19.05.1979
Sameinað þing: 99. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5086 í B-deild Alþingistíðinda. (4448)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár þó að mér sé ljóst að nú sé mjög gengið á tíma þingsins og ekki mikill tími til þess að eyða í umr. utan dagskrár. En ég vænti þess, að það mál, sem ég vil ræða, sé ekki neitt deilumál og það eigi ekki að þurfa að leiða af sér langar eða miklar umr.

Eins og öllum hv. þm. er kunnugt hafa steðjað að ýmsum landsmönnum á þessum vetri margvíslegir erfiðleikar sem leitt hefur af því að hafís hefur lokað hafnarsvæðum og gert mörgum aðilum ókleift að stunda atvinnu sína. Við það hafa síðan bæst einstök vorharðindi sem bitna með miklum þunga ekki síst á bændum landsins, en einnig ýmsum öðrum. Ég held að það sé enginn vafi á því, að þessir erfiðleikar koma þannig við ýmsa staði á landinu og ýmsa aðila að þeir hafa orðið fyrir miklu áfalli. Mér finnst það eiga vel við, áður en Alþ. lýkur nú störfum sínum, að það heyrist nokkuð héðan frá Alþ. um það, að við alþm. ætlumst til að vandamál þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, verði athuguð sérstaklega og sérstök athugun verði gerð á því tjóni sem menn hafa orðið fyrir, því tekjutapi sem ýmsir hafa orðið fyrir í sambandi við þessa náttúruerfiðleika. Ég er á þeirri skoðun, að nú sé eins og jafnan áður, þegar slíkt kemur fyrir, mjög auðvelt að fá sterka samstöðu allra stjórnmálaflokka og manna úr öllum flokkum til þess að standa að því að reyna að draga úr þeim mestu erfiðleikum og því tjóni sem einstök byggðarlög og einstakir aðilar verða fyrir þegar slíkir atburðir gerast eins og þessir, sem ég þarf ekki að fara um mörgum orðum við hv. þm. Um það er ekkert að villast, að t. d. einstakir sjómenn og smáútvegsmenn hafa tapað stórum hluta af tekjum sínum á árinu vegna hafíss, og ég held að ekki sé minnsti vafi á því, að bændur landsins hafa orðið fyrir miklu tekjutapi og muni verða vegna þessara erfiðleika allra.

Ég vil því beina því til hæstv. forsrh., hvort hann vilji ekki gefa yfirlýsingu á Alþ. um að hann muni beita sér fyrir því, að látin verði fara fram sérstök athugun á vandamálum þeirra aðila, sem hér er um að ræða, með það fyrir augum að þjóðfélagsheildin komi þeim til aðstoðar á svipaðan hátt og gert hefur verið í öðrum tilfellum þar sem um tjón af náttúrunnar völdum hefur verið að ræða. Hér hefur áður orðið hin besta samstaða um aðstoð þegar slíkt hefur verið tekið hér upp.

Ég vil vænta þess, að hæstv. forsrh. geti tekið undir þá skoðun, sem ég túlka hér, vilji beita sér fyrir því, að athugun af þessu tagi fari fram, og síðan verði að því stefnt að bæta mönnum það tjón sem ætti að vera hægt að bæta þeim af hálfu þjóðfélagsheildarinnar. Mér þykir einnig full ástæða til að vænta þess, að stjórnarandstaðan hér á þingi, eins og jafnan áður, standi með öðrum að því að grípa inn í þegar slíka atburði ber að höndum. Fari svo sem ég vænti, að hér sé samstaða um að lýsa yfir vilja Alþ. í þessum efnum og taka á þessu vandamáli, þá finnst mér sjálfsagt að það komist til þeirra, sem standa enn í miðjum erfiðleikunum, sem boðskapur héðan frá Alþ., án þess að gerð sé sérstök þingsamþykkt, heldur liggi aðeins fyrir almenn yfirlýsing flokkanna um að það sé ætlun manna að bæta mönnum, eftir því sem við verður komið, það tjón sem menn hafa orðið fyrir vegna þessara miklu áfalla.

Ég vil svo vænta þess, að undir þetta mál mitt verði tekið fyrst og fremst af hæstv. forsrh., en einnig af hálfu stjórnarandstöðunnar.