09.11.1978
Sameinað þing: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

28. mál, niðurfelling gjalda af efni til hitaveitna

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég fagna þessari till. og styð hana, en ég tel ástæðu til að taka alveg sérstaklega undir orð hv. 5. þm. Vestf. í sambandi við það sem hann stakk upp á, að þetta orð yrði víðfeðmara, það næði yfir varmaveitur almennt.

Eins og öllum er sjálfsagt kunnugt, hefur landinu til skamms tíma verið skipt hvað þetta snertir, þannig að það hefur verið talað um hin svokölluðu „köldu svæði“. Eins og kom fram hjá hv. þm., eru þau Vestfirðir, Austfirðir og Snæfellsnes. Ég vil þó benda á að ekki er öruggt að slá slíku föstu af hendi vísindamanna okkar því þeir hafa sjálfir sannað að svo er ekki. Hafa verið gerðar rannsóknir á Snæfellsnesi t.d. á undanförnum árum og boraðar hitastigsholur, sem nú er sannað að eru jákvæðar, þ, e. sýna hátt hitastig. Hins vegar skortir Orkustofnun enn fjármagn til að gera tilraunaborun, og eftir því er beðið.

Hins vegar er það mjög mikilvægt, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði áðan, að það verði einnig lítið til þeirra framkvæmda, sem ýmis sveitarfélög eru nú að undirbúa, þ.e.a.s. hinna svokölluðu varmaveitna, sem byggðar eru upp á annan hátt en hitaveiturnar. Þetta er stórmál sem verður að taka með því að við hljótum allir að vera sammála um að það eru ekki aðeins 80%, heldur öll þjóðin sem þarf að búa við þau skilyrði sem skapast í sambandi við hitaveiturnar. Ég tel ástæðu til að fagna því, að stjórnvöld hafa á undanförnum árum vissulega sinnt þessu máli vel og örvað framkvæmdir víðs vegar um landið að því er varðar hitaveitur. Þess vegna ættu allir að geta verið sammála um að hér er stefnt í rétta átt.