19.05.1979
Sameinað þing: 99. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5087 í B-deild Alþingistíðinda. (4449)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Í tilefni af orðum hv. 1. þm. Austurl. er mér ljúft að lýsa yfir, að ég mun beita mér fyrir því innan ríkisstj. að fram fari rækileg könnun á þeim vandamálum sem hann gerði að umtalsefni. Það er öllum ljóst, að þar er um þungar búsifjar að ræða sem menn hafa orðið fyrir, bæði til lands og sjávar, af völdum hafíss og algerlega einstæðra harðinda sem gengið hafa yfir landið að undanförnu. Ég tek algerlega undir orð hans um það og tel að eigi að líta á málið frá því sjónarmiði, að hér sé um hliðstæður að tefla við þá atburði sem stundum hafa gerst af völdum náttúruhamfara og valdið stórtjóni.

Það má segja, að raunar hafi ríkisstj. þegar markað stefnu að þessu leyti að nokkru, þar sem á sínum tíma átti sér stað skipun sérstakrar n., hafísnefndar, sem hefur kannað það mál og mun gera till. í þeim efnum. En það er ekki aðeins að hafísinn hafi valdið hér tjóni, heldur er, eins og ég sagði áðan og eins og menn vita, um algerlega einstæð harðindi að ræða um mjög langt árabil a. m. k. í tilteknum hlutum landsins.

Ég efast ekki um að hv. stjórnarandstæðingar muni veita þessu máli lið eftir því sem rannsókn og athugun og skynsamlegar tillögur hníga að.