09.11.1978
Sameinað þing: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

33. mál, niðurfelling aðflutningsgjalda á vélum til fiskiðnaðar

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það er rétt sem kom fram hjá frsm. varðandi þessa till., að þetta mál hefur oft borið á góma. Fiskvinnslufyrirtæki hafa oft bent á nauðsyn þess, að af þeim yrði létt gjöldum af þessu tagi. Það er því ekki um að ræða frumskírn á því máli sem hér er um fjallað. Langmikilvægasta málið í þessu sambandi er niðurfelling söluskatts af vélum og tækjum til fiskiðnaðar, og það hefur sem sagt ítrekað borið á góma á undanförnum árum og má jafnvel telja þann tíma í áratugum.

Málið er í sannleika tvíþætt: Í fyrsta lagi er fiskiðnaðurinn samkeppnisgrein. Hann verður að búa við harða samkeppni á mörkuðum sínum fyrir afurðir sínar og þess vegna þarf að búa vel að samkeppnisstöðu hans. Í öðru lagi er mikilvægt að fiskiðnaðurinn sé tæknilega vel búinn svo að framleiðni hans og hagkvæmni í vinnslunni sé sem mest. Þetta skiptir máli bæði varðandi stöðu hans út á við og eins gagnvart öðrum atvinnugreinum hér á landi.

En svo oft sem þetta mál hefur borið á góma, þá hefur það jafnoft runnið út í sandinn. Eftir því sem ég kemst næst hafa a.m.k. tvær undangengnar ríkisstj. gefið undir fótinn með afnám söluskatts af tækjum og vélum til fiskvinnslu. Á undangengnum vikum hef ég og starfsmenn í sjútvrn. átt ítarlegar viðræður við fjmrh. og starfsmenn hans um þetta mál og þá m.a. með hliðsjón af því að draga úr kostnaði við fiskvinnslu.

Í sambandi við seinustu fiskverðsákvörðun kom sérstök ábending frá fulltrúum fiskvinnslunnar með ósk um niðurfellingu á söluskatti af vélum til fiskvinnslu í hraðfrystiiðnaði, í saltfiskverkun og í skreiðarverkun.

Niðurstaða þeirra viðræðna, sem ég hef átt við fjmrh., hefur leitt til þeirrar niðurstöðu, að fjmrh. hefur nú nýverið samþ. að fella niður sölugjald af vélum og tækjum til fiskvinnslu til frystingar, í saltfiskverkun og í skreiðarverkun. Það hefur orðið að samkomulagi milli mín og fjmrh. að ég upplýsti þetta hér.

Það er ekki talin nauðsyn á sérstakri lagaheimild til þessarar niðurfellingar, heldur verður hún framkvæmd skv. heimild í 20. gr. söluskattslaganna, a.m.k. fyrst um sinn.

Ég tel að með þessu hafi náðst fram efndir á fyrirheitum, sem oft hafa verið gefin, og að hér sé verið að stiga spor til þess að draga úr kostnaði við fiskvinnslu, það sé verið að stiga spor til þess að auðvelda uppbyggingu í fiskvinnslunni og gera hana þjóðfélagslega arðsamari. Um leið er verið að stuðla að betri nýtingu fjármagns. Það er verið að stíga spor í átt til þess, að fjármagnið leiti í ríkara mæli en ella í tæknilega uppbyggingu sem skilar sér aftur í auknum afköstum vinnandi handa og þar með betri lífskjörum.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta mál, en vil láta koma skýrt fram, að þessi ákvörðun hefur nú verið tekin og fjmrh. hefur samþ. niðurfellingu á sölugjaldi af vélum og tækjum til fiskvinnslu í hraðfrystiiðnaði, í saltfiskverkun og skreiðarverkun.