19.05.1979
Neðri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5065 í B-deild Alþingistíðinda. (4417)

263. mál, eftirlaun aldraðra

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Í tengslum við almenna kjarasamninga árið 1977 lýsti ríkisstj. yfir til að greiða fyrir samkomulagi um lífeyrismál milli samtaka launþega og vinnuveitenda, að hún mundi beita sér fyrir því að samdar yrðu till. sem tryggðu landsmönnum öllum svipaðan rétt og lögin um eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum gera, þ. e. lög nr. 63 frá 1971, lög nr. 33 frá 1976 og lög nr. 67 frá 1977, og færa þeim sem þeirra njóta. Till. þessar áttu að fela í sér fyrsta áfanga þess verks sem unnið hefur verið að á undanförnum árum: að koma á samræmdum lífeyrissjóðum fyrir alla landsmenn.

Það mun hafa verið á miðju ári 1976 að ríkisstj. skipaði tvær nefndir til að semja tillögur um nýskipan lífeyriskerfisins í landinu, og var önnur n. skipuð 17 mönnum og henni ætlað að vera vettvangur fyrir heildarendurskoðun lífeyrismála í landinu. Þessi n. var skipuð af fjmrh., en auk þess tilnefndi heilbr.- og trmrh. menn í n. ásamt fulltrúa frá Tryggingastofnun ríkisins og aðilum vinnumarkaðarins. Innan þessarar n. hefur starfað 7 manna lífeyrisnefnd, sem er skipuð 3 fulltrúum frá Alþýðusambandi Íslands og 3 frá samtökum vinnuveitenda, en sjöundi maðurinn er tilnefndur af ríkisstj. Þessi 7 manna n. hefur að verulegu leyti fjallað um lífeyrismálefni á samningssviði Alþýðusambands Íslands og vinnuveitenda og gert till. um nauðsynlegan afbeina ríkisvaldsins í því sambandi, bæði að því er varðar löggjafar- og framkvæmdaratriði.

Frv., sem hér liggur fyrir, er í samræmi við yfirlýsingu þáv. ríkisstj. um lífeyrismál og er byggt á því starfi sem unnið hefur verið að á vegum þessara lífeyrisnefnda og þá einkum lífeyrisnefndar aðila vinnumarkaðarins.

Lög um eftirlaun aldraðra félaga í stéttarfélögum voru upphaflega sett í framhaldi af almennum kjarasamningum á árinu 1969 og stofnun lífeyrissjóða verkalýðsfélaganna sem þá var ákveðin. Við stofnun þessara lífeyrissjóða var ljóst að allstór hópur manna í stéttarfélögum hafði aldurs vegna ekki möguleika á að ávinna sér umtalsverð réttindi í þessum nýju lífeyrissjóðum. Engu að síður var talið nauðsynlegt að tryggja þessum hópi ákveðin lágmarksréttindi. Tilgangur laganna var að veita þeim mönnum, sem komnir voru á efri ár, nokkur lágmarksréttindi, þó að þeir greiddu lítið eða jafnvel ekkert til hinna nýstofnuðu sjóða. Eðlilegt hefði verið að leysa þennan vanda með bráðabirgðaákvæðum í reglugerðum sjóðanna og að sjóðirnir sjálfir stæðu undir þeim kostnaði sem af hlytist. Á þessu voru hins vegar talin margvísleg vandkvæði, þar sem sjóðir voru ýmist ekki eða þá rétt teknir til starfa. Lögin voru því sett til að leysa ákveðin byrjunarvandamál sjóðanna og fólu í sér tímabundna ráðstöfun, enda eiga lífeyrisgreiðslur samkv. þeim að falla niður í árslok 1984.

Með samkomulagi aðila vinnumarkaðarins um lífeyrismál og verðtryggingu eftirlauna hafa mál hins vegar snúist á þann veg, að lögin um eftirlaun frá 1970 og 1971 urðu verulegar réttarbætur í lífeyrismálum almennings innan félagasamtaka ASÍ. Þá útgjaldaaukningu, sem hlaust af þessu, bera lífeyrissjóðirnir sjálfir, en skv. lögum greiða Atvinnuleysistryggingasjóður og ríkissjóður kostnaðinn af eftirlaunagreiðslum, og greiðir Atvinnuleysistryggingasjóður 3/4, en ríkissjóður 1/4.

Þó að lög um eftirlaun aldraðra hafi gegnt mikilvægu hlutverki, bæði í fyrstu sem grundvöllur lágmarksréttinda þeirra, sem ekki höfðu tækifæri til að ávinna sér þau réttindi með iðgjaldagreiðslum til hinna nýstofnuðu lífeyrissjóða, og nú s. l. 3 ár sem leið til almennrar hækkunar eftirlaunagreiðslna, eru lögin engu að síður takmörkuð að gildi sínu og ná einungis til hluta lífeyrisþegahópsins í landinu. Talið er að lögin frá 1971 og hliðstæð lög um Lífeyrissjóð bænda taki til um 4000 aðila, þar af eru um 1200 sem njóta hliðstæðra eftirlauna hjá Lífeyrissjóði bænda. Að mökum meðtöldum gæti fjöldinn verið um eða yfir 5500 eða um fjórðungur allra lífeyrisþega. Við þennan hóp má bæta tæplega 3000, sem rétt eiga á lífeyri úr lífeyrissjóðum hins opinbera og lífeyrissjóðum bankanna sem fylgir launum á hverjum tíma. Eftir stendur þá hópur sem nemur helmingi til 2/3 hluta lífeyrisþega, sem ekki hefur átt aðild að lífeyrissjóðunum. Að hluta er hér þó vitaskuld um að ræða fólk sem enn hefur einhverjar atvinnutekjur, en það getur einnig átt við þá sem aðild eiga að lífeyrissjóðum.

Með lögum um starfskjör launþega frá árinu 1974 er kveðið á um skylduaðild allra launþega að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Þessi lög settu því í reynd alla menn í sömu aðstöðu og meðlimir Alþýðusambands Íslands höfðu eftir samningana 1969, sem sé öllum launþegum er skylt að eiga aðild að sjóði og greiða til hans, en hafa af því lítið gagn ef þeir eru þegar við aldur eða hafa látið af aðalstarfi sínu án lífeyrissjóðsréttinda.

Þessi rök eru þó engan veginn eina ástæðan fyrir því að færa öllum landsmönnum þau réttindi sem fetast í eftirlaunalögunum og verðtryggingaákvæðum þeim sem samkomulag Alþýðusambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands fjallar um. Önnur gild ástæða felst í því, að ósanngjarnt virðist að láta aðild að ákveðnum stéttarfélögum á síðustu árum starfsævinnar eina sér ráða jafnmiklu um framfærsluöryggi í ellinni og hefur verið nú hin síðustu ár, ekki síst af þeirri ástæðu, að þess eru ýmis dæmi að menn hverfa á efri árum frá störfum, sem réttur til eftirlauna hefði fylgt, og til starfa þar sem slíkur réttur er ekki tryggður nema að mjög takmörkuðu leyti eða á engan hátt. Úr þessu er reynt að bæta með þessu frv. Og í þessu sambandi nægir ekki að réttindi nái til launamanna einna, því þeir menn, sem við lok starfsævinnar eru í hópi einyrkja eða stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi, hafa í mörgum tilvikum fyrr á ævinni verið í launuðu starfi.

Auk þess hafa sérstakar ráðstafanir verið gerðar til að tryggja stórum hópi manna, bændum sem starfa við eigin atvinnurekstur, eftirlaunarétt af þessu tagi með sérstökum hætti. Af þessum ástæðum þykir rétt að láta eftirlaunaréttinn ná til allra manna, enda verði fjáröflun til að standa straum af eftirlaunum hagað í samræmi við það, eins og nánar verður vikið að hér á eftir.

Með tilliti til þess, sem ég hef sagt, er þetta frv., sem hér liggur fyrir, starf þessarar n. og í samræmi við það loforð sem fyrrv. ríkisstj. gaf. Ég fyrir mitt leyti er ánægður með samningu þessa frv. í öllum höfuðatriðum, en þó er ég mjög óánægður með eitt mjög mikilvægt atriði, en það er fjáröflun til þess að standa undir þessum útgjöldum. Ed. gerði nokkra breyt. á frv. og þar var flutt till. um ákvæði til bráðabirgða þess efnis, að fyrir 1. jan. 1980 skuli ríkisstj. leggja fram frv. til l. sem létti greiðslubyrðar á Atvinnuleysistryggingasjóði og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða tryggi þeim nýja tekjustofna. Það kom fram hér í gærkvöld hjá hv. 6. þm. Reykv., Eðvarð Sigurðssyni, mikil óánægja með þennan frágang á frv. hvað snertir fjáröflunina, og er leitt til þess að vita, að hæstv. ríkisstj., sem leggur þetta frv. fram, skuli ekki hafa komið sér saman um fjáröflunarleiðina, hreina og ákveðna fjáröflunarleið, heldur er bent hér á að uppi séu tvær till., og sagt í aths. með frv. að einróma samkomulag hafi verið í n. um tilgang og bótaákvæði frv. Enginn ágreiningur var heldur um það, að lífeyrissjóðir greiði 5% af iðgjaldatekjum til að standa að hluta undir kostnaði vegna bóta ákvæða þess. Varðandi fjáröflunartillögur frv. í heild lágu hins vegar fyrir tillögur um tvær meginleiðir. N. afgr. málið þannig til ríkisstj., að val stóð milli þessara tveggja leiða. Í frv., eins og það var lagt hér fyrir Alþ., er önnur þessara leiða farin, en í hinni till. var gert ráð fyrir mun hærra ríkisframlagi, en minni útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs og lífeyrissjóða sem samkomulagið frá 22. júní 1977 tekur til. Síðarnefndu till. studdu fulltrúar Alþýðusamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands, Vinnumálasambands samvinnufélaganna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamanna og Landssambands lífeyrissjóða, en fulltrúi Lífeyrissjóðs bænda taldi sig geta stutt hvora till. sem væri. Þannig var frv. lagt fyrir, og Ed. afgr. þessa fjáröflunarleið með þessu ákvæði til bráðabirgða sem ég las upp áðan.

Í öllum megindráttum er ég samþykkur þeirri fjáröflun sem snertir það sem lagt er lífeyrissjóðunum sjálfum á herðar, og ég get að vissu leyti og verulegu leyti tekið undir það, að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga leggi þar til, með tilliti til þess, að með gildistöku þessara íaga er létt töluverðum útgjöldum af sveitarfélögum í landinu. Hins vegar er ég ekki þess umkominn að leggja á það mat, að það, sem hér er lagt til að lagt sé á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sé það eina sanna og rétta, en tel eðlilegt að Jöfnunarsjóður leggi fram í þessa fjáröflun. Öðru máli er að gegna um þær kvaðir sem lagðar eru á Atvinnuleysistryggingasjóð. Þar get ég í öllum verulegum atriðum tekið undir það sem 6. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni hér í gærkvöld, og ég hefði kosið varðandi þetta ágæta og þarfa mál, sem hér er til umræðu, að fjáröflun til þess hefði verið mætt með ákveðnari hætti en gert er við afgreiðslu málsins frá hv. Ed.

Ég ætlaði mér að leggja fram nokkrar fyrirspurnir til hæstv. trmrh., en ég sé að hann er ekki hér í þingsalnum.

Þær eru ekki margar og ég skal stytta þær fyrirspurnir í trausti þess, þar sem tveir ráðh. sjást nú hér inni í salnum, að þeir komi þeim fyrirspurnum áleiðis, því að ég er ekki að krefjast þess, að menn sitji hér undir umr. svo að segja sólarhringinn út.

Fyrsta fyrirspurnin er: Hvað líður endurskoðun laga um Atvinnuleysistryggingasjóð? Þegar ég gegndi starfi trmrh., næstum því ári áður en ég lét af því, skipaði ég n. til að endurskoða lög um Atvinnuleysistryggingasjóð, og var til þess ætlast, að sú endurskoðunarnefnd lyki störfum á s. l. hausti og þá kæmi væntanlega fram nýtt frv. um breyt. á l. um Atvinnuleysistryggingasjóð. Það frv. hefur ekki séð dagsins ljós enn þá og ekkert vitað um hvað liður störfum þeirrar n. Það hefur oft áður komið fram hér á Alþ. nauðsyn þess að endurskoða þessi lög, og það voru bæði sjálfsagðar og eðlilegar óskir sem komu fram um það. En eins og komið .er fyrir Atvinnuleysistryggingasjóði er búið að hlaða á hann meiri skyldum en fjáröflun hans getur með góðu móti staðið undir, og þar tek ég með þau ákvæði sem hvíla á sjóðnum varðandi þær skyldur sem fylgja þessu frv. Því er þörf á að hæstv. ráðh. upplýsi þessa þd. um hvað liði endurskoðun þessara mikilvægu laga.

Ég tek skýrt fram, að ég styð þetta frv. í öllum meginatriðum, þó að ég sé mjög óánægður með hvernig gengið er frá þessari hlið málsins, sem er mikilvægt atriði, og sömuleiðis er mjög erfitt viðureignar að f,á þetta mál til n., þó í síðari d. sé, rétt fyrir þinglok. Á engan hátt vil ég þó bregða fæti fyrir afgreiðslu málsins, þó að allt sé þetta komið á allra síðasta snúning. En þetta frv. er aðeins áfangi að miklu stærra og ákveðnara marki, sem er lífeyrissjóður fyrir alla launþega í landinu eða lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn, eins og mönnum er tamara að segja.

Ef við lítum á fjárhagsstöðu lífeyrissjóðanna almennt, þá er hún mjög misjöfn og þar kemur margt til. Sumir þessara sjóða njóta verðtryggingar lífeyris, aðrir ekki. Sumir eru gamlir og grónir og byggja á töluverðum auðæfum, en aðrir þessara sjóða eru nýstofnaðir. Reglur um iðgjöld og lífeyrisréttindi eru með ýmsum hætti. Við hlið lífeyrissjóðanna eru svo ellilífeyrisgreiðslur almannatrygginganna, og þessi kerfi starfa bæði sjálfstætt án samræmingar. Það er t. d. tvöföld trygging hjá sumum, en mjög tágar bætur til annarra.

Að því er varðar samræmingu þessara meginkerfa koma til greina þrjár leiðir. Róttækasta leiðin væri sú að sameina alla lífeyrissjóði í landinu í eitt og sameina þá almannatryggingunum, en með því væru lífeyrisréttindi og iðgjaldagreiðslur allra starfsstétta samræmdar. Allsherjarlífeyrissjóð af þessu tagi mætti reka að verulegu leyti á sjóðsmyndunargrundvelli og viðhalda þannig þeim sparnaði sem lífeyrissjóðirnir skapa eða eiga að skapa. Einnig væri hugsanlegt að hverfa alveg frá sjóðsmyndun og láta iðgjöld og lífeyrisgreiðslur standast á árlega. Báðar leiðirnar eru þekktar frá öðrum löndum. Þó að þessi lausn sé að ýmsu leyti einföld og jafnframt áhrifamikil, þá held ég að sé óhætt að fullyrða að gegn henni sé slík andstaða, þar sem hún rekst mjög á hagsmuni fjölda þjóðfélagshópa sem hafa áunnið sér þessi réttindi, að hún komi vart til greina. Hugsanleg leið væri að lífeyrissjóðirnir tækju að sér meginhlutverkið í greiðstu ellilífeyris og þeim ætlað að greiða bæði almennan grunnlífeyri auk viðbótarlífeyris eftir tekjum og aðildartíma hvers sjóðsfélaga. Almannatryggingarnar hefðu þá það hlutverk að sjá fyrir lágmarkstekjutryggingu þeirra sem af einhverri ástæðu yrðu utan við lífeyrissjóðakerfið. Þriðja leiðin og sú sem er einna algengust í þeim löndum, sem okkur eru líkust í félagslegri uppbyggingu, er að almannatryggingakerfið verði gert að grunnkerfi sem greiði lágmarksellilífeyri til allra án tillits til aðildar að lífeyrissjóðum, þessi lágmarkslífeyrir væri miðaður við þurftartekjur og væri hátt hlutfall af lægstu tekjum verkafólks. Því til viðbótar greiddu síðan lífeyrissjóðirnir viðbótarlífeyri í samræmi við reglur hvers sjóðs um sig, er fari eftir starfstekjum í lok starfsævi og inneign hvers sjóðsfélaga. Þessi leið mundi í reynd verða til þess að umfang almannatrygginganna ykist mjög verulega frá því sem nú er, en jafnframt mundi það létta á greiðslum hjá lífeyrissjóðunum. Yrði því óhjákvæmilegt að nokkur hluti þeirra iðgjalda, sem nú renna til lífeyrissjóða, færi beint til almannatrygginganna, svo að hægt væri að forðast nýjar álögur. Þó að þessi leið hafi í för með sér nokkra þrengingu á núverandi starfsvettvangi lífeyrissjóðanna virðist hún að ýmsu leyti álitlegri við aðstæður hér á landi en þær tvær leiðir sem ég nefndi áður. Á þessu stigi vil ég á engan hátt fullyrða hvaða leið verður valin og hvaða leið verður heppilegust. En ég tel mikla nauðsyn og í samræmi við það, sem allir þingflokkar hafa heitið almenningi í landinu, að lögð verði á það rík áhersla að þessi svokallaða 17 manna n. hraði störfum sínum. Þó að n. ljúki störfum á ríkisstj. og síðar Alþ. eftir að marka endanlega þá stefnu, sem lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn á að taka, og þegar sú stefna liggur fyrir og Alþ. hefur mótað hana er auðvitað óhjákvæmilegt að nokkur tími líði þangað til þetta mikilvæga mál verður orðið að veruleika í framkvæmd. Því er nauðsyn á að hreða vinnu þessarar n. og stefnumörkun ríkisstj. og Alþingis á þann hátt að setja tímamörk fyrir því, hvenær þetta fullkomna lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn eigi að taka gildi.

Hér er um mikið misrétti að ræða í þjóðfélaginu. Annars vegar eru verðtryggðir lífeyrissjóðir tiltekinna hópa launþega en hins vegar óverðtryggðir lífeyrissjóðir. Þetta eru langstærstu félagslegu umbætur, sem almenningur í landinu getur vænst af samfélaginu, og miklu meira virði en fjölmörg þau mál sem verið er að klifa á að taka inn í tryggingakerfið á hverjum tíma. En þetta er það stórt átak að það verður ekki stigið og komið til framkvæmda nema á nokkuð löngum tíma. En til þess að jafngott mál og þetta verði að veruleika þarf að hraða, eins og ég sagði áðan, vinnu þessarar nefndar, ákvörðunartöku ríkisstj. og síðan lögfestingu Alþ. á þessu lífeyriskerfi. Og á það legg ég mikla áherslu að brýna hæstv. ríkisstj. í því að fylgja vel eftir þessari ákvörðunartöku.