19.05.1979
Efri deild: 110. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5047 í B-deild Alþingistíðinda. (4379)

19. mál, dómvextir og meðferð einkamála í héraði

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Þetta mál er nú til síðustu umræðu hér í þinginu, hefur farið í gegnum þrjár umr. í Nd. og tvær umr. í þessari deild. Á síðasta snúningi hefur hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson flutt hér brtt. eftir ábendingum nokkurra manna utan þings og rökstuddi hana á þann veg, að að þeirra dómi væri orðalag frv., eins og það kom frá Nd. og eins og það er búið að fara í gegnum tvær umr. í þessari deild, óframkvæmanlegt og þess vegna væri flutt till. um eingöngu formbreytingu á frv., brtt. frá hv. þm. Vilhjálmi Hjálmarssyni á þskj. 805 sé þess eðlis. Því miður verð ég að lýsa mig algerlega andvígan þessari brtt. Ég held að tilkoma hennar hér í þingsalnum stafi af misskilningi, og það er algerlega rangt að þarna sé eingöngu verið að breyta tæknilegum búningi efnisþátta frv. sjálfs.

Sú hugsun, sem liggur að baki þessa frv. sem hv. þm. Ellert B. Schram flutti í Nd., fólst í því að verðtryggja dómkröfur í meðferð mála í gegnum dómstigin hér á landi, sem oft getur tekið langan tíma, og fyrirbyggja að sá seinagangur verði til tjóns þeim sem hlut eiga að máli. Nú hefur verið lögð fram brtt. sem felur í sér að þetta mat eigi að miðast við innlánsvexti við innlánsstofnanir, en í frv., eins og það liggur fyrir hv. deild til lokaafgreiðslu, er miðað við byggingarvísitölu eða annan hliðstæðan mælikvarða á verðlagsþróun. Það eru fjölmargir samningar í þessu landi, sem koma til meðferðar dómstóla, sem byggðir eru á vísitölutryggingu af þessu tagi, skuldbindingar á milli aðila, og ég get ekki séð að það sé á neinn hátt óframkvæmanlegt að miða það mat við vísitöluþróun af þessu tagi, enda má upplýsa það að Seðlabankinn, sem er mjög hugkvæmur í vísitölusmíð, er nú með í smíðum svokallaða samskiptavísitölu sem fyrst og fremst á að miðast við að veita mönnum stoð í slíkum tilfellum. Hvað svo sem þeirri nýju vísitölu kann að líða, þá hefur gamla góða byggingarvísitalan reynst nægilega fær í þessum efnum. Ég hef því ekki séð neinar sérstakar röksemdir og þær koma ekki fram í máli hv. flm. þessarar brtt., Vilhjálms Hjálmarssonar, fyrir því, að sú aðferð, sem í frv. er, sé óframkvæmanleg. Hann leggur hins vegar til að miða við hæstu innlánsvexti eða m. ö. o. að verðtrygging á dómkröfum sé miðuð við þá vaxtastefnu sem í landinu er á hverjum tíma.

Nú vitum við það, að bæði meðal stjórnmálamanna og hagfræðinga er mikill ágreiningur um svokallaða hávaxta- eða lágvaxtastefnu og þátt þeirra í verðbólguþróun. Það eru til fræðimenn og stjórnmálamenn einnig sem telja að lágvaxtastefna sé æskilegt stjórntæki í verðbólguþjóðfélagi. Það er því alls ekki útilokað, ef þær kenningar fengju að ráða, að allt í einu yrðu innlánsvextir lækkaðir mjög og lágvaxtastefna héldi innreið sína sem hagstjórnartæki til frambúðar eða a. m. k. einhvern tíma, og þá er algerlega óeðlilegt að slík stjórnmálaleg ákvörðun eigi að ráða mati á verðtryggingu þeirrar kröfugerðar sem er fyrir dómstólum landsins við uppgjör milli deiluaðila vegna aðgerða eða framkvæmda eða brota sem áttu sér stað í fortíðinni. Að binda dómvexti eða verðtryggingu kröfugerða fyrir dómum við slíkt hagstjórnartæki sem vaxtastefnan er hverju sinni er algerlega andstætt þeirri grundvallarhugsun sem hér liggur að baki, þ. e. að verðtryggja þær kröfur sem eru til meðferðar í dómstólakerfinu. Ég vil þess vegna mælast til þess við hv. flm., Vilhjálm Hjálmarsson, að hann dragi þessa brtt. til baka, — ef ekki, þá við hv. deild að hún felldi hana, vegna þess að það getur ekki verið á nokkurn hátt eðlilegt að láta það vera háð pólitísku mati ráðamanna þjóðarinnar hverju sinni og afstöðu þeirra til hagfræðikenninga eða stjórnmálaviðhorfa í vaxtamálum sem hagstjórnartækis til frambúðar, hvernig kröfur um atburði liðinnar tíðar eru verðtryggðar fyrir dómstólunum.

Ég vil þess vegna mælast til þess við hv. deild, að hún samþ. frv. eins og það liggur nú fyrir til 3. umr., en fari ekki að breyta frv. á þann veg sem hér hefur verið lagt til. Það er í fyrsta lagi, eins og ég hef reynt að rökstyðja hér, efnislega rangt að mínum dómi og byggt á algerum misskilningi á eðli þessa máls, og í öðru lagi getur það stofnað málinu í allverulega hættu, vegna þess að mér er kunnugt um að í Nd. eru ýmsir þm. mjög andsnúnir því að verið sé að eyðileggja inntak þessarar lagasetningar með því að gera það háð hinni pólitísku vaxtastefnu eins og hún er á hverjum tíma í landinu. Það gæti sem sagt eyðilagt frv. bæði efnislega og kannske komið í veg fyrir að það yrði að lögum. Við eigum þess vegna að samþykkja það nú við síðustu umr. þingsins í þeirri mynd sem það hefur farið í gegnum allar aðrar umr. og látum þá reyna á hvort þetta er hægt eða ekki hægt. En persónulega er ég alveg viss um að beiting byggingarvísitölu eða annars slíks sambærilegs mælikvarða, sem smíðaður yrði, er fyllilega framkvæmanleg og möguleg.