19.05.1979
Sameinað þing: 99. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5092 í B-deild Alþingistíðinda. (4458)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Sú till., sem hér er til umr., á sér langa sögu og barátta 1. flm., hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, fyrir framgangi þessa máls hefur sett svip sinn á þing þau sem hér hafa verið áður en ég og ýmsir fleiri komu til setu á hv. Alþ. Og það má vissulega segja að á síðustu dögum hafi bæst nýir þættir í þessa sögu sem gefi vissulega tilefni til að spyrja hinnar gömlu rómversku spurningar: qui bono, eða hverjum til góðs.

Þegar ég kynnti mér þetta mál í vetur og gerðist aðili að þeim meiri hl., sem mælir með því á þskj. 471 að þetta mál yrði samþ., voru búnir að ganga í n. tilraunir til samkomulags sem fæli í sér að tryggja fyrst og fremst það, að málið fengi þennan búning að hagsmunir bændastéttarinnar í landinu fengju þann framgang til eflingar sem allir töldu eðlilegt. Það samkomulag náðist ekki og meiri hl. n., sem ég stóð að, lagði þess vegna til að till. yrði samþ. En síðan gerist það fyrir nokkrum dögum, að upp kemur formaður Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson, heildsali í Reykjavík — (Gripið fram í: Nei.) Ég veit að hann er ekki jafnmikill heildsali og hv. þm. Albert Guðmundsson sem nú kvað nei við. Það er alveg rétt, hann er fulltrúi gömlu heildsalanna sem hafa ráðið Sjálfstfl. til þessa, Eimskipsarmsins í Sjálfstfl., en hv. þm. Albert Guðmundsson er fulltrúi nýju heildsalanna, Hafskipsarmsins í Sjálfstfl., þannig að það er út af fyrir sig alveg rétt, að það er rétt að greina á milli þessara tveggja arma, Eimskipsarmsins og Hafskipsarmsins í Sjálfstfl. — Þá gerist það, að hv. þm. Geir Hallgrímsson, í umr. um þá miklu erfiðleika sem að þessari þjóð steðja í efnahagsmálum, birtir hótun til ríkisstjórnar meirihlutans á Alþ., og þessi hótun var fólgin í því, að hann sem formaður stjórnarandstöðuflokksins á Alþingi Íslendinga mundi beita sér gegn málefnum ríkisstj., nánast öllum þeim sem hún vildi koma hér fram, ef ríkisstj. ætlaði að hindra að mál, sem Sjálfstfl.-þm. stæðu að, næðu fram að ganga. Nefndi hann þar til aðeins eitt mál, þ. e. a. s. það mál sem hér er til umr. Og þá fór ég að velta þeirri spurningu fyrir mér, í hvaða félagsskap ég sé nú kominn, þegar það gerist að formaður Sjálfstfl. setur fram þá kröfu um þetta mál, sem ég hef lagt til að verði samþ., að samþykkt þess sé úrslitaskilyrði stjórnarandstöðunnar fyrir því að hægt sé að ljúka Alþingi Íslendinga og Sjálfstfl. leggi ekki jafnmikið kapp á nokkurt mál eins og þetta, enda það eitt nefnt til af þeim málum sem Sjálfstfl. vildi fá hér fram.

Þessi síðasti kafli þessarar miklu sögu veitir mér tilefni til þess að spyrja, þegar ég er kominn í slíkan félagsskap með hv. þm. Geir Hallgrímssyni: Hvað er hér á ferðinni? Erum við kannske saman í þessari för á mismunandi forsendum? Er þessu frv. kannske ætlað að vera einhvers konar Trójuhestur fyrir þau öfl sem ég hef verið sannfærður um lengi, lengi að hv. þm. Geir Hallgrímsson er fyrst og fremst gæslumaður fyrir, þ. e. a. s. annars vegar hatrömmustu einkafjármagnsöflin í landinu og hins vegar erlend fjármálaöfl sem hann vill efla til vegs í íslensku efnahagslífi. (Gripið fram í: Velkominn heim.) Það getur vel verið að ég komi hér að Hafskipsarminum á eftir, hv. þm. Albert Guðmundsson þarf ekkert að mana mig sérstaklega til þess með frammíköllum hér. Það getur vel verið að það sé nauðsynlegt til þess að skilja þetta mál í botn að leiða umr. um Hafskipsarminn einnig inn í hv. Alþingi.

Það er alveg rétt, sem hér hefur aðeins verið ýjað að í umr., að á þessu máli kunna að vera a. m. k. tvær hliðar: annars vegar sú sem snýr að almennum réttindum bændanna í landinu, einstaklinga og samtaka í þeirra röðum, og svo hins vegar sú hlið sem snýr að viðskiptahagsmununum, fjármagnshagsmununum, átökunum um fjármagnið í þessu þjóðfélagi. Þegar formaður Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson, setur þetta mál eitt á blað þeirra mála sem Sjálfstfl. krefst að séu afgr. á Alþ., þá er það mér nægilegt tilefni til að hugleiða hvort fjármagnshagsmunirnir kunni ekki að vera með í þessari för. Er það kannske í raun og veru tilgangur þeirra, sem ég hef stutt a. m, k. til þessa í því að ná þessu máli fram, að gera fyrst og fremst atlögu að þeim félagsskap fólksins í landinu, atþýðu til sjávar og sveita, sem — hvað svo sem um hann annars kann að vera sagt — hefur fyrst og fremst verið aðalvörn félagshyggjufólks á Íslandi gegn einkaframtakinu og gegn erlendum fjármálahagsmunum, og þar á ég við samvinnuhreyfinguna á Íslandi?

Ég vil segja það hér strax, að ég hef á undanförnum árum nokkuð lengi gagnrýnt fjölmargt í forustu samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi og framkvæmd hennar starfsemi. Sú gagnrýni hefur verið byggð á því, að ég hafi viljað efla samvinnuhreyfinguna enn frekar til vegs í íslensku þjóðfélagi, bæði sem lýðræðisleg fjöldasamtök og sem framkvæmda- og fjármagnsaðila í íslensku þjóðfélagi. Og ég vil taka það skýrt fram, að ég gerist ekki liðsmaður í einhverri sérstakri aðför að samvinnuhreyfingunni á Íslandi sem er ætlað að eyðileggja hana. Það er mikill misskilningur. Ef það er raunverulegur tilgangur þessarar þáltill. að höggva að rótum samvinnuhreyfingarinnar, einkum og sér í lagi í hinum dreifðu byggðum á Íslandi, þá get ég sagt við hv. 1. flm. þessarar till. og formann Sjálfstfl., kröfugerðarmann þess að þetta mál verði eitt afgreitt hér á Alþingi Íslendinga, að ég verð ekki með í þeirri för. (Gripið fram í. ) Ef það er ekki tilgangurinn, þá verð ég að segja það, að ég hef reynt hv. 4. þm. Reykv. að öðru en að vera slíkur vinur bændanna í landinu að hann kjósi að setja það mál eitt efst allra mála til afgreiðslu á Alþ. Hans áhugamál og hans hagsmunir hafa hingað til legið einhvers staðar annars staðar en þar.

En síðan þessi yfirlýsing hv. formanns Sjálfstfl. var flutt hefur það gerst, með allri virðingu fyrir 1. þm. Reykv., að fjörugasti fótboltakappinn í liði Sjálfstfl., hv. þm. Ellert B. Schram, hefur fyrr í dag tekið upp málþóf í öðru máli, frv. um framhaldsskóla, og ég tel að það málþóf sé í raun og veru yfirlýsing af hálfu Sjálfstfl. um að samkomulag af þessu tagi sé einfaldlega ekki á dagskrá, Sjálfstfl. hafi ekki áhuga á því.

Þessi sami þm., formaður Sjálfstfl., sagði hér í gær, ef ég man rétt, frekar en fyrradag, að þetta þing hefði verði athafnalítið þing og nánast ekkert afgreitt af merkilegum málum. Það er samt sem áður staðreynd, að þetta þing hefur afgreitt fleiri mál frá hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni en nokkurt annað þing í sögu Íslendinga. (Gripið fram í: Þetta er líka vitlausasta þingið.) Það kann að vera. Hins vegar vil ég mótmæla því, hv. þm. Páll Pétursson, að þau frv. eða mál hafi flest verið afgreidd af vitlausustu deild, vegna þess að þau hafa flest verið afgreidd í hv. Ed., þannig að ég vil ekki alfarið skrifa upp á þessa kenningu um samhengi vitleysunnar og afgreiðslu mála frá hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni.

En þessi sami þm., formaður Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson, í þessari sömu ræðu sem ég hef verið að gera hér að umtalsefni, gagnrýndi mjög að þetta hefði verið starfslítið þing og það hefði ekki afgreitt merkileg eða mörg mál. En það er samt sem áður staðreynd, að það er ekki aðeins að þetta þing hafi afgreitt fleiri mál frá hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni heldur en nokkurt annað þing, heldur hefur það afgreitt fleiri mál frá stjórnarandstöðunni en nokkurt annað þing og við þm. ríkisstjórnarflokkanna höfum sýnt stjórnarandstöðunni skilning og metið mál hennar eingöngu á málefnalegum grundvelli. Þá gerist það, að þessi sama stjórnarandstaða — og má segja í því sambandi að sjaldan launi kálfurinn ofeldið — hefur hér uppi málþóf í dag um eitt af þeim frv. sem ríkisstj. hefur flutt. Og ég vil segja það — með allri virðingu fyrir 1. flm. þessarar till. og einnig með allri virðingu fyrir þeim nefndarmeirihluta sem ég er nú sjálfur í — að það eru mörg önnur mál hér sem þyrfti að ræða á Alþingi Íslendinga fremur en þetta mál. En ástæðan fyrir því, að þetta mál er hér tekið á dagskrá, skilst manni að sé krafa frá hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni — og Sjálfstfl. væntanlega einnig fyrst formaður flokksins hefur flutt þá kröfu inn á þing — að þetta mál verði afgreitt, á sama tíma og flokkurinn tekur upp málþóf í öðrum málum. Það eru ekki drengileg vinnubrögð. Það eru ekki þingræðisleg vinnubrögð. Það eru ekki heiðarleg vinnubrögð. Og ég tek ekki þátt í slíkum leik, það er á hreinu. Ég læt ekki hafa mig til slíks leiks. (Gripið fram í.) Það geta fleiri stundað málþóf, eins og það geta fleiri stundað knattspyrnu en hv. þm. Albert Guðmundsson og hv. þm. Ellert B. Schram.

Það kann að vera fróðlegt fyrir mig og fleiri að fá það fram í dagsljósið, hvað Sjálfstfl. leggur mikið kapp á þetta mál, hvort þetta mál sé kannske allt öðruvísi vaxið en að vera fyrst og fremst umhyggjumál fyrir bændastéttina í landinu, hvort hér liggi kannske á bak við svo mikilsvert fjármálahagsmunamál fyrir helstu fyrirtæki Sjálfstfl. að hann telji það nauðsynlegt í þjónustu sinni við þessi fyrirtæki að setja þetta mál hér á oddinn. (Gripið fram í: Er þetta hugsanlegt?) Það er einmitt það sem ég ætlaði að koma að. Hvernig væri það hugsanlegt, hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson?

Í þessari till. eru tvö atriði. Það síðara er á þá leið, að ríkisstj. láti fara fram athugun á því, hvernig heppilegast sé að koma við breytingum á greiðslu útflutningsbóta og niðurgreiðslna þannig að þær nýtist betur. Um þetta atriði hefur í sjálfu sér ekki verið mikill ágreiningur, a. m. k. ekki í n. En fyrra atriðið er um það, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að hlutast til um að settar verði reglur um rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins sem tryggi að bændur fái í hendur þá fjármuni, sem þeim eru ætlaðir, um leið og lánin eru veitt. Þessi hugsun getur falið tvennt í sér, eins og ég gat um áðan: annars vegar að tryggja rétt bændanna í landinu og hins vegar að veita öðrum fyrirtækjum en félagsfyrirtækjum bændanna sjálfra og samvinnuhreyfingarinnar aðgang að þessu fjármagni. Og það ern einmitt þær spurningar sem hafa nú farið að vakna í mínum huga við það mikla kapp sem Sjálfstfl. virðist leggja á þetta mál.

Það er vitað mál, að hér hafa á undanförnum árum vaxið upp ýmis fyrirtæki í verslun, einkafyrirtæki, sum hver orðin mjög stór og umfangsmikil og hafa komið sér upp samböndum við erlenda viðskiptaaðila, framleiðsluaðila og dreifingaraðila, og það er einnig ljóst, að sum þessara fyrirtækja hyggja á aukna samkeppni við samvinnufélagsskapinn í landinu til þess fyrst og fremst að eyðileggja grundvöll hans, með byggingu sláturhúsa t. d., með því að taka afurðir landbúnaðarins inn í þessi verslunarfyrirtæki og þessi sláturhús og byggja þannig upp keðju sem miðar að því að gera bændastéttina háða einkafjármagninu í landinu og reyna með tilstuðlan erlendra og innlendra fjármagnsafla að ryðja hinum félagslega rekstri samvinnufólksins í landinu úr vegi. Ef þetta er hinn raunverulegi tilgangur þessarar till., að ryðja í nafni umhyggju við bændur braut fyrir einkafjármagnið, sem fyrst og fremst er sprottið upp hér í Reykjavík og er sumt í bandalagi við erlenda fjármálaaðila, ryðja því braut á kostnað samvinnurekstrarins í landinu, þá vil ég segja það alveg skýrt, að þá þróun tel ég mikla óheillaþróun, vegna þess að þótt gagnrýna megi samvinnuhreyfinguna fyrir fjölmargt, þó gagnrýna megi viðskipti hennar við bændurna og þó margt megi að núverandi kerfi finna, sem er m. a. ástæðan fyrir því að ég hef stutt það að þessi till. nái fram að ganga, þá er ég alveg sannfærður um að ef árás einkaframtaksins á samvinnuverslunina kæmi síðan í kjölfaríð, þá hefur þessi till. að eðli sínu ekki fyrst og fremst verið framfaramál fyrir bændastéttina í landinu, heldur verið Trójuhestur íhaldsins inn í herbúðir samvinnufélagsskaparins á Íslandi, sett fram í þeim tilgangi einum að brjóta þann félagsskap niður. Það kann þess vegna að vera, að að baki þessari till. liggi í raun og veru miklu framsýnni — ef má orða það svo — hernaðaráætlun einkafjármagnsaflanna á Íslandi gegn hinu félagslega framtaki í landinu heldur en okkur marga hverja hefur grunað.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, að meðal einkafjármagnsaflanna á Íslandi hafa á síðustu árum vaxið upp mjög sterkir aðilar, nýir aðilar, sem hafa m. a. með hv. þm. Albert Guðmundssyni sest í þá glæsilegu stjórn siglingafélagsins Hafskips hf. sem mynd var birt af í blöðunum fyrir nokkrum dögum. (Gripið fram í.) Já, það var góð mynd, það er alveg satt. Hún sýndi að það voru baráttuglaðir menn sem þar settust í stjórn. En hún sýndi líka hve miklu umframfjármagni hinn grátandi iðnrekandi Davíð Scheving Thorsteinsson hefur yfir að ráða, hverju ýmsir aðrir verslunarjöfrar hafa yfir að ráða, að geta lagt það fjármagn í endurreisn á heilu siglingarfélagi sem er ætlað hvorki meira né minna en að keppa við Eimskipafélagið eða ganga af því dauðu — og SÍS, bætti hv. þm. Atbert Guðmundsson við. Svo eru menn að saka mig um það, að ég sé einhver sérstakur tilræðismaður í garð Eimskipafélagsins. Sú till., sem ég flutti hér, er sem títuprjónn í uppbyggingu Eimskipafélagsins og grundvöll þess í samanburði við þá stríðsyfirlýsingu sem hin nýja stjórn Hafskips hf. er í garð Eimskipafélagsins, því að þeir menn, sem settust við hliðina og fyrir aftan hv. 1. þm. Reykv. í stjórn Hafskips hf., það eru menn sem voru að segja við þá ráðaklíku Geirs Hallgrímssonar og annarra sem hefur haft Eimskipafélagið að brjóstvörn: „Baráttan er hafin, herrar mínir.“ Auðvitað ætla allir þessir aðilar að flytja sína flutninga yfir til Hafskips, ætla að koma Hafskipi á þann fjölþætta flutningagrundvöll, sem hefur fyrst og fremst háð uppbyggingu þess, og þar með setja Eimskipafélagið nánast af, vegna þess að það er alveg ljóst, miðað við þá miklu fjárfestingu sem Eimskipafélagið hefur lagt í, að ef þessi tilraun hv. 1. þm. Reykv., Alberts Guðmundssonar, í garð Eimskiptafélagsins tekst með því að flytja flutningana yfir til Hafskips, þá rúllar Eimskiptafélagið. Það er alveg ljóst, að þá rúllar Eimskipafélagið og þá rúllar gamla ráðaklíkan í Sjálfstfl. með því, vegna þess að hún hefur fyrst og fremst byggt hagsmuni sína á þessum fyrirtækjum. (Gripið fram í.) Já, það er nefnilega eins og viðskrh. sagði, það er aldrei að vita, vegna þess að samhengið í viðskiptalífinu er nú einu sinni þannig, að fyrst þarf að ná fjármagninu, sem hingað til hefur farið til samvinnufélaganna, síðan þarf að flytja það yfir í verslanir og sláturhús úti um land og síðan þarf skip til að flytja vörur frá þessum byggðum og til útlanda eða annað. Þess vegna gæti nefnilega till. um beinar greiðslur til bænda verið um beinar greiðslur til Hafskips, hv. þm. Albert Guðmundsson. Það kunna ýmsir fleira í „bisness“ heldur en hv. 1. þm. Reykv.

Þetta mál er nefnilega að mínum dómi alls ekkert gamanmál, og ég sé það greinilega á svipbrigðum ýmissa þm. Sjálfstfl., að hundurinn kann að liggja grafinn þarna. Það kann að vera að þessi till. sé liður í þessu stóra plani, vegna þess að það er alveg ljóst, að það, sem háir einkafjármagninu á Íslandi í dag, og það, sem háir Sjálfstfl. fyrst og fremst í dag í hagsmunalegri og þjóðhagslegri uppbyggingu sinni, er fjármagnsskorturinn í landinu. Það vita allir sem til þekkja í þessu þjóðfélagi, að það er hinn svokallaði fjármagnsskortur sem er að ganga hér af hverju fyrirtækinu á fætur öðru næstum því dauðu, sumum þannig að þau eru að rúlla. Ein af ástæðunum fyrir því, að Sjálfstfl. hefur talið sig knúinn til að taka upp nýja stefnu og ný vinnubrögð, og ein af ástæðunum, sem liggja að baki þeim klofningi sem kemur fram með hinni nýju stjórn í Hafskipi hf., er baráttan um þetta fjármagn sem er mjög af skornum skammti. Það er mesti misskilningur, að baráttan milli hv. þm. Alberts Guðmundssonar og Geirs Hallgrímssonar sé einhver persónulegur rígur, það er mesti misskilningur. Hún er að mínum dómi barátta milli gömlu fjármagnsaflanna og nýju fjármagnsaflanna í Sjálfstfl. Þess vegna sýnir það pólitíska snilld 1. þm. Reykv., að hann skuli nokkrum dögum eftir fall sitt í formannskjörinu í Sjálfstfl. láta birta Hafskipsmyndina á forsíðu Dagblaðsins til að sýna að stríðshanskanum var kastað. ( Gripið fram í.) Í Morgunblaðinu var hún á innsíðu, það var Dagblaðið eitt, enda er framkvæmdastjóri Dagblaðsins einn af samherjum 1. þm. Reykv. í stjórn Hafskips hf. sem birti þessa stríðsyfirlýsingu á forsíðu.

Þegar einkafjármagnið í þessu landi býr við þann mikla fjármagnsskort sem það gerir nú, þá er ósköp eðlilegt að það leiti inn á aðrar brautir. Það sýnir bara að þeir eru klókir fjármálamenn sem reyna að svipast um í þjóðfélaginu hvar þetta fjármagn sé að finna. Og þá kunna sumir þeirra að hafa komið auga á það, að í félagssamtökum samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi sé fólgið mikið fjármagn sem nauðsynlegt sé að komast yfir.

Eins og ég hef sagt áður í ræðu minni er hægt að lesa þessa till. á tvennan veg. Það er hægt að lesa hana á þennan seinni veg sem ég hef hér verið að útskýra og geri í mikilli alvöru, þó að ýmsir þm. kunni að hafa það að gamanmálum. Og síðan er hægt að lesa hana á þann fyrri veg, sem er grundvöllur þess að ég og aðrir höfum stutt þessa till, að hér sé fyrst og fremst á ferðinni hagsmunamál bændastéttarinnar í landinu, fyrir einstaka bændur sem og samtakaheild þeirra.

Ég ætla ekki í þessu máli að halda uppi sérstöku málþófi, eins og spurt var um áðan. Ég vil hins vegar láta þá skoðun mína koma skýrt fram, að það, sem sagt hefur verið hér og gefið í skyn m. a. af hv. 1. þm. Reykv., og ýmis viðbrögð undir ræðu minni gefa fyllilega tilefni til að ætla að það liggi annarlegur tilgangur að baki þessu máli og hann sé í augum þessara manna svo stórt hagsmunamál fyrir kapítalistana á Íslandi, litla sem stóra, að flokkur þeirra, Sjálfstfl., sé reiðubúinn að tefla þessu máli fram á móti öllum málum ríkisstj., og hefur þó sá flokkur farið mörgum slæmum orðum um þau mál — að í fjárþröng sinni, þeirri fjárþröng sem skapar núna hatramma baráttu innan Sjálfstfl. og í fyrirtækjum Sjálfstfl., sé orðið slíkt lífsnauðsynjamál fyrir þessi fyrirtæki að ná höndum yfir það fjármagn, sem hefur verið í samvinnufélagsskapnum og félagssamtökum bænda á Íslandi, að það sé meginorsökin fyrir því að knúið er hér á á síðustu dögum þingsins að afgr. þetta mál með þessum hætti, jafnvel þeim hætti að Sjálfstfl. svíkur yfirlýsingu formannsins og hefur hér málþóf um frv. um framhaldsskóla. Og eins og ég sagði áðan, það eru ekki heiðarleg vinnubrögð, það eru ekki drengileg vinnubrögð, en það eru hins vegar vinnubrögð sem þeir, sem lúta fyrst og fremst hagsmunum fjármagnsins, telja sér leyfileg þegar þeir hagsmunir eru í húfi.