19.05.1979
Efri deild: 110. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5045 í B-deild Alþingistíðinda. (4369)

317. mál, sjómannalög

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 796 er stjórnarfrv. um breyt. á sjómannalögum. Í desembermánuði s. l. var ákveðið að ríkisstj. beitti sér fyrir lögfestingu ýmissa félagslegra réttindamála verkalýðshreyfingarinnar í tengslum við afgreiðslu launa- og kjaramála. Nú þegar hefur orðið talsvert mikil breyting á rétti verkafólks til launa í veikinda- og slysatilfellum og er því eðlilegt að gerðar séu sambærilegar breytingar á rétti íslenskra sjómanna, en um það efni er fjallað í sjómannalögum. Skv. 18. gr. þeirra laga eiga yfirmenn rétt til tveggja mánaða launa í veikinda-og slysatilfellum á ráðningartíma, en undirmenn rétt til eins mánaðar, þó aldrei lengur en skipverji hefur verið í þjónustu útgerðarmanns. Með þessu frv. er gert ráð fyrir eins mánaðar lengingu á þessum rétti á fyrstu tveim árum ráðningarinnar, þ. e. allt að þrem mánuðum fyrir yfirmenn og tveim mánuðum fyrir undirmenn. Eftir tveggja ára starf er svo gert ráð fyrir eins mánaðar aukningu á þessum rétti. Eftir tveggja ára starf eiga yfirmenn því rétt til allt að fjögurra mánaða launa í veikinda- og slysatilfellum, en undirmenn til þriggja mánaða.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta sjálfsagða réttindamál, enda er nánari grein gerð fyrir því í grg. En ég vil leyfa mér að leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. félmn.