18.05.1979
Neðri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4996 í B-deild Alþingistíðinda. (4325)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt að fara nokkrum orðum strax um ræðu hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar.

Vil ég þá í fyrsta lagi taka fram, að mér þykir það furðu gegna eftir svo mörg ár á þingi að sá þm. skuli ekki hafa lært enn að það orðbragð, sem hann temur sér vestur á fjörðum og menn hlæja þar gjarna að, á varla við í sölum Alþingis.

Ég skal fara fáeinum orðum um þær aths., sem hv. þm. gerði. Hv. þm. og reyndar einnig hv. 1. þm. Suðurl. ræddu um till. til þál. um stefnumörkun í landbúnaði. Einkum hafa þeir hv. þm. gert sér far um að reyna að snúa út úr VIII. kafla í þeirri till. Það er rangt, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði áðan þegar hann greip fram í, — ég hef aldrei sagt að ég hafi samið þá grg. Taldir eru upp á 2. og 3. síðu 32 sérfróðir menn í landbúnaði sem sömdu þessa grg. Þeir eru stórum fróðari um þessi mál en við allir sem hér höfum talað. T. d. þennan VIII. kafla hafa samið þrír menn, og það vill svo til að einn þeirra, ágætur maður, mun vera flokksbróðir hv. þm. sem gera sér mikið far um að snúa út úr því sem þar segir. Ég a. m. k. varð var við það, að bóndi nokkur norður í Þingeyjarsýslu vissi hvernig átti að nota bása til kjötframleiðslu. Hann skýrði frá því þar, að hann væri að undirbúa fækkun hjá sér um 20 kýr og hann ætlaði að setja holdanaut á básana. Þessu hefði hv. þm. mátt gera sér grein fyrir. Eru þá ekki básarnir notaðir fyrir holdanaut og því til kjötframleiðslu? Hv. þm. Matthías Bjarnason gerir gys að því að hirða blóð og þvag úr merum. Honum þætti kannske fróðlegt að vita að úr meraþvagi eru unnir hormónar sem notaðir eru í „pilluna“. Því gæti verið, ef hv. þm. er ekki orðinn of gamall, að hann hafi einhvern tíma haft af því gagn, sem sagt meraþvagi. Sem sagt, ég held því að hv. þm. ætti að þakka fyrir ef hann hefur enn not fyrir slíkt.

Þá vil ég upplýsa það, að einn högni er ætlaður fyrir þrjár læður og hann mun ekki geta verið á öllum stöðunum í einu. Kannske skilur hv. þm. það ekki. Hann var eflaust á yngri árum a. m. k. færari en einn högni.

Ég mun svo ekki hafa fleiri orð um þetta. Eins og þið heyrið eru skýringar á þessum atriðum, enda hafa samið þessa grg. menn sem eru stórum fróðari en þeir þm. sem hér hafa gert sér far um að snúa út úr þessum setningum.

Hv. þm, minntist á mjólkurfræðingaverkfallið og mun hafa beint því til mín, að mjólkurfræðingar ynnu í verkfalli. Mér er að vísu ætlað of mikið í þessu sambandi því þegar á sunnudaginn, er ég hitti mjólkurfræðinga, höfðu nokkur mjólkurbú samið við mjólkurfræðinga um þennan hátt, t. d. mjólkurbúið á Akureyri. Ég gerði ekkert annað þar en að taka fram að ég vonaði að þetta samkomulag yrði til þess að mjólkurfræðingaverkfallið leystist sem fyrst og þess vegna teldi ég þetta eðlilegt spor í þá átt. Að sjálfsögðu er það á valdi hvers mjólkurbús hvort það semur svo við sína starfsmenn. Þau hafa ekki fengið neina skipun eða nein fyrirmæli um það.

Hv. þm. taldi, að lítið hefði komist fram af landbúnaðarmálum. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að bændasamtökin reyndu í samstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. að fá samkomulag stjórnarflokkanna um að fá víðtækar heimildir fyrir Framleiðsluráð til þess að hafa nokkurn hemil á vaxandi framleiðslu, en það náðist aldrei samkomulag um slíkt, það tókst ekki. Hins vegar hefur þó þegar á þessu þingi verið samþ. frv. sem heimilar Framleiðsluráði og Stéttarsambandi að hafa nokkur tök þar á, og þótt ég sé ekki að öllu leyti ánægður með endanlega afgreiðslu þess frv. ber þó að meta það og vonandi verður það til þess að takast megi að snúa þessari þróun eitthvað við.

Ég verð að spyrja hv. þm. að því, hvernig hann vilji leysa þann vanda sem bændur eru í í dag? Við þeim blasir tekjuskerðing upp á 5.2 milljarða samtals eða um 1.2 milljónir á hvern meðalbónda í landinu. Hv. þm. vísar e. t. v., eins og hv. 1. þm. Suðurl., gerði í till. þeirra sjálfstæðismanna um ákvæði til bráðabirgða. Ég gerði þá aths. við það ákvæði, að þar væri ríkisstj. eingöngu heimilað að ráðstafa fé til þess að aðstoða bændur í þessu sambandi að einhverju marki, en engin heimild fylgdi fyrir ríkissjóð til að afla þess fjár. Ég spurðist fyrir um það þá, hvort hv. þm. vildu flytja till. um slíka heimild til að afla þess fjár. Ég veit að hv. þm. sem fyrrv. ráðh. þekkir að sjálfsögðu það, að heimild til að afla fjár verður að fylgja hverri eyðslutillögu. Ég hygg að hann hafi gert þær kröfur þá. Ég óskaði eftir slíku, en ég fékk engar þær till. fram. Hér er um að ræða heimild til þess að taka fjármagn að láni í þessu skyni. Ég hefði að sjálfsögðu kosið að unnt væri að finna fjármagn á annan máta, en ég hef ekki treyst mér til að flytja till. um hærri skatta eða þess háttar innheimtu til þess að greiða þetta, a. m. k. ekki í ár, og hef talið líklegast að verulegan hluta af þessu mætti greiða með þeim sparnaði sem verður í útgjöldum ríkissjóðs vegna útflutningsbóta á næstu árum við stefnubreytingu. En ég skal gjarnan hlusta á hugmyndir hv. þm. um betri leiðir í þessu sambandi.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm., að ekki hefur náðst samstaða í ríkisstj. um þá till. sem ég lagði þar fram. Hann getur kallað hana grautargerð eða hvað sem hann vill. Sjálfur er hann er ekki vanur að marka stefnu til langs tíma. Hann tekur gjarnan ákvarðanir í flýti og lítt hugsaðar. Ég hygg að margir hafi orðið þess varir í hans tíð sem sjútvrh. Hann leitaði a. m. k. lítið eftir samstarfi við sjómenn eða vísindamenn eða aðra sem á þessum sviðum starfa. Ég tem mér ekki slíka starfshætti. Ég hef leitast við að hafa samráð við sem allra flesta sem að landbúnaðarmálum starfa. Ég heyri það að hv. þm. gerir aths. við þá fundi sem ég átti með bændum. Slíkt virðist fara í taugarnar á honum. En ég vil segja það, að þeir fundir hafa verið mér sérstaklega gagnlegir. Á þeim hafa komið fram mörg sjónarmið sem ég tei að hafi verið mjög nauðsynleg í þessu sambandi öllu. Menn verða að gera sér grein fyrir því, að þegar rætt er um samdrátt í landbúnaði á næstu 5 árum, eins og kemur fram t. d. í margnefndri þáltill., þá er það alls ekki sársaukalaust fyrir framleiðendur landbúnaðarafurða. Það er ákaflega erfitt skref sem þarna þarf að stiga, og tvímælalaust er nauðsynlegt að ræða þessi mál við bændur sjálfa þegar ákvörðun og reyndar áður en endanleg ákvörðun er tekin um slíkt. Markmiðið með þessum fundum hefur einmitt verið það, og ég vil upplýsa hv. þm. um að þessir fundir hafa allir verið haldnir að ósk bændasamtakanna sjálfra. Hver einasti þeirra hefur verið boðaður af viðkomandi búnaðarsambandi að ósk þess, og ég hef talið mér skylt að fara á þá fundi og mæta fulltrúum bænda og bændum sjálfum þar til umræðu um þessi viðkvæmu mál. Mér þykir satt að segja furðulegt, að hv. þm. skuli finna að því, og kann enga aðra skýringu á þessu en þá, að hann temur sér allt önnur vinnubrögð.

Ég vil svo segja um þá till., sem hér er komin fram, að um þá till., sem ég lagði fram um beina samninga við bændur, var fullt samkomulag — og ég vona að sé enn — við stjórnarflokkana alla. Hins vegar þótti ýmsum að í þá till. vantaði a. m. k. ákveðnar vísbendingar um það, hvernig leysa ætti þann mikla vanda sem bændur standa frammi fyrir í dag. Því flutti ég till. um ákvæði til bráðabirgða þar sem undirstrikað er að Sexmannanefnd skuli taka það mál þegar til meðferðar og gera till. til ríkisstj. þannig að tekjuskerðing bænda verði sem minnst. Ég get að sjálfsögðu enga aths. gert við það þótt hv. landbn. þætti að þarna þyrfti að bæta við heimildum til ríkisstj. til þess að slíkar till. mætti örugglega framkvæma. Þær þarf að framkvæma að öllum líkindum áður en þing er komið saman að nýju. Landbn. hefur því flutt viðbótartill. við þessa till. mína um ákvæði til bráðabirgða. Hins vegar vek ég athygli á því, að þarna er eingöngu um heimild að ræða og þarna segir ekkert um það, hvernig þetta fjármagn á að greiðast aftur. Því hygg ég að ýmsum bændafulltrúum þyki að enn vanti töluvert á.

Ég harma að sjálfsögðu að ekki hefur náðst samstaða í ríkisstj. um það, hvernig bæta eigi bændum að hluta umrædda tekjuskerðingu. Mér er fyllilega ljóst að ekki verður náð árangri í þeirri stefnumörkun, sem að er unnið, þar sem stefnt er að því að draga mjög verulega saman framleiðsluna á næstu 5 árum, án þess að ríkisstj. og þjóðarbúið séu reiðubúin að hlaupa að nokkru undir bagga í þeim miklu erfiðleikum sem bændur eiga nú við að stríða ofan á erfiðleika vegna harðæris sem allir hér inni þekkja.