18.05.1979
Sameinað þing: 98. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5037 í B-deild Alþingistíðinda. (4359)

51. mál, verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll

Frsm. meiri hl. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég mun virða þau tilmæli að tala mjög stutt, þar sem mér er ljóst að önnur mál bíða einnig eftir afgreiðslu.

Í framhaldi af þeim umr., sem hér hafa farið fram um rannsóknarvald þn., þykir mér rétt að það komi fram, að með utanrmn. gegnir nokkuð öðru máli en aðrar nefndir þingsins, þó ekki væri nema af þeirri ástæðu að hún ein þn. starfar allt árið. Mér er það auðvitað fullkunnugt, að mjög hefur orkað tvímælis og um það má deila hvort þn. eða löggjafinn yfir höfuð að tala hafi til þess vald að kalla fyrir sig hvern sem er í löggjafarskyni eða eftirlitsskyni með lögum. En það gegnir hins vegar nokkuð öðru máli þegar um fyrirtæki eða fyrirtækjasamsteypu er að ræða sem starfar beint og óbeint undir og vegna opinberra reglna. Sú fjármálastarfsemi, sem hér er um að ræða, er auðvitað mjög háð reglum sem opinberir aðilar hafa sett. Þar með er þessi fyrirtækjarekstur, sem ég undirstrika að ég er engan efnisdóm að leggja á, orðinn háður opinberum ákvörðunum og þar með er það einnig orðið — við skulum orða það svo — leyfilegt verkefni löggjafans að kanna hvort með öðrum og skynsamlegri hætti megi koma þessum reglum fyrir. Þetta finnst mér vera kjarni málsins og mér þykir að menn verði að greina á milli þess að rannsaka — eigum við að segja: hvað sem er í þjóðfélaginu í því skyni að breyta lögunum annars vegar og hins vegar þá þætti þjóðlífsins sem augljóslega eru í tengslum við reglur sem opinberir kjörnir aðilar hafa sett. Á þessu finnst mér vera mjög mikill greinarmunur, sem mér finnst satt að segja að ekki hafi verið skilið til nægilegrar hlítar.

Í annan stað vil ég taka undir það með hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, að mér þykir það vera misskilningur sem hér hefur verið sagt um umboðsmann Alþingis, því að það er náttúrlega svo, bæði í till. hér og á öðrum þjóðþingum, að það starf er hugsað til annarra verkefna en þeirra sem hér um ræðir.

Í þriðja lagi vil ég leggja á það mikla áherslu, að flm. þessa máls, og ég hygg að ég tali fyrir þá alla fjóra, hafa forðast að leggja nokkra efnisdóma á þá fjármálastarfsemi sem hér er um að ræða, enda væri það í ósamræmi við tilganginn, því að tilgangurinn er einmitt að komast að því til hlítar með hverjum hætti þessi starfsemi er rekin. Undir slíkum kringumstæðum er auðvitað ástæðulaust á þessu stigi málsins að vera að fella efnisdóma. Einmitt það stendur til að kanna.

En á hitt skulum við auðvitað leggja þunga áherslu, að þó að till. minni hl. utanrmn. sé klædd í snyrtilegan búning, eins og hv. frsm. er auðvitað von og vísa, fjallar hún ekki um neitt annað en að drepa þetta mál. Við skulum ekkert vera að draga fjöður yfir það. Annars vegar leggur meiri hl. til að kanna þetta mál til hlítar í því skyni að hafa síðar ástæðu til þess að fella efnisdóma, og hins vegar vill minni hl. drepa þetta mál. Meiri hl. utanrmn. vill ekki vinna þetta verk sjálfur, heldur að þetta verk sé unnið og er fyrir sitt leyti tilbúinn að takast það verk á hendur. Ég trúi því ekki fyrr en á verður tekið, þó svo það sé flokkaskipting í þessu, það er ekki heldur aðalatriði málsins á þessu stigi, — ég trúi því ekki að 32 þm. verði svo rígbundnir af flokkslínu eða flokksaga í þessum efnum að þegar meiri hl. n., sem starfar allt árið, vill að tiltekið verk sé unnið og telur til þess fyllstu ástæðu, án þess að fella efnisdóma og án þess að vera fyrir fram að gefa sér hinar minnstu ályktanir, komi það svo út í reynd að menn skiptist nákvæmlega eftir flokkslínum í þessum efnum, þó að svo sé í nál. Sé svo gæti satt að segja verið tilefni til að draga skrýtnar ályktanir. En það er engin ástæða til að álykta svo enn sem komið er, þrátt fyrir að nál. séu svona úr garði gerð. Ég hef fyllstu ástæðu eðli og efni málsins samkv. til þess að vera nú þeirrar skoðunar, að þetta mál verði samþ. og framkvæmt. Verði svo hygg ég að innan ekki langs tíma verði ekki lengur nein ástæða til að vefja þessa fyrirtækjasamsteypu neinum böndum tortryggni. Verður þá ekki samfélagið allt betra heldur en það var áður?