19.05.1979
Efri deild: 111. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5082 í B-deild Alþingistíðinda. (4428)

251. mál, Iðnlánasjóður

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins lýsa yfir fyllsta stuðningi við það frv. til l. sem hér er til umr. um Iðnlánasjóð. Þetta mál tengist vissulega því áhugamáli sveitarfélaga og ekki síst samtaka sveitarfélaga að reyna að örva þann þátt úti um landsbyggðina sem helst skortir á í byggðauppbyggingu, þ. e. a. s. ýmsan iðnað. Þetta hefur verið ákaflega aðkallandi vandamál og er það vissulega víða úti um landið, þar sem fyrir liggur að iðnaðarmenn eða þeir aðilar, sem hafa hug á að koma upp ýmsum iðnaði, hafa ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að byrja á því að byggja upp húsnæði fyrir þessa starfsemi, því að ekki hefur verið aðgangur að fjármagni sérstaklega í þessu skyni.

Sveitarfélögin hafa á undanförnum árum þreifað mjög á þessu máli, og þá kom það raunar greinilega í ljós strax, að samkvæmt lögum og reglum Iðnlánasjóðs hafði hann ekki möguleika eða leyfi til að lána sveitarfélögum sem höfðu hug á að koma upp slíku húsnæði fyrir iðnaðinn í byggðarlaginu. Þá lá ljóst fyrir að til að eiga aðgang að þessum sjóði yrði að breyta lögum. Á ráðstefnu sveitarfélaga á „Degi iðnaðarins“ um iðnaðarmálefni var þetta mál mjög til umfjöllunar og þar kom greinilega fram ósk og vilji sveitarstjórnarmanna og annarra áhugamanna í þessum málum, að það þyrfti að gera átak til að efla iðnaðinn úti um landsbyggðina. Eitt af því, sem þar kom fram og menn töldu nauðsyn til að gera þetta kleift, var að koma upp svokölluðum iðngörðum, þar sem ýmist sveitarfélög hefðu um það algera forystu eða munduð yrðu samtök sveitarfélaga með einstaklingum í viðkomandi byggðarlögum til að koma á fót þessari starfsemi sem víða er raunverulega undirstöðuatriði fyrir áframhaldandi byggðaþróun á viðkomandi svæði.

Ég þarf ekki að lýsa þessu hér frekar. Það er alveg ljóst, að í mörgum byggðarlögum er þetta gífurlegt vandamál, ekki aðeins í sambandi við ýmsan nýiðnað, heldur einnig í sambandi við nauðsynlegan þjónustuiðnað, bæði að því er varðar þjónustu við útgerð og fiskiðnað og í mörgum fleiri greinum. Á þessum svæðum hafa einstaklingarnir ekki haft möguleika til að koma sér fyrir til að taka við þessu eða inna af hendi þetta hlutverk í sambandi við iðnaðinn. Þess vegna held ég að þetta frv. til l. stuðli örugglega að því að örva þessa starfsemi og verði jafnframt eðlilegur þáttur í byggðaþróun og til að treysta atvinnulífið úti um landsbyggðina og gera það fjölbreyttara, eins og allir eru sammála um að sé brýn nauðsyn. Ég vænti þess að þetta frv. fái góðan framgang.