18.05.1979
Sameinað þing: 98. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5034 í B-deild Alþingistíðinda. (4356)

51. mál, verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég mun virða tilmæli um að vera stuttorður, en mig langar þó til að gera örfáar aths. við ræðu síðasta ræðumanns.

Það er alveg rétt, sem kom fram í ræðu hans, að af ásettu ráði ræddi ég ekki um rannsóknahlutverk þn. Og ég segi það skýrt og skorinort, að það hef ég gert áður og tel óþarfa að ítreka þá ræðu og ég ætla ekki að gera það. Hann sagði, og kom mér reyndar ekki á óvart, þessi hógværasti hv. ræðumaður allra tíma og allra flokka, að ég hefði komið hér upp og fetað í fótspor gömlu mannanna og væri að vernda það tveggja eða þriggja flokka kerfi sem gilt hefði um Keflavíkurflugvöll og verktökuna þar. Ég segi bara eins og er: Sá hlustaði illa. Ég var að tala um hvernig hægt væri að breyta fyrirkomulaginu til að koma til móts við þá nýju tíma sem hér hafa runnið upp með öflugum verktakaiðnaði í landinu. Að vísu kom hv. þm. inn á það atriði síðar og sagði að þar hefði ég ekki snert kjarna málsins. Um það geta verið skiptar skoðanir, en ég tel það vera kjarna málsins. Hitt er svo annað mál, að menn geta leikið sér með hugmyndir eins og að kanna hvort þn. eigi að hafa leyfi til þess að rannsaka eitt eða annað. Það er allt annað mál og þá eiga menn að ræða málið á þeim grundvelli, en ekki vera að ræða um einstök fyrirtæki í því sambandi.

Svo kom hann inn á orðaskipti, sem urðu á milli okkar fyrr í haust á hv. Alþ. um einhverja dæmalausustu till. sem hér hefur verið flutt og var till. hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar um Eimskip og Flugleiðir, og sagði þá m. a. að það væri gamanmál, hvaða afstöðu ég hefði tekið þá, og það væri gamanmál, hvað ég hefði farið flatt á þeirri afstöðu minni því að það hefði komið í ljós, reynslan hefði sýnt það, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefði haft rétt fyrir sér allan tímann. Ja, heyr á endemi! Þessi hv. þm. kom hér upp með dylgjur um fyrirtæki í haust, oftast í nafni frjálsrar samkeppni og frelsisins, en ætlaðist náttúrlega til þess að fyrirtækin væru þjóðnýtt. Það var megintilgangurinn með orðaflaumi hans á þeim tíma. Hann snerist hins vegar yfir í það að segja, þegar erfiðleikar urðu á Norður- Atlantshafsflugleiðinni: Sjáið þið nú. Ég hafði rétt fyrir mér. — En um þetta snerist mál hans alls ekki í haust og þarf heldur betur að hressa upp á minni hans ef þarf að rifja það upp hér í ræðustól og koma því ofan í kokið á honum. (ÓRG: Við skulum gera það.) Þetta veit öll þjóðin.

Síðar kom hann í því máli hér upp í ræðustól og sagði, að tilgangur minn með því að svara í því máli væri sá hinn sami og hjá ákveðnum bandarískum þm., Henry Jackson, kallaður „Scoop“ Jackson og margir þekkja (var í forsetaframboði fyrir demókratana, þ. e. a. s. reyndi það á sínum tíma) og sagði að ég væri að safna atkv. hjá Flugleiðum og Eimskipafélaginu og þetta væri háttur sem notaður væri víða erlendis. Þessu til staðfestingar sagði hv. þm. að upp á áheyrendapöllunum hefði setið einn af fulltrúum Loftleiða og hlustað á þessar umr. En hann var óheppinn, sá ágæti hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Á sama tíma og hann stóð hér í ræðustól og flutti ræðu sína sat maður, þar sem þingvörður Jakob situr nú, sat í sæti hans í hliðarsal og hlustaði á hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson. Og hver skyldi það hafa verið? Það var fréttastjóri sjónvarpsins, Emil Björnsson, og mér dettur ekki í hug að hann hafi komið hingað í sambandi við þetta mál. En það læddust að ýmsum öðrum grunsemdir þegar rifjað var upp hvers vegna þetta mál var flutt. Það mál var nefnilega flutt eingöngu í því skyni að koma þessum hógværa þm. fyrir á skjánum inni í sjónvarpi til hann gæti sýnt sinn fagra líkama og sitt fagra bros og komið fyrir sjónir allra fjölskyldna í landinu. Það var megintilgangur málsins, enda hefur hv. þm. ekki haft minnsta áhuga á að þoka því máli áleiðis og eru þó nokkrir menn þar enn þá á mælendaskrá. (Gripið fram í. )

Þetta er staðreynd málsins og það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að grípa fram í fyrir mér, því að þetta er staðreynd málsins. (Gripið fram í.) Þú situr ekki hér í kennarastól. Þú verður að læra að umgangast sannleikann og staðreyndir eins og menn sem eru þér meiri og kunna að viðurkenna mistök sín. Það verða menn að læra. Og það er helvíti hart að ætlast til þess af mér að ég þurfi að fara að kenna þér mannasiði á hv. Alþ. Það átti að gera í æsku þinni og uppeldi. (Gripið fram í.)

Vegna þess að hæstv. forseti bað mig að vera stuttorður í þessari ræðu skal ég fallast á það, en hér hef ég komið til skila staðreyndum ýmissa mála. (ÓRG: Ég óska eftir að hæstv. forseti leiðrétti þessar fullyrðingar ritara Sþ.)