18.05.1979
Neðri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4984 í B-deild Alþingistíðinda. (4317)

177. mál, húsaleigusamningar

Frsm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Félmn. hefur fjallað um frv. til l. um húsaleigusamninga og varð n. sammála uni að mæla með afgreiðslu þess, enda hér um mjög tímabæra og nauðsynlega lagasetningu að ræða. Frv. var að dómi n. mjög vel unnið, en í þeirri n., sem frv.-drögin vann, áttu sæti bæði fulltrúi Hús- og landeigendasambands Íslands og fulltrúi Leigjendasamtakanna, þannig að sjónarmiða þeirra aðila ætti að hafa verið vel gætt.

Frv. tók nokkrum breytingum í Ed., þar sem tekið var verulegt tillit til umsagna bæði Leigjendasamtakanna og húseigendafélagsins. Nm. félmn. Nd. voru þó ekki á eitt sáttir um þá breytingu sem á frv. var gerð í Ed., en þar var fellt inn í frv. nýtt ákvæði er fjallar um húsaleigunefndir. Töldu sumir nm. að húsaleigunefndir væru ekki nauðsynlegar þar sem ákvæði er í XI. kafla frv. um úttektarmenn sem m. a. eiga, eins og stendur í 64. gr., að kosta kapps um að leiða ágreining og deilumál til lykta og vera leigusölum og leigutökum til leiðbeiningar og ráðgjafar eftir því sem tök eru á. En í XIII. kafla, sem Ed. felldi inn í frv., um húsaleigunefndir, segir, með leyfi forseta:

„Í hverjum kaupstað skal vera húsaleigunefnd skipuð þremur mönnum og þremur til vara. Bæjarstjórnir skulu kjósa húsaleigunefndir til fjögurra ára í senn.

Hlutverk húsaleigunefnda skal vera að fylgjast með framkvæmd húsaleigumála og afla upplýsinga um þau, hlutast til um að úttektarmenn, sbr. 63. gr. þessara laga, séu dómkvaddir, gefa aðilum leigumála, sem þess óska, leiðbeiningar um ágreiningsefni og leitast við að sætta slíkan ágreining, ef báðir aðilar óska.“

Ýmsir nm. töldu, að hér væri um agnúa á frv. að ræða, þar sem verksvið húsateigunefndar og úttektarmanna fléttuðust að verulegu leyti saman, þó að verksvið úttektarmanna væri að vísu mun víðtækara. Því voru sumir nm. á þeirri skoðun, að húsaleigunefndir væru óþarfar, og flytja brtt. um að ákvæði um húsaleigunefndir falli brott. Meiri hl. n. taldi þó að í mörgum tilfellum gætu slíkar húsaleigunefndir verið nauðsynlegar til þess að fylgjast með framkvæmd húsaleigumála og gæta hagsmuna leigusala og leigutaka. Þó að e. t. v. hefði verið æskilegra að samræma betur að verksvið húsaleigunefndar og úttektarmanna stangaðist ekki á, þá taldi meiri hl. n. að koma mætti í veg fyrir slíkt með reglugerðarákvæðum sem sett yrðu og verksvið húsaleigunefndar og úttektarmanna þar sérstaklega tilgreind. Þessa yrði því sérstaklega að gæta við setningu reglugerðarákvæða sem setja á um framkvæmd laganna, eða að þessi ákvæði yrðu endurskoðuð á næsta þingi ef þurfa þætti. Hér er um svo mikið og brýnt réttlætismál að ræða, að ástæðulaust var að dómi meiri hl. n. að tefja afgreiðslu málsins vegna þessa atriðis, sem hægt væri að leiðrétta í reglugerð, og tefla málinu vegna þess í þá hættu, þar sem það er nú til afgreiðslu í síðari d., að það yrði ekki að lögum á þessu þingi.

Ég vil að lokum geta þess, að í 21. gr. er augljós prentvilla, enda sýnir mgr. greinilega hvað við er átt. Í 2. mgr. 21. gr. segir:

„Leigutaki skal þó strax gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að leigja húsnæðið hið allra fyrsta gegn hæfilegu gjaldi og skulu þær leigutekjur, sem hann þannig hefur eða hefði átt að hafa, koma til frádráttar leigubótum samkv. 1. mgr.

Hér á auðvitað að standa „leigusali“ o. s. frv. Þar sem efni greinarinnar sýnir svo að ekki verður um villst hvað við er átt er varla ástæða til þess að flytja sérstaka brtt. þar að lútandi, heldur er um augljósa prentvillu að ræða, sem hægt er að leiðrétta án þess að sérstök brtt. þurfi að koma til.

Eins og fram kemur á þskj. 754 skrifa allir nm. undir nál., en Gunnar Thoroddsen og Eggert Haukdal flytja brtt. við þá grein frv., er fjallar um húsaleigunefndir.