19.05.1979
Sameinað þing: 99. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5088 í B-deild Alþingistíðinda. (4451)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Lúðvík Jósepssyni fyrir að vekja máls á því ástandi, sem nú hefur skapast, í þeim tilgangi að koma á samstöðu meðal stjórnmálaflokkanna um aðgerðir sem gera þarf til að leysa þann brýna vanda sem nú blasir við á hinum svonefndu hafíssvæðum og raunar víðar á landinu. Sú upplýsingaöflun, sem hv. 1. þm. Austurl. nefndi og raunar hæstv. forsrh. líka, er þegar hafin. Hafísnefnd hefur sent öllum bæjarstjórum, oddvitum og sveitarstjórum á svæðinu frá Ströndum og að Norðfirði ýmis gögn og bréf með óskum um upplýsingar um hvers konar tjón, þ. e. a. s. aflatjón, veiðarfæratjón og þau áföll sem byggðarlögin hafa orðið fyrir. Það er hins vegar alveg ljóst, að starf n. takmarkast fyrst og fremst af því, að hún hefur engin fjárráð. N. sem slík getur ekki komið til móts við aðila sem ekki eiga til neinna sjóða að leita í sambandi við þau vandamál sem nú blasa við. N. hefur átt samtöl við forráðamenn hinna ýmsu sjóða sem til greina gætu komið, Bjargráðasjóðs, Aflatryggingasjóðs og Hafnabótasjóðs, og alls staðar fengið mjög góðar undirtektir. Þá hafa opinberar stofnanir hlaupið undir bagga í neyðartilvikum og gert það sem í þeirra valdi hefur staðið.

Ég vil upplýsa það vegna þessara umr. hér, að það er ljóst nú þegar að m. a. netatjón báta við Norður- og Norðausturland og raunar víðar hefur orðið mikið og er raunar óhætt að fullyrða að það skiptir hundruðum milljóna króna. Hafa orðið mjög verulega skemmdir á hafnarmannvirkjum víða, líklega mestar í Borgarfirði eystra. Og það sem verst er raunar er hið gífurlega tekjutap sem fiskvinnslufyrirtæki, sjómenn og aðrir hafa orðið fyrir á þessu svæði.

Ég ætla ekki að gera langt mál úr þessu, ég vil aðeins geta þess, að nú blasir það við bændum víða, að um verulegan niðurskurð á búfénaði þeirra getur orðið að ræða alveg á næstunni ef ekki bregður til betra veðurs hér á landi, og niðurskurður er þegar hafinn í sumum sveitum landsins. Við höfum reynt að beita okkur fyrir því að fá Farmanna- og fiskimannasamband Íslands til að heimila flutning á áburði hingað til lands, og það hefur tekist. Nú horfir hins vegar til vandræða vegna fóðurbætisskorts í landinu, og mun hafa verið ákveðið í morgun af Farmanna- og fiskimannasambandinu að annað af þeim tveimur skipum, sem áttu að sækja áburð til Noregs, taki fóðurbæti.

Öll þessi mál eru þess eðlis að hér verður að grípa skjótt inn í. N. hefur ákveðið að skila till. sínum til ríkisstj. fyrir mánaðamót. Margvíslegur vandi steðjar að sem verður að leysa úr í skyndi, og það er ekki nokkur minnsti vafi á því í mínum huga, að ef á að bæta þeim aðilum, sem fyrir mestu tjóni hafa orðið á þessum landssvæðum, það mikla tjón sem þeir hafa orðið fyrir, þá er óumflýjanlegt að ríkisvaldið beiti sér fyrir því, að ríkissjóður leggi til fjármagn. Ég vil nefna sem dæmi þá menn, sem hafa haft atvinnu, og þau byggðarlög, sem hafa haft mjög verulegar tekjur af grásleppuveiðum. Grásleppukarlarnir, sem svo eru nefndir í daglegu tali, eiga ekki aðgang að neinum sjóði, hafa engar tryggingar. Þeir hafa ekki aðeins orðið fyrir mjög verulegu netatjóni, heldur hefur afli þeirra nánast enginn verið. Fjölmargir útgerðarmenn standa nú frammi fyrir gjaldþroti og fiskvinnslustöðvar á Norðausturlandi eiga í mjög alvarlegum erfiðleikum.

Ég mun láta þetta nægja. Eins og þm. er kunnugt hefur hafísnefnd fengið starfsmann sem starfar hálfan daginn. Innan n. er mjög gott samstarf um öll þau mál sem við er að glíma. Því er hins vegar ekki að neita, að nm. hafa verið býsna bundnir við þingstörf, en reynt þó að beita sér eftir mætti í þeim málum sem á fjörur þeirra hefur rekið.