18.05.1979
Sameinað þing: 98. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5042 í B-deild Alþingistíðinda. (4362)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að vekja athygli á að þessi till., sem hér er til umr., er að því leyti til sérstök að það er verið að leggja til að samþykkja till., sem snertir bændastéttina einvörðungu og enga aðra, á móti umsögn þeirra og fulltrúar allra flokka nema Framsfl. hafa séð ástæðu til í þessum vorharðindum að leggja það eitt til að samþykkja till., sem bændur hafa á fundum sínum og í umsögnum sinum óskað eftir að yrði felld. Þetta er sá skilningur sem sú hv. n., sem fjallaði um þetta mál, hefur sýnt bændastéttinni.

Það er eiginlega hálfbroslegt að hv. flm. á sæti í landbn. Ed. og í sambandi við framleiðsluráðslögin kom hann með till. þess efnis sem felst í till. og óskaði eftir því sérstaklega við mig að ég sendi þá till. til umsagnar öllum búnaðarsamböndum í landinu, sem ég og gerði. En þegar ég fór að segja honum frá því að það væru að berast umsagnir sagði hv. þm.: Þú þarft ekki að segja mér það. Ég veit alveg hvernig þær eru. — Hann vissi sem sagt að hann var að vinna bændastéttinni óþurftarverk og ginna hv. þm. til að styðja sig í því. Þessir þm. eru Vilmundur Gylfason, Ellert B. Schram, Gunnlaugur Stefánsson, Jónas Árnason, Lárus Jónsson og Ólafur Ragnar Grímsson. Þessir hv. menn, fulltrúar allra þessara flokka, leggja til að samþykkja skuli þessa tillögu.

Nú kemst ég ekki hjá því, þó ég ætli ekki að tala hér lengi, að lesa upp sýnishorn af þeim umsögnum sem hafa borist landbn. Nd. út af þessari till., og lesa líka upp stutta fundarsamþykkt sem var gerð á stéttarsambandsfundinum sem var haldinn á Akureyri s. l. sumar. Sú samþykkt, sem aðalfundur Stéttarsambandsins samþykkti móti 2 atkv., hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Aðalfundur Stéttarsambands bænda, haldinn á Akureyri 29.–31. ágúst 1978, tetur ekki æskilegt að breyta því fyrirkomulagi, sem nú er, að afgreiða afurðalán og rekstrarlán landbúnaðarins til sölufélaga bænda.“

Ég hefði skilið ef þetta hefði snúið að einhverjum öðrum en bændastéttinni. En nú er lagt ofurkapp á að samþykkja þessa till., ekki að gera ráðstafanir til þess að hjálpa þeim bændum sem eru í fóðurvandræðum á þessu vori. Nei, það eru ekki gerðar neinar till. til þess, en lögð er áhersla á þetta, m. a. s. formaður Sjálfstfl. kemur upp utan dagskrár til að hafa í hótunum við ríkisstj. út af þessari merkilegu till., ef haldið verði uppi málþófi um þetta mál skuli ríkisstj. vara sig. Það var það eina sem hv. 4. þm. Reykv., formaður Sjálfstfl., hafði til málanna að leggja í sambandi við þau mál og þau vandræði sem nú steðja að landbúnaðinum, að hafa í hótunum ef þessi till. yrði ekki rædd og samþ., — ef menn færu að ræða hana, hefðu málþóf, skyldi ríkisstj. hafa verra af. Þetta er kannske sýnishorn af þeim skilningi sem ríkir á Alþ. í garð bændastéttarinnar á því herrans ári 1979. En ég ætla að óska þeim til hamingju með skilning sinn á þeim málum.

Það vill svo til að hér er ég með umsögn frá Búnaðarsambandi Skagfirðinga, skrifað undir hana af ráðunaut þeirra Agli Bjarnasyni, sem er þekktur sjálfstæðismaður þar nyrðra og eflaust stuðningsmaður — ja, maður skyldi ætla að hann hafi verið það — hv. þm. Eyjólfs K. Jónssonar. Það er best að ég lesi þetta eins og það er:

Stjórn Búnaðarsambands Skagfirðinga hafnar því eindregið að till. Eyjólfs K. Jónssonar komi í stað frv. þess sem hér um ræðir, en bendir hins vegar á að bætt verði inn í frv. ákvæðum þess efnis, að Sexmannanefnd verði lögð niður og teknir upp beinir samningar við ríkisstj. um verðlagningu landbúnaðarafurða og stöðu landbúnaðarins.“

Það mál hefur verið á dagskrá í hv. Nd. í nokkra daga og hefur verið tafið af stjórnarandstöðunni.

Fleiri umsagnir eru um þetta, eins og t. d. frá Búnaðarsambandi Norður-Þingeyinga. Eggert Ólafsson í Laxárdal er formaður þess. Hann segir: „Þessa till. tel ég algera fjarstæðu og það afsleppa að ekki sé ástæða til þess að taka á henni neitt mark.“

Búnaðarsamband Borgarfjarðar, ráðunautur þeirra skrifar undir þá umsögn, segir eftirfarandi: „Bókun samþykkt, þar sem rætt var um till. Eyjólfs K. Jónssonar um útflutningsbætur og niðurgreiðslur. Stjórnin telur þessa till. óraunhæfa.“

Þannig gæti ég haldið áfram að lesa upp umsagnir og ekki eina einustu á þann veg að menn telji að þetta séu raunhæfar till. En samt gerist það á Alþingi Íslendinga að fulltrúar allra flokkanna nema Framsfl. sameinast um þetta mál!

Það væri í raun og veru ástæða til að ræða dálítið um allan þann málflutning sem hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson var með í sambandi við það þegar hann ræddi þessa till., þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að sölufélög bænda fengju til umráða niðurgreiðslurnar, sem hann taldi 22–23 milljarða, útflutningsbæturnar, afurðalánin, rekstrarlánin, lagði þetta allt saman, komst að þeirri niðurstöðu að um 8 millj. kæmu í hendurnar á þessum sölufélögum fyrir hvert meðalbú í landinu. Sem sagt, málflutningurinn sýndi það best að hv. þm. skildi ekki neitt í neinu, blátt áfram ekki neitt í neinu. Hann skildi ekki að þegar rekstrarlánin eru borguð upp með afurðalánunum ganga niðurgreiðslurnar og útflutningsbæturnar til þess að borga rekstrarlánin og koma aldrei í hendur þessum félögum. Þetta skildi ekki hv. þm. — a. m. k. er þetta málflutningur hans skjalfestur í þingtíðindum og fer ekkert á milli mála hvernig hann var.

Ég taldi nauðsynlegt að gera þessar aths., ekki síst eftir að hv. 4. þm. Reykv. taldi till. vera svo mikið mál að utan dagskrár hafði hann í hótunum við ríkisstj. ef þetta mál, sem er á móti óskum bændanna í landinu, yrði tafið. Var það hið eina sem hv. þm. hafði til málanna að leggja í sambandi við þau vandkvæði og þau vandræði sem steðja nú að bændastéttinni. Þetta vil ég að komi í þingtíðindum og vek á því athygli, hvernig forusta sjálfstæðismanna, formaður Sjálfstfl., lítur á málefni bænda og hvað formaðurinn hefur til málanna að leggja á því harða vori 1979.