09.11.1978
Sameinað þing: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

28. mál, niðurfelling gjalda af efni til hitaveitna

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa fylgi mínu við þessa till. og tek undir rök hv. flm. og hv. síðasta ræðumanns í því efni. Það er enginn vafi á því, að jarðvarmi er hagkvæmasti orkugjafinn til upphitunar húsa. Þar kemst ekkert í samjöfnuð. Þess vegna er ákaflega þýðingarmikið frá þjóðhagslegu sjónarmiði að við hagnýtum jarðvarmann sem mest.

Fyrir u.þ.b. fjórum árum var talið að það væru ekki nema um 50% landsmanna sem ættu þess kost að hagnýta jarðvarmann til upphitunar húsa, en á síðustu fjórum árum hefur verið gert alveg sérstakt átak til að kanna möguleika á hagnýtingu jarðvarmans, með þeim árangri, að nú er svo komið að talið er að um 80% af íbúum landsins geti hagnýtt jarðvarmann til upphitunar húsa.

Hitaveiturnar hafa þýðingu til hagnýtingar jarðvarmans. Hv. flm. þessarar till. talaði mest um jarðvarma í sambandi við hitaveitur. En líta verður svo á að hitaveitur, eins og það orð er skilgreint í orkulögunum,eigi við varmaveitur hver sem orkugjafinn er, hvort sem hann er jarðvarmi, rafmagn eða olía, þ.e.a.s. ef um jarðvarmaveitu er að ræða, hver sem orkugjafinn er. Ég vil mega líta svo á að þessi till. eigi við hitaveitur hver sem orkugjafinn er.

Það orkar ekki tvímælis, að þýðingarmikið er, eins og ég sagði áðan, að hagnýta jarðvarmann til upphitunar húsa. En það er svo ástatt, að í vissum landshlutum er það ekki mögulegt vegna þess að jarðvarmi fyrirfinnst ekki, a.m.k. ekki enn þá. Í því sambandi má t.d. sérstaklega nefna Austfirði, og svo er ástatt víðast hvar á Vestfjörðum enn sem komið er, þó að það sé ekki fullreynt enn þá frekar en raunar á Austfjörðum. Það þolir ekki bið, þar sem jarðvarmi er ekki, að gerðar séu ráðstafanir til að koma upp hitaveitum til að geta hagnýtt rafmagn eða olíu sem orkugjafa við hitaveitur, vegna þess að með slíkri notkun er komið á mikilli hagkvæmni frá því að nota rafmagn til beinnar upphitunar eða hafa olíukynta miðstöð í hverju íbúðarhúsi fyrir sig.

Þess vegna er það að þessi till., eins og ég vil mega styðja hana, hefur ekki einungis þýðingu til þess að hagnýta jarðvarmann, heldur einnig til þess að koma á skynsamlegri hagnýtingu á rafmagni til upphitunar, olíu eða hvaða orkugjafa sem er. Þetta er mjög þýðingarmikið mál, vegna þess að um leið og verið er víða um landið að vinna að byggingu hitaveitna með jarðvarma sem orkugjafa, þá er líka verið að vinna að uppbyggingu hitaveitna með öðrum orkugjöfum en jarðvarma. Nægir í því sambandi að benda á þá framkvæmd, sem nú stendur yfir af hálfu Orkubús Vestfjarða á Ísafirði, og fleiri fyrirhugaðar framkvæmdir hjá því fyrirtæki. Einnig má benda á það, að uppi eru fyrirætlanir t.d. á Höfn í Hornafirði um að koma upp slíkri hitaveitu, og auðvitað er svo á fjölmörgum öðrum stöðum á landinu.

Ég stóð upp fyrst og fremst til að leggja áherslu á þennan þátt málsins. Ef eitthvað er, þá gerir þessi túlkun þessa till. enn þýðingarmeiri. En ég legg áherslu á orðið hitaveita verði skilið hér í merkingu orkulaganna, þ.e.a.s. að það sé um að ræða sölu heits vatns eða gufu til almenningsþarfa á tilteknum veitusvæðum frá jarðhitastöðvum eða hitunarstöðvum með öðrum orkugjöfum, hverjir sem þeir kunna að vera.