18.05.1979
Neðri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4986 í B-deild Alþingistíðinda. (4319)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. um Framleiðsluráð landbúnaðarins er raunar einvörðungu um það að upp séu teknir beinir samningar á milli Stéttarsambands bænda og ríkisstj. Í málefnasamningi ríkisstj. var því heitið að breyta lögunum í þessa átt, eins og þetta frv. ber með sér. Hæstv. landbrh. lagði svo fram brtt. á þskj. 659, svo hljóðandi:

„Sexmannanefnd skal án tafar taka til meðferðar þá tekjuskerðingu sem við framleiðendum landbúnaðarafurða blasir vegna söluerfiðleika á þeirri framleiðslu sem er umfram innanlandsþarfir. Skal n. fyrir 1. sept. 1979 leggja fyrir ríkisstj. till. um lausn þess vanda þannig að tekjuskerðing bænda verði sem minnst.“

Landbn. Nd. fjallaði um frv. ásamt þessari breytingu hæstv. landbrh., og með tilliti til þess vanda, sem blasir nú við bændum, lagði n. til brtt, eða raunar viðbótartill. sem er á þskj. 745.

Ég vil aðeins skýra það með örfáum orðum hvernig þessi mál blasa við í dag, vegna þess að ég hef orðið var við að menn skilja ekki eða hafa ekki fengið á því viðhlítandi skýringar hvernig staðan er nú í þessum málum.

Eins og blasir við nú vantar, að talið er, um 5.1 milljarð eða því sem næst til þess að verðtryggingin dugi fyrir þeim vörum sem þarf að flytja út. Ástæða fyrir þessu er sú fyrst og fremst, að dýrtíð hefur verið mikil í landi okkar. Ég vil geta þess, að á aðeins 4 árum hefur breytingin orðið sú, að fyrir kjöt, sem er flutt út, t. d. til Svíþjóðar, fékkst fyrir 4 árum rúmlega 80% af heildsöluverðinu, en nú fæst ekki nema rétt rúmlega 40% fyrir þessa vöru á sama markaði. Það er verðbólgan einvörðungu sem hefur breytt þessari stöðu.

Einnig hefur orðið sú þróun á undanförnum árum, sérstaklega tveimur síðustu, að það hefur verið nokkur framleiðsluaukning, sérstaklega á mjólk, og á sama tíma hefur neysla minnkað á þessum vörum með þjóðinni. Ef bændur yrðu að taka á sig þetta, eins og lítur út fyrir og mundi verða gert ef ríkið kæmi þar ekki til að einhverju leyti, þá mundi þurfa að leggja 200 kr. verðjöfnunargjald á hvert kg og 18 kr. á hvern lítra mjólkur. Eins og verðlagsgrundvöllurinn er uppbyggður mundi þetta þýða á verðlagsgrundvallarbúið 1.3 millj. Vinnuliðurinn í verðlagsgrundvellinum, eins og hann var 1. mars, er upp á 6 millj. og rúmlega 453 þús. kr., en þessi vinnuliður er þannig byggður upp að það er 81 vika eða rúmlega 1.5 ársverk. Á þessu sést að ef þyrfti að leggja 200 kr. gjald á hvert kjötkg og 18 kr. á hvern mjólkurlítra yrðu það rúm 20% af vinnulið verðlagsgrundvallarins sem skerðingin yrði. Ef aftur á móti, sem menn verða að gera ráð fyrir, bóndinn þarf að borga rúmlega hálft ársverk, eins og það er metið, þá yrði skerðingin rúmlega 30% af vinnu bóndans. Ég spyr hv. þm. hvaða stétt mundi vilja taka á sig slíka kjaraskerðingu og hvort þm. vilji bjóða bændastéttinni slíka skerðingu.

Það eru mikil vorharðindi um allt land eins og við vitum, og við heyrðum í útvarpinu áðan að það hefur ekki verið jafnkalt hér í Reykjavík síðan mælingar hófust, í heila öld, eins og einmitt í þessum maímánuði. Þetta þýðir það að kostnaður hjá bændum vex mikið og ef ekki bregður til betri veðráttu skyndilega er sýnilegt að þeir verða líka fyrir tilfinnanlegu tekjutjóni af völdum þessa harða vors, og eftir því sem batinn kemur síðar verður þetta tilfinnanlegra.

Af þessum ástæðum öllum taldi landbn. ekki annað fært en að bæta við þetta ákvæði til bráðabirgða sem hæstv. landbrh. bar fram, enda er það í raun og veru í beinu framhaldi af yfirlýsingu hans hér á Alþ. Viðbótin er þannig, með leyfi forseta:

Ríkisstj. er heimilt að ábyrgjast lán allt að 3.5 milljarði kr., er Framleiðsluráð landbúnaðarins tekur til framkvæmda á tillögum nefndarinnar.“

Eins og þetta bráðabirgðaákvæði ber með sér er það Sexmannanefnd sem ríkisstj. skipar helminginn af og bændur helminginn, sem á að athuga og gera till. um hvernig á að leysa þennan vanda. Jafnvel þó að þessi till. yrði samþ. og n. kæmist að því að það væri sjálfsagt og rétt að mæla með því að þessi ábyrgð yrði notuð, þá mundi samt koma 433 þús. kr. skerðing á hvert grundvallarbú miðað við þær áætlanir sem liggja fyrir.

Á þskj. 675 hefur hv. þm. Sighvatur Björgvinsson flutt brtt. við þetta bráðabirgðaákvæði. En þar sem þessi brtt. er alveg í mótsögn við það sem hann ræddi hér á Alþ. í vetur, þar sem hann tók greinilega fram að engir mundu ætlast til að þessi skerðing kæmi á bændur eina, þá geri ég ráð fyrir að þessi till. hafi verið flutt í fljótræði.

Hæstv. landbrh. er víst ekki staddur hér. Hann hefur, síðan n. skilaði nál. sínu og till., lagt enn fram viðaukatill., sem er á þskj. 783 og er við 2. tölul., að við tillgr. bætist: „enda náist jafnframt samkomulag um samdrátt í framleiðslu sauðfjár-og nautgripaafurða á næstu árum.“

Nefndin leggur líka til að smábreyting verði gerð á 1. gr. Sexmannanefnd átti miðað við frv. að vera búið að tilnefna fyrir 15. júlí, en við leggjum til að það verði 15. júní í þess stað.

Fjarstaddir afgreiðslu málsins voru hv. þm. Finnur Torfi Stefánsson og Eðvarð Sigurðsson. Hv. þm. Pálmi Jónsson og Eggert Haukdal skrifa undir nál. með fyrirvara.