18.05.1979
Neðri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4966 í B-deild Alþingistíðinda. (4296)

251. mál, Iðnlánasjóður

Frsm. meiri hl. (Kjartan Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að láta þá von í ljós fyrir hönd okkar allra þm., að hinn ágæti félagi okkar, hv. þm. Halldór E. Sigurðsson, nái sem fyrst fullri heilsu og verði kominn við hlið okkar áður en þingi lýkur.

Annars mæli ég hér fyrir nál. frá iðnn. Nd. um frv. til l. um breytingar á lögum um Iðnlánasjóð. Nál. frá meiri hl. iðnn. er á þskj. 746, og brtt., sem meiri hl. flytur, er á þskj. 747.

Þetta mál snýst um að stofna við Iðnlánasjóð sérstaka lánadeild iðngarða, sem hafi það verkefni að veita stofnlán til sveitarfélaga, félagssamtaka og einstaklinga sem reisa iðnaðarmannvirki. Meiri hl. n., en hann skipa auk mín hv. þm. Árni Gunnarsson, Ingvar Gíslason, Eðvarð Sigurðsson og Gunnlaugur Stefánsson, leggur til að vissar breytingar verði gerðar á frv., sem er stjfrv. Við höfum kvatt á fund n. formann stjórnar Iðnlánasjóðs, Gunnar Björnsson, og n. barst umsögn frá stjórn Iðnlánasjóðs, þar sem stjórnin fer fram á vissar breytingar á frv. eins og það var lagt hér fram.

Við í meiri hl. n. höfum tekið nokkurt tillit til tillagna stjórnar Iðnlánasjóðs. Er þar um að ræða, að í fyrsta lagi flytjum við þá brtt., að þeim 250 millj. á ári, sem frv. gerði ráð fyrir að ráðstafað yrði af fé Iðnlánasjóðs til byggingar iðngarða, verði fyrst ráðstafað með þeim hætti á árinu 1980, en ekki strax í ár, 1979, eins og frv. miðaði við, 1980—1983 verði þá ráðstafað 250 millj. kr. á ári af fé Iðnlánasjóðs til stofnlána vegna byggingar iðngarða. Breytingin er eingöngu sú, að upphafsárið verði 1980 í stað 1979. Þess skal getið, að stjórn Iðnlánasjóðs mæltist til þess að ráðstöfunarféð yrði aðeins 200 millj. kr., en við höldum okkur við töluna 250 millj. á ári.

Það eru hér minni háttar breytingar aðrar. Við leggjum til að 9. gr. orðist á þessa leið, með nokkuð öðrum hætti en í frv.:

„Stofna skal í Iðnlánasjóði lánadeild iðngarða, er hafi þann tilgang að lána stofnlán til sveitarfélaga, félagssamtaka og einstaklinga, sem reisa iðnaðarmannvirki í því skyni að efla íslenskan iðnað eða skapa með öðrum hætti starfsaðstöðu til handa iðnfyrirtækjum, sem greiða iðnlánasjóðsgjald samkv. 5. gr., enda öðlist þau á fullnægjandi hátt að mati stjórnar Iðnlánasjóðs leigu- og/ eða kauprétt að þeirri aðstöðu eða mannvirki, sem lánað er til.“ Síðan bætum við hér við í samræmi við óskir stjórnar Iðnlánasjóðs: „Umsækjendur um lán til iðngarða geri stjórn Iðnlánasjóðs fullnægjandi grein fyrir áformum sínum samhliða lánsumsókn.“

Það kom sem sagt fram, að uppi voru nokkrar áhyggjur út af því, að ef ekki væri sett ákvæði inn í frv. um að gerð væri fullnægjandi grein fyrir áformum gæti verið viss hætta á að sveitarfélög fengju lán til að byggja iðnaðarhúsnæði, en síðan væru kannske engir aðilar tiltækir til að reka þar iðnaðarstarfsemi. Okkur þótti eftir atvikum sanngjarnt að taka nokkurt tillit til þessara ábendinga. Hins vegar féllumst við í meiri hl. iðnn. ekki á að hafa þetta enn strangara, þótt stjórn Iðnlánasjóðs hafi gert till. til n. um að þarna yrði enn bætt við setningu á þá leið, að jafnframt skyldu umsækjendur gera grein fyrir hvaða fyrirtækjum þeir ætluðu að selja eða leigja aðstöðu. Við í meiri hl. iðnn. vildum ekki ganga svo langt að fallast á þessi tilmæli.

Síðasta atriðið varðandi breytingar týtur að 3. tölul. í upptalningunni á þskj. 512, sem er frv. sjálft. 3. tölul. er umorðaður að ósk stjórnar Iðnlánasjóðs. Höfum við í meiri hl. n. gert till. hennar að okkar. Hún er á þessa leið:

„Almenn lánakjör Iðnlánasjóðs skulu gilda um lán úr lánadeild iðngarða, en að öðru leyti setur iðnrh., í samráði við stjórn Iðnlánasjóðs, með reglugerð nánari ákvæði um starfsemi deildarinnar. Í reglugerðinni skal þess gætt að með aðstöðu innan iðngarðs sé fyrirtækjum, sem eiga í samkeppni í sömu grein, ekki mismunað eða stuðlað að neikvæðri samkeppni innan byggðarlaga eða á landsvísu.“

Nú hef ég rakið þær litlu breytingar sem við leggjum til í meiri hl. iðnn. En við mælum með því að frv. verði samþ. með þessum breytingum, og von okkar er sú, að hægt verði að afgreiða málið fyrir þinglausnir.

Tveir nm., þeir hv. þm. Gunnar Thoroddsen og hv. þm. Jósef H. Þorgeirsson, hafa skilað minnihlutaáliti sem þeir munu gera grein fyrir.