í málinu. Sama gildir í útivistarmálum, ef stefndi skilar ekki greinargerð.

Þrátt fyrir ákvæði 88. gr., sbr. 193. gr. laga nr. 85/1936, má aðili krefjast dómvaxta án þess að nefna vaxtafót.“

Þessa till. vil ég Leyfa mér að leggja fram skriflega og biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni.

Ég vil aðeins segja það að lokum, að ég treysti mér ekki til að fara út í lögfræðilegar skýringar á einstökum atriðum hér, en vísa til þess undirbúnings, sem ég áðan greindi, þ. e. þess undirbúnings sem till. hefur hlotið.