19.05.1979
Sameinað þing: 99. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5090 í B-deild Alþingistíðinda. (4457)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég átti von á því, að þessi umr. færi fram nokkru fyrr, og hafði nokkrar athugasemdir fram að færa við það sem komið hafði fram í umr. fyrr. En nú er það sjálfsagt um seinan að fara að rifja það upp og ég man það ekki heldur allt sem ég ætlaði að gera að umtalsefni, þannig að ég mun flytja hér stutta ræðu. Ég hef ekki, held ég, fyrr tekið til máls um málefni landbúnaðarins þau ár sem ég hef verið hér á þingi, svo ég vona að menn virði mér það til vorkunnar, þó ég láti það eftir mér einu sinni áður en ég hverf héðan.

Ég vil segja það, að eftir þeim umsögnum og gögnum, sem ég hef lesið um þetta mál, sýnist mér að hér sé ekki mál sem horfi til heilla fyrir bændastéttina. Ég get ekki komið auga á það. Ég get ekki séð að þeir hafi von til þess að fá fjármagn sitt fyrr, greiðar eða ríflegar af höndum reitt með þessu fyrirkomulagi, heldur en því sem nú er, og mér sýnist eftir þær umsagnir, sem ég hef lesið, að samtök bænda séu ekki heldur þess mjög fýsandi að þetta fyrirkomulag sé tekið upp. Þess vegna mun ég leyfa mér að verða á móti þessu máli.

Auk þess vil ég benda á það, að þetta mál mun verða mjög erfitt í framkvæmd. Byggi ég það aðallega á umsögn sem borist hefur frá Búnaðarbanka Íslands og m. a. er undirskrifuð af Magnúsi Jónssyni, fyrrv. hæstv. fjmrh., núv. bankastjóra Búnaðarbanka Ístands, sem að öðrum ólöstuðum mun þessum málum einna kunnugastur þeirra er að þeim starfa. Hann segir að það sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir samhengi þessara lána, þótt þau séu mismunandi eðlis, og er hann þá að tala um tvenn lán. Rekstrarlánin eru veitt að vorinu og fyrri hluta sumars án veðsetningar afurða, en lánin eru síðan greidd með afurðalánum að haustinu og því óhjákvæmilegt samhengi á milli lánanna. Upphaflega var ætlunin að rekstrarlán gengju beint til bænda til að auðvelda þeim kaup áburðar og fleiri nauðsynja, en í reynd var framkvæmdin strax í upphafi sú, að viðkomandi sláturleyfishafar öfluðu sér framsals bænda á rekstrarlánum og veittu þá aftur aðstoð við áburðarkaup og fleira. Var því veiting lánanna til bænda aldrei raunhæf. Sláturleyfishafar hafa tekið lánin og ábyrgst þau gagnvart viðskiptabönkunum. — Þessi leið hefur sem sagt verið reynd og reynst ófær samkv. umsögn þess manns sem ég áðan nefndi og ég hygg að við, a. m. k. þeir sem sátu með honum hér á hv. Alþ., berum fullt traust til að ekki segi annað en það sem staðist getur.

Síðan segir hann: „Þótt látin séu liggja milli hluta vandkvæði bankanna að lána hverjum einstökum bónda er rétt að benda á það“ — og ég held að menn ættu að taka eftir því — „er rétt að benda á það, að þessi aðferð gætu valdið bændum, sem erfitt eiga um tryggingar, verulegum erfiðleikum. Afurðalán bænda er veitt gegn tryggingu í afurðum á sama hátt og afurðalán í sjávarútvegi og endurgreiðsla þeirra er tengd sölu afurðanna. Bændum er ógerlegt að tryggja afurðalánin á þennan hátt eftir að þeir hafa afhent afurðirnar. Það er því ekki sjáanleg leið til að framkvæma núverandi afurðalánakerfi ef greiða ætti lánin beint til bænda án milligöngu þeirra fyrirtækja sem hafa afurðirnar í sinni vörslu og annast sölu þeirra.“

Mér þykir það nokkurri furðu gegna satt að segja ef hv. alþm. treysta sér til að samþ, það fyrirkomulag sem samkv. umsögn þess manns, sem ég var að minnast hér á, gerir það í rauninni ógerlegt fyrir bændur að tryggja lánin. Það þýðir ekkert að hrista höfuðið, hv. þm. Þetta stendur hér í umsögn þessa hv. bankastjóra, fyrrv. fjmrh. Sjálfstfl. (Gripið fram í: Þetta er allt marghrakið.) Þó að ég sé ekki sammála honum í öllu, þá hef ég ævinlega haft álit á honum og það a. m. k. til jafns við ýmsa þá sem telja sig þess umkomna að hrekja þær umsagnir sem hann lætur frá sér fara.

Svo ætlaði ég að minnast á það, að ég tel ákaflega óviðfelldinn þann málflutning, sem hvað eftir annað á sér stað hér í hv. þingsölum, þegar sífellt er verið að veitast að frjálsum samtökum fólks í landinu, þar sem eru samvinnufélögin. Ég vil biðja menn að hugleiða það, hvernig ástatt væri í mörgum byggðarlögum þessa lands ef samvinnufélaganna hefði ekki notið við. Ég er hræddur um að það væri ekki alls staðar byggð þar sem þó er byggð í dag ef þau hefðu ekki tekið að sér að sjá fólkinu fyrir nauðsynjum. Og það þýðir ekkert, hvorki á Alþ. né í útvarpi eða öðrum fjölmiðlum, að segja að ýmsar sérverslanir í Reykjavík geti boðið lægra verð á vörum heldur en kaupfélög úti um land. Það er afar auðveld verslunaraðferð að velja úr hagkvæma hluti, hluti sem gróði er af að selja, og selja þá eina, en láta hitt vanta og láta svo kaupfélögin um að sjá um það sem á vantar, en er nauðsynlegt, engu að síður, en ekki selst með hagnaði. Ég held að menn ættu að gera sér þetta ljóst áður en þeir taka of mikið upp í sig í því að gagnrýna samvinnureksturinn í landinu.

Það má vel vera að eitt og annað hafi farið úrskeiðis í rekstri samvinnufélaga eins og annarra fyrirtækja og þjónustustarfsemi í þessu landi. Ég ætla ekki að verja það allt. Það hafa auðvitað orðið mistök, en grundvallarhugsjónin og grundvallarmarkmiðið er þjóðinni nauðsynlegt. Það er sú starfsemi sem fyrst og fremst leysti þjóðina úr viðjum einokunarverslunar danskra og annarra erlendra kaupmanna hringinn í kringum landið. Þetta er viðurkennd staðreynd sem ekki þýðir að mæla á móti. Og ég bendi á það, að engum manni er bannað að versla í samkeppni við kaupfélög og þeir gera það sem telja sér hag að því, eins og ég áðan sagði. Þegar þeir síðan hafa hagnast á sínum verslunarrekstri á mismunandi stöðum um landið, þá eru þeir frjálsir að því, hvenær sem þeim dettur í hug, að fara burt með það sem þeir hafa álnað sér saman af viðskiptum við fólkið á viðkomandi stað. En það, sem kaupfélögin hafa eignast og byggt upp, er þar og verður þar. Á þessu er reginmunur, sá munur sem ég held að þm. væri hollt að gera sér grein fyrir áður en þeir fordæma skilyrðislaust þetta félagsform og þennan rekstur, sem mjög er þó ofarlega í mörgum manni hér.

Ég hafði, herra forseti, satt að segja ætlað mér að fara um þetta allmiklu fleiri orðum, en ég geri mér ljóst að tíminn er takmarkaður, og þess vegna mun ég stilla orðum mínum í hóf og ekki tala langt mál nú fremur en endranær.

Ég held að t. d. í sambandi við þau lán, sem hér eru til umræðu, og þá vöruúttekt, sem bændur þurfa á að halda, sé það í mörgum tilvikum þannig, að þeir, sem erfiðast eiga, eigi helst trausts að vænta hjá samvinnuversluninni og fái þar þá fyrirgreiðslu sem þeim er nauðsynleg til að geta haldíð sínum búrekstri eða öðrum atvinnurekstri áfram. Og ég ætla að minna þm. að lokum á það, að kaupfélögin hafa, allt frá því að þau hófu starfsemi; rekið innlánsdeildir sem eru eins konar bankastarfsemi, að sumir vilja telja. En þetta fjármagn hefur verið notað til þess að greiða fyrir m. a. þeim viðskiptum sem nú er hér verið að fjalla um, þó að menn þurfi ekki á þeirri aðstoð að halda.

Ég var á sínum tíma á móti því að Seðlabankinn gerði innlánsdeildum kaupfélaganna það að skyldu að binda hluta af innlánsfé sínu eins og bankastofnunum og sparisjóðum í landinu, og ég man það enn þá, að þegar þetta kom hér fyrst til umr. vitnaði ég í ræðu sem flm. laga um samvinnufélög, Sigurjón Friðjónsson bóndi á Litlu-Laugum, flutti þegar hann mælti fyrir því frv. og sagði þetta, með leyfi forseta: „Af öðrum séreignarsjóðum vil ég nefna innlánsdeildirnar, sem eru sparifé einstakra manna fengið félögunum til ávöxtunar sem rekstrarfé.“ Ég fæ ekki séð annað en að þessi skilningur eigi enn þá við, að það séu frjáls framlög einstaklinga til sameiginlegs rekstrar sem innlánsdeildirnar mynda. Og ég tel enn að það sé rangt að leggja það til jafns við aðrar bankastofnanir og taka af því bindingu, sem í raun gerir ekki annað en skerða það rekstrarfé sem félagsmenn hafa af fúsum og frjálsum vilja lagt fram til að auðvelda starfsemi síns kaupfélags.