18.05.1979
Neðri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5019 í B-deild Alþingistíðinda. (4342)

275. mál, skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hér er komið að máli sem eflaust á eftir að verða rætt mikið, og það er athyglisvert hve mikið kapp er lagt á það í lok þingsins að drífa þetta mál í gegn. Það er einnig afar athyglisvert varðandi það mál sem hér er til umr., að það á að ræðast að hæstv. fjmrh. fjarstöddum, en fyrr í þessari umr. var gerð að honum hörð hríð. Enginn hv. þm. í d. tók upp hanskann fyrir þau sjónarmið sem hann hafði lýst í upphafsræðu sinni.

Það er eitt sem er alveg ljóst í þessu máli, og það er að frv. upprætir ekki brugg í landinu. Hér hefur verið bruggað um árabil og áratugi og árhundruð, og það frv., sem hér liggur fyrir, kemur ekki í veg fyrir brugg. Ef tilgangurinn hefði verið sá þarf ríkið að taka í sinar hendur öll þau efni sem hugsanlegt er að brugga úr, og allir sjá hvar það mundi enda.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason flutti fyrr við þessa umr. merka ræðu og svaraði þá spurningu sem ég hafði beint til hans um það, hvort ekki væru álíka skattsvik að borða heima hjá sér og að brugga, þar sem báðir aðilar svikju undan skatti. Sá sem borðar heima hjá sér borgar ekki söluskatt af því, en það gerir hann hins vegar ef hann borðar á hóteli. Og sá sem bruggar heima borgar ekki eins mikla skatta og sá sem kaupir áfengi úr „Ríkinu“. Munurinn, sagði Vilmundur, á þessu tvennu er sá, að bruggun er ólögleg, en það að borða heima hjá sér er löglegt. Þetta sjá allir að getur verið rétt, en er ekki rétt, því að bruggun er ekki ólögleg. Það er aðeins ólöglegt að brugga yfir visst áfengismagn sem er nánar skilgreint í áfengislögunum.

Það var athyglisvert í þessari umr., að það komu fram fsp. frá hv. þm. Árna Gunnarssyni og Gunnlaugi Stefánssyni til hæstv. ráðh. um það, hvort ætlunin væri að hætta innflutningi á þeim efnum sem þyrfti til bruggunar, og ég man ekki betur en hæstv. ráðh. léti þau orð falla að svo væri ekki. Ég held að það sé full ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðh. hvort það sé þá rangt með farið, sem ráðuneytisstjóri hans, Höskuldur Jónsson ráðuneytisstjóri í fjmrn., lét hafa eftir sér á útsíðu í Morgunblaðinu 28. apríl, en þar stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Í samtali við Morgunblaðið kvaðst Höskuldur Jónsson ráðuneytisstjóri í fjmrn. fullviss um að varningur sambærilegur þeim, sem mest hefur verið notaður til öl- og víngerðar í heimahúsum, verði ekki fluttur inn og boðinn til sölu á vegum Áfengis- og tóbakseinkasölu ríkisins.“

Ég fæ satt að segja ekki heim og saman hvernig á því getur staðið að þetta misræmi er hjá ráðh. og ráðuneytisstjóra. — Ég vil nú gera aðeins hlé á ræðu minni og fagna því að hér koma inn áhugamenn um það mál sem verið er aðræða. Það er ekki oft sem maður nýtur þess úr þessum ræðustól þegar klukkan er farin að ganga tvö að nóttu að sjá svona liðtæka fulltrúa og áhugasama um þetta mál.

Það er dálítið athyglisvert, þegar verið er að ræða um áfengisvandamálið, að allir virðast vera sammála um það, hvert áfengisvandamál þjóðarinnar er, það sé félagslegs eðlis, að einum manni undanskildum og það er hæstv. fjmrh. Eina áfengisvandamálið, sem hann virðist eiga við að stríða, er að hann selur ekki nógu mikið af því. Það er verulega athyglisvert hvernig skoða má viss mál frá mörgum hliðum.

Það hafa sumir — og mjög margir eins og sagt er — haft samband við mig eftir að ég flutti hina bráðsnjöllu ræðu fyrr í þessari umr. og minntist á einokun ríkisins á eldspýtum, en auðvitað er einokuninni að kenna hve eldspýtumar eru slæmar. Einn ágætur vinur minn og aðdáandi, fréttaritari Þjóðviljans hér á hv. þingi, Sigurður Tómasson, sagði mér að ástæðan fyrir því, að þær eldspýtur, sem fengjust í „Ríkinu“ og reyndar í þinginu líka, hétu „Double happiness“, sem þýðir tvöföld hamingja, væri sú, að fyrri hluti hamingjunnar fælist í því að einhverjum tækist að kveikja á eldspýtunum, en síðari hluti hamingjunnar fælist í því að honum tækist að slökkva í fötunum á sér á eftir. En eins og allir vita eru þessar eldspýtur þeim eiginleikum gæddar, að neistar hrjóta í allar áttir þegar kveikt er á þeim. Um þetta ræddi ég talsvert í fyrri ræðu minni til þess að benda á að ef verið er á annað borð að krukka í þessa einokunarlöggjöf, þá held ég að þar þurfi að taka til hendinni og afnema einokun ríkisins á eldspýtum, enda geta allir keypt kveikjara af öllum gerðum með öðrum hætti en í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

Eitt þeirra mála, sem sérstaklega verður til umr. þegar rætt er um áfengismálin, er að sjálfsögðu bjórinn. Það vill nú svo til um bjórinn, að flest rökin gegn því, að hér á landi sé leyft að brugga og drekka áfengt öl, eru í eðli sínu rök gegn áfengisneyslu yfirleitt. Þau rök eru að sjálfsögðu gild sem slík, en varla verður það á dagskrá næstu árin að banna áfengi alfarið, enda hafa Íslendingar og aðrar þjóðir heldur slæma reynslu af slíku banni. Sérstakar mótbárur gegn bjórnum hafa einkum verið þær, að bjórneyslan bætist við áfengisneyslu þjóðarinnar og fólk byrji að drekka fyrr á ævinni og líkur á daglegri drykkju á vinnustöðum aukist. Öll þessi sjónarmið eiga fullan rétt á sér og taka ber tillit til þeirra þegar um þessi mál er rætt og ákvörðun tekin. Að mínu mati breyta þau samt ekki niðurstöðunni, en það er skoðun mín að fólki hér á landi eigi að gefast tækifæri til að drekka bjór fyrst á annað borð er verið að leyfa áfengisneyslu. Þegar bjórinn verður leyfður ber þó að hafa þessi viðhorf og reynslu annarra þjóða í huga. Grundvallarspurningin er auðvitað: Hvers vegna getum við ekki fengið að drekka bjór hér á landi fyrst okkur er treyst til að drekka vín, bæði sterk og veik? Slíkt lögbundið bann, sem stríðir gegn siðgæðishugmyndum manna, er fremur fallið til þess að fólk haldi áfram að umgangast áfengi með því tvískinnungsviðhorfi sem einkennir drykkjuvenjur Íslendinga.

Nú geta allir sem vilja bruggað eigin bjór, ef þetta frv. fer ekki í gegn a. m. k., og svo rammt kveður að þessum heimilisiðnaði, að nú hefur það frv., sem hér er til umr., verið lagt fram. Á sama tíma geta flugliðar og farmenn flutt inn bjór til landsins og í sendiráðum erlendra ríkja hérlendis er drukkinn íslenskur bjór. Þannig er ekki bannað að neyta bjórsins, heldur aðeins að brugga hann og selja. Slík mismunun verður að sjálfsögðu óþotandi í augum þess fólks sem telur sig geta umgengist bjór með viðlíka hætti og útlendingar og íslenskt sérréttindafólk í þessum efnum. Engin kaffihúsamenning þrífst hér á landi. Ef menn vilja hittast annars staðar en á einkaheimilum eftir kl. 9 á kvöldin er það varla hægt nema á börum sem eru áfastir matsal og fyrsta flokks eldhúsi, því að enginn fær vínveitingaleyfi nema slíkum skilyrðum sé fullnægt. Sumir halda því fram, að bjórinn geti verið „kommúnikasjónsmiðill“. Hann er tilvalinn mjöður til að hafa um hönd þegar menn koma saman til að slaka á og ræða málin án þess að stofna þurfi til allsherjar fyllirís.

Hér skal ekki farið út í þá sálma að bera saman gæði bjórs og annars áfengis, en benda má á þýðingu Halldórs Laxness á grein, sem birtist í heilbrigðisdálki Süddeuts­ che Zeitung í München 26. aptíl 1977. Í inngangi þeirrar þýðingar segir Halldór Laxness m. a., með leyfi forseta:

„Fróðlegt er að heyra, hverju hlutgengir menn í heilbrigðismálum Þýskalands, þessa miklu bjórneyslulands, halda fram um þennan drykk, og bera saman við ýmislegt sem skrifað er um málið hér á landi, ekki síst með tilliti til þess, að hér veit almenningur ekki gjörla um hvað verið er að tala þegar bjór er á dagskrá, þar sem drykkurinn hefur verið kriminaliseraður hjá akkur í tvær kynslóðir, þ. e. a. s. látinn jafngilda glæp allar götur síðan árið 1905.“

Þetta er tekið úr bókinni: „Sei, sei, jú, mikil ósköp“, á bls. 121, en hún var gefin út af Helgafelli 1977.

Í umr. um þann þátt áfengismálanna, sem hér er á dagskrá, er ekki eingöngu á það að líta, hvort leyfa skuli sölu áfengs öls, heldur einnig hvernig að sölunni skuli staðið, ef leyfð verður. Skoðun mín er sú, að varlega eigi að fara af stað í þeim efnum. Ég er alfarið á móti því að bjór verði til sölu í matvörubúðum, eins og víða tíðkast. Til að byrja með er eðlilegt að hann verði einungis seldur í útsölustöðum ÁTVR og þá aðeins í heilum og hálfum flöskum. Meira að segja kæmi til greina að fara enn hægar í sakirnar fyrst í stað og takmarka söluna við vínveitingahúsin þannig að engar flöskur verði í umferð, heldur verði bjórinn einungis framreiddur í glösum. Slíkt kemur í veg fyrir fyllerí á vinnustöðum og í ljós kemur hvort Íslendingar þola drykkinn verr en aðrar þjóðir.

Sem kunnugt er hefur mesti styrrinn staðið um millisterka ölið í nágrannalöndunum. Af þeim sökum mætti reyna þá aðferð hér að reyna fyrst í stað aðeins sölu bjórs með tilteknu áfengismagni og feta sig áfram á grundvelli þeirrar reynslu sem fengist með þeim hætti. Að sjálfsögðu hefur löggjafarvaldið síðasta orðið um það, hvort og hvernig skuli ákveða afnám bjórbannsins. Eðlilegast sýnist mér að almenningur ákveði það sjálfur í þjóðaratkvgr., enda virðist það vera regla hér á landi að almenn atkvgr. fari fram um það hvort opna skuli útsölur á viðkomandi stöðum. Bjórmálið skiptir mönnum ekki í stjórnmálaflokka. En niðurstöður slíkrar þjóðaratkvgr. gætu verið leiðbeinandi fyrir þm., enda má búast við að í umr. um slíka atkvgr. komi fram gnægð raka og gagnraka í málinu til að moða úr. Alþ. gæti kosið n. til að útbúa þá till. sem leggja skal fram um málið. Í henni þarf að vera greinargóð lýsing á framkvæmd málsins, þar sem m. a. er tekin afstaða til þeirra þátta sem hér hafa verið gerðir að umræðuefni.

Önnur atriði nátengd bjórmálinu eru viðhorf yfirvalda til rekstrar vinveitingahúsa hér á landi. Og um þau mál er fjallað enn fremur í áfengislöggjöfinni sem hér stendur til að breyta. Það g,etur varla verið lögmál að aðeins megi selja áfengi á stöðum sem hafa eldhús af vissri stærð, og það getur varla verið náttúrulögmál að loka beri skemmtistöðum á mínútunni hálftólf. Aukin fjölbreytni og frjálsari reglur hljóta á næstunni að koma til athugunar í þessum efnum. Í þessu sambandi er rétt að rifja það upp, að hæstv. dómsmrh. hefur í vetur, á þessu þingi, komið fram með nokkur frv., sem leiða til lækkunar á ýmsum réttindaaldri hér á landi, svo sem lögræðisaldri og hjúskaparaldri, og það er eðlilegt að réttindi til þess að fá að drekka vín fyrir þá, sem vilja drekka vín, lækki að sama skapi. Hér væri um að ræða viðurkenningu á staðreynd, en öllum er ljóst að 18–20 ára ungmenni fá aðgang að vínveitingahúsum og nánast er útilokað fyrir viðkomandi aðila að greina aldursmun á þeim og öðrum sem eru litlu eldri.

Mér er að fullu ljóst að íslenska þjóðin á við áfengisböl að stríða. Fáum kemur til hugar allsherjarbann í alvöru. Framboði á áfengi ber því að halda innan ákveðinna marka, þannig að freistingin blasi ekki alls staðar við. Að mínu áliti ber þó fyrst og fremst að draga úr eftirspurninni, og slíkt verður ekki gert með boðum né bönnum, heldur skilvirkri og skynsamlegri fræðslu um afleiðingar drykkjunnar. Með breyttum reglum gefst kostur á nýjum umgengnisvenjum, heilbrigðara almenningsáliti og nýrri og haldbetri viðspyrnu. Fræðslustarf áhugamannasamtaka og opinberra aðila er happadrýgsta aðferðin og skilar miklu meiri árangri en boð og bönn sem stríða. gegn skynsemi almennings og leiða til virðingaleysis gagnvart lögum og reglum.

Ég hef leyft mér að rifja þetta mál upp á þessum stað og í þessum umr. til þess að benda hv. þingheimi á að það er ýmislegt fleira, sem þarf breytinga við í áfengislöggjöfinni, heldur en þær till. sem hæstv. fjmrh. hefur lagt fram. Nú gætu sumir spurt: Hvert er maðurinn að fara? Ætlar hann að gera þessa þjóð algerlega örvita, ætlar hann að hella áfengi ofan í börnin, ætlar hann að hella áfengi og bjór ofan í hvert mannsbarn í landinu? — Í þessu sambandi er ástæða til þess að benda sérstaklega á það, að formaður SÁÁ, Sambands áhugamanna um áfengisvarnir, Hilmar Helgason, hefur í vetur skrifað margar ágætar greinar í blöð þar sem hann hefur bent á fjölmörg atriði — ég ítreka: fjölmörg atriði í áfengislöggjöfinni sem þarf að breyta.

Það er t. d. athyglisvert, að í áfengislöggjöfinni eru ákvæði um að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, útsölur hennar og veitingastaðir, sem leyfi hafa til veitinga áfengra drykkja, megi aðeins afhenda áfengi gegn staðgreiðslu. Nú er það á allra vitorði að opinberir aðilar fara ekki svona að, það er ekki um staðgreiðsluviðskipti að ræða hjá þeim, þannig að samkv. lögum um áfengismál þjóðarinnar ætti að setja fjölmarga opinbera aðila í tugthús, alla vega sekta þá. Í áfengislögum er líka að finna ýmsar aðrar skrýtnar klásúlur, eins og t. d. að áfengi megi ekki afhenda né veita neinum sem er bersýnilega ölvaður. Óheimilt er að selja þeim manni áfengi er sekur hefur gerst um óleyfilega sölu eða bruggun áfengis. Skylt er að tilkynna útsölustöðum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins jafnóðum hverjir gerst hafa sekir um óleyfilega sölu eða bruggun áfengis. Hverjum dettur í hug að slík lagagrein eigi heima í íslenskum lögum á því herrans ári 1979?

Svona atriði mætti telja upp fleiri, og það er athyglisvert að lesa grein eftir Hilmar Helgason, sem birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 2. mars 1979, þar sem hann er að svara Halldóri Kristjánssyni, sem er kenndur við Kirkjuból, og sýnir fram á að það er ekki eingöngu hægt að ræða um þessi mál á grundvelli þeirra umr. sem hér hafa farið fram um fjölmörg undanfarin ár og hafa fyrst og fremst verið á heimavelli bindindissamtakanna í landinu. Hér er þó á engan hátt verið að sneiða að þeim samtökum sem ég veit að hafa unnið á margan hátt ákaflega gagnmikið starf. En það er athyglisvert að þeir menn, sem hafa reynslu sjálfir af áfengisbölinu, leggja til allt annað. Þeir telja að hluti af áfengisvandamálum þjóðarinnar sé sá, að það séu of stífar reglur, of þröngar reglur í lögum þannig að hér gefist ekki tækifæri til að umgangast áfengi eins og gerist meðal annarra svokallaðra siðaðra þjóða. Allt þetta verður þó að skiljast með því hugarfari að því er ekki þannig farið að hægt sé að banna alfarið áfengi hér á landi. Um það hefur ekki heldur verið beðið, og frv. hæstv. ráðh. er eingöngu byggt á því að afla meiri tekna í ríkissjóð.

Ég veit, herra forseti, að það er áreiðanlega ekki gaman í þínum sporum né annarra hv. þdm. að sitja hér og hlusta á þessa bindindisprédikun sem ég hef flutt hér úr ræðustólnum. En mér þykir það leitt að ég gat ekki beint máli mínu til hæstv. fjmrh. og rætt um þann þáttinn sem þetta frv. gerir ráð fyrir, en það er tekjuþáttur ríkissjóðs í málinu. En ég vil leyfa mér að segja það, að ef þetta frv. fer áfram hér í þinginu til n. og út úr n., þannig að ætlunin sé að ljúka því á þessu þingi, þá mun ég leyfa mér ásamt öðrum þm. að bera fram till. um rökstudda dagskrá sem mundi þá að sjálfsögðu vera byggð á þeim rökstuðningi sem ég hef hér lýst og lýsti reyndar áður í ræðu við þessa umr., að við höfum í vetur rætt ýmis önnur atriði áfengislöggjafarinnar, ég er flm. að einu slíku frv. og mér finnst full ástæða til þess að taka það frv. og aðrar hugmyndir, sem komið hafa fram í þessum umr., og gera þeim skil um leið og áfengislögin eru endurskoðuð í heild. En að taka eitt atriði út úr aðeins vegna þess að það vantar fjármagn í ríkiskassann, það nær ekki nokkurri átt. Þess vegna mun ég ásamt öðrum hv. þm. í þessari d. beita mér fyrir því, að málinu verði ekki lokið á þessu þingi.

Það hefði vissulega verið ástæða til þess að fjalla hér miklu ítarlegar um áfengismálin, fara ofan í þær upplýsingar sem hafa komið annars vegar frá bindindissamtökunum og hins vegar í umsögnum fjölmargra aðila sem sendu allshn. Nd. umsagnir vegna hugsanlegra breytinga á áfengislögunum. En það verður ekki gert að sinni. Það verður látið bíða þess tíma þegar áfengislöggjöfin verður tekin fyrir í heild sinni og henni breytt, sem væntanlega verður gert næsta haust, þegar hæstv. fjmrh. er ljóst að hann á ekki erindi sem erfiði í þessu máli ef hann ætlar að þrýsta því í gegn á þessu þingi.