13.11.1978
Sameinað þing: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. S.l. þriðjudag fóru fram hér í Sþ. allmiklar umr. utan dagskrár, um setningu Magnúsar Torfa Ólafssonar í sæti blaðafulltrúa ríkisstj., og komu fram af hálfu nokkurra þm. nokkrar athugasemdir við þá ráðstöfun. Þar sem ég gat ekki verið á þessum fundi tel ég rétt að gripa tækifærið á þeim fyrsta fundi, sem ég mæti á eftir að þetta átti sér stað, til þess að koma á framfæri skýringum mínum varðandi þessa ráðstöfun og leiðrétta þann misskilning sem ég tel að athugasemdir hv. þm. hafi byggst á.

Ég tel að aths. þm. og gagnrýni hafi byggst á þeim misskilningi, að hér væri um nýja stöðu, nýtt embætti að ræða. Svo er ekki. Embætti blaðafulltrúa ríkisstj., sem að vísu hét þá blaðafulltrúi utanrrn., var stofnað 13. maí 1944 og var svo enn meir og rækilegar undirstrikað með því, að sá maður, sem í það var settur, var gerður að deildarstjóra árið 1959. Síðan hefur þetta embætti verið löghelgað. Á því var svo gerð sú breyting með reglugerð um stjórnarráðið, reglugerð nr. 96/1969, sem sett er samkvæmt 8. gr. laga nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, og öðlaðist gildi 1. jan. 1970, að embætti blaðafulltrúa ríkisstjórnarinnar skyldi heyra undir forsrn. Á því hefur ekki verið gerð nein breyting síðan.

Ég tel þess vegna að það orki ekki neinna tvímæla, að þarna sé um löghelgað embætti að tefla. Í því sambandi skiptir engu máli þó að lögskipuð staða hafi verið auð, ef svo má segja, um nokkurn tíma, að ekki hafi verið í hana skipað eða sett. Hún er eftir sem áður í lögum. Í því sambandi nægir að benda á þau alkunnu dæmi og fjölmörgu dæmi þegar prestaköll standa auð árum saman og án þess að prestar séu í þau skipaðir eða þegar læknishéruð eru óveitt árum saman, án þess að þau séu veitt. Það dettur ekki nokkrum lifandi manni í hug, hvað þá alþm., að staða sé fallin niður fyrir þær sakir, að hún hefur ekki verið veitt, annaðhvort af því að ekki hafa fengist menn til að gegna þeim störfum, eða af öðrum ástæðum.

Þegar um er að ræða setningu eða skipun í embætti, sem fyrir er og er í lögum, fer það mál aldrei — ég þekki þess engin dæmi — fyrir ráðninganefnd ríkisins, ef skipað er í þá stöðu eða sett. Ég þekki þess heldur engin dæmi, að það sé gengið til fjvn. og spurt um hvort megi setja menn eða skipa í lögboðnar stöður. Það er sá ráðh., sem málið heyrir undir, sem tekur ákvörðun um það, eftir atvikum með samþykki fjmrh. að sjálfsögðu.

Sú regla, sem mönnum var tíðrætt um s.l. þriðjudag, að það hafi verið gengið fram hjá fjvn. í þessu efni og fram hjá ráðningarnefnd ríkisins, á því aðeins við að um ný störf, nýjar stöður sé að tefla. Ég þekki engin dæmi hins. Og það má kallast furðulegt, að hv. fjvn.-menn þekkja ekki þær venjur, þekkja ekki þá algildu starfshætti. Það þarf varla að taka það fram, því að ég held að allir hv. alþm. hljóti að þekkja þá reglu, að fjárlög geta ekki breytt lögum. Og þó að það sé óskaplega lofsvert af hv. fjvn. að vilja spara, — já, vilja jafnvel leggja niður og skera niður lögboðin störf eða stöður, þá getur hún það ekki, e.t.v. má segja: því miður, en hún getur það ekki. Hitt er annað mál, að hún getur haft frumkvæði að því að bera fram lagabreytingar til þess að ráða bót á því, ef hún telur ofsett á jötu ríkisins. Margir eru þeirrar skoðunar, að yfirbyggingin sé orðin helst til mikil, og enginn mundi fagna því meira en ég, ef hv. fjvn. tæki nú rögg á sig og hefði frumkvæði um að koma með lagafrv. um að skera niður störf hjá ríkinu og stöður. Það er stórt verkefni sem hennar bíður þar. Þess vegna kemur mér nokkuð spánskt fyrir sjónir, þegar hv, þm. Sighvatur Björgvinsson fer að tala um það hér á Alþ., að rætt hafi verið um það í fjvn. að leggja þetta starf — starf blaðafulltrúa ríkisstj. — niður og skera niður umbeðna fjárveitingu vegna þess. Ég endurtek það, að hv. fjvn., hversu merk sem hún er — og ég ber vissulega mikla virðingu fyrir þeirri n., getur ekki skorið niður laun vegna lögboðinna embætta. Til þess þarf einfaldlega lagabreytingu. Við höfum heyrt um það kvartanir og kveinstafi ár eftir ár, að svo og svo mikið af fjárlagaútgjöldum ríkisins sé bundið í lögum og því er játað og það er almennt viðurkennt, að við því geti fjárlagalöggjafinn ekki hróflað, og þeim starfsháttum verður nú ekki breytt. En eins og ég sagði áðan, þá getur fjvn. auðvitað tekið upp frumkvæði að því, að stöður og störf séu lögð niður, en hún verður að gera það með þeim hætti að bera fram lagafrv. hér á Alþingi um það efni. Já, ég ber mikla virðingu fyrir hv. fjvn., en hún er ekkert merkari en hver önnur nefnd þingsins, þó að einhverjir þm. gangi með þá grillu.

Til þess að skipa í stöður eða embætti, sem fyrir eru, þarf auðvitað enga formlega samþykkt í ríkisstj. Þær aths., sem fram komu um það efni, voru þess vegna algerlega út í hött. Það er ekki siður, hefur aldrei tíðkast og ég veit þess ekki dæmi þau ár sem ég hef setið í ríkisstj., að ráðh. komi með það inn á ríkisstjórnarfund og leiti eftir formlegri samþykkt á því, að það skuli sett eða skipað í eitthvert embætti sem undir hann þó óumdeilanlega heyrir. Ég þekki þess ekki dæmi. Það er allt annað mál, að ef hefði átt að leggja þá stöðu t.d. sem um er að ræða niður, þá hefði þurft að koma með það inn á ríkisstjórnarfund og þá hefði verið eðlilegt að koma með það inn á ríkisstjórnarfund og ganga frá formlegri samþykkt þar um það, sem hefði þá getað orðið upphaf að reglugerðarbreytingu í þá átt að leggja starf blaðafulltrúa ríkisstj. niður, að leggja niður starf upplýsingamiðils ríkisstj. En sem betur fer hefur enginn ráðh. lagt til að leg ja slíkt starf niður.

Ég tel augljóst af því sem ég hef sagt, að það er ekki nokkur minnsta fjöður til að hanga á fyrir hv. fjvn. til þess að móðgast út af því, að setning þessa manns í starf blaðafulltrúa hafi ekki verið borin undir hana, né heldur er nokkur ástæða til þess fyrir hæstv. ágæta samráðh. mína að hneykslast á því, að ég skuli hafa framkvæmt þessa embættisathöfn án þess, að hafa kynnt þeim það fyrir fram formlega á ríkisstjórnarfundi — ekki nokkur. Hitt er jafnrétt og satt, að ég hef ekki lagt neina launung á það, að ég ætlaði að skipa blaðafulltrúa ríkisstj., ég teldi nauðsynlegt að fá mann í það starf, enda mun það hafa komið fram í þessum umr., að hæstv. ráðh. könnuðust við að ég mundi hafa hreyft því máli og látið þá skoðun í ljós. Og ég hygg að — ja, ég vil segja a.m.k. flestum — ég veit ekki hvort einhver vill undanskilja sig því af mínum ágætu hæstv. samráðh. — hafi verið fullkunnugt um þessa ætlan mína. A.m.k. get ég sagt það, að ýmsir samráðh. bentu mér á af góðum hug hugsanlega ágæta menn til þessa starfa.

Þá kom það fram í umr. af blaðafregnum að dæma, að hér væri um nokkuð viðurhlutamikið mál að tefla, þar sem blaðafulltrúi þessi væri skipaður til lífstíðar, að því er virtist, og ætti að sitja af sér allar stjórnir. En ég vil nú leiðrétta þann misskilning og vil því til sönnunar lesa upp bréf það sem Magnús Torfi Ólafsson hefur fengið, það er stutt og laggott:

„Hér með eruð þér settur til þess að vera blaðafulltrúi ríkisstj. frá 1. nóv. 1978 að telja.“

Sama dag er fjmrn. skrifað svo hljóðandi bréf, með leyfi forseta:

„Hér með tilkynnist fjmrn., að Magnús Torfi Ólafsson fyrrv. ráðh. hefur frá 1. nóv. verið settur til þess að vera blaðafulltrúi ríkisstj. Er þess beiðst, að fjmrn. feli ríkisféhirði að greiða honum viðeigandi laun.“

Ég þarf varla að taka það fram, að ég hafði fengið áður samþykki hæstv. fjmrh. fyrir því, að honum yrðu greidd laun til áramóta, þó að ekki sé fjárlagaheimild til fyrir því, en hins vegar hafi verið sótt um fjárveitingu fyrir næsta ár og hún tekin athugasemdalaust, að ég hygg, upp í tillögur hagsýslu- og fjárlagadeildarinnar. Hér er því aðeins um setningu að ræða sem hægt er fyrir einhvern mann mér vitrari, þegar hann tekur við af mér, að leiðrétta. En ég hef litið svo á, að það væri æskilegt varðandi þetta starf fyrir báða aðila, bæði blaðafulltrúann og ríkisstj., að það fengist nokkur reynslutími til þess að hvor um sig gæti gert það upp, hvort blaðafulltrúinn teldi starfið heppilegt fyrir sig og hvort ríkisstj. teldi hann heppilegan í þessu starfi. Þetta er aðferð sem vel má eiga við í sumum tilfellum, og ég álít að hún gæti vel átt við í þessu tilfelli. Hitt er svo auðvitað mál, að áður en skipun á sér stað verður starf þetta auglýst, enda er það forseti sem skipar í embætti blaðafulltrúa ríkisstj.

Mér þykir ákaflega mikið miður, að sumir hv. þm., sem gerðu aths. í umr. utan dagskrár s.l. þriðjudag, voru ekki gengnir í salinn þegar ég hóf mitt mál. En ég get ekki verið að endurtaka það sem ég hef um þetta sagt, og þeir verða þá að hafa sömu aðferðina og ég, að lesa það bara í blöðunum á eftir hvað ég hef sagt um þetta. (Gripið fram í.) Heldur hv. þm., að þeir gangi aftur? Ónei, þeir liggja kyrrir eftir þetta. Yfirleitt létu þessir hv. þm., sem hreyfðu þó aths. við þetta af þeim misskilningi, sem ég hef nú sýnt fram á, þau orð falla, að sá maður, sem settur hefði verið í þetta starf, Magnús Torfi Ólafsson, væri vel til þess fallinn. Þó lét einn hv. þm. þá skoðun í ljós, að þetta væri nokkuð hæpin ráðstöfun, því að þessi blaðafulltrúi væri formaður í stjórnmálasamtökum sem ættu ekki aðild að ríkisstj.

Þetta eru nú vægast sagt, — ja, hvað á ég að segja, aldamótasjónarmið, svo ég hafi ekki stærra orð yfir það, — sjónarmið sem hefðu vel getað átt sér stað um síðustu aldamót. Þau eiga ekki við í dag og eiga ekki að eiga við í dag. Það á ekki að spyrja um það, hver er pólitísk skoðun manns sem skipaður er í embætti, heldur hitt, hvort hann er hæfur til þess. Það á ekki að spyrja um það, þegar valinn er maður í embætti blaðafulltrúa ríkisstj., sem væntanlega getur átt eftir að þjóna ríkisstjórnum af ýmsum skoðunum og ýmsum gerðum, hver sé hans pólitíska skoðun. Hitt skiptir öllu máli, að maðurinn sé hæfur. Það hélt ég satt að segja að væri að verða ríkjandi sjónarmið nú á þessum tímum sem við lifum á, og það verð ég að segja þeim ungu, ágætu mönnum til hróss, að þeir eiga sinn þátt í að skapa það viðhorf, fordæma hitt, enda er því kastað fyrir róða.

En allt um það, þá er sannleikurinn sá, að þó að þessi tiltekni maður sé nú formaður í stjórnmálasamtökum, þá hafa þau stjórnmálasamtök lýst því yfir, að þau muni styðja núv. ríkisstj. til allra góðra verka, og það er sams konar stuðningsyfirlýsing og við megum una við frá nokkrum hv. þm. stjórnarliðsins.

Það er auðvitað mál, að ef það á að fara eftir mati ríkisstj. hvort verkin eru góð eða ekki, þá verða þau góð, því ríkisstj. fer ekki að framkvæma verk sem hún telur slæm. Náttúrlega verður annað upp á teningnum, ef sá fyrirvari er á þessum áskilnaði, að hann skuli vera eftir mati hlutaðeiganda.

Þetta er kjarni málsins að því er varðar hina lagalegu og formlegu hlið þessa máls. Og um það þarf ég ekki að hafa fleiri orð, nema tilefni gefist til.

Efnisatriðið er svo annað, þ.e.a.s. hvort þörf sé á starfi sem þessu fyrir ríkisstj. og hvort valinn sé hæfur maður til þessa starfs. Það eru þau raunverulegu efnisatriði sem hér skipta máli. Um lagahliðina og formshliðina getur ekki leikið nokkur vafi. Lengi vel var löggjöf um stjórnarráðið í heldur miklum molum og á sínum tíma voru ekki nema fjögur af rn. sem stofnuð voru með lögum, hin voru öll stofnuð með óformlegum hætti með stjórnarráðstöfunum. Ég fer ekki að rekja það, hvaða ráðh. eða hvaða flokki þeir tilheyrðu, sem best gengu fram í því. Það er allt bókað í ágætu riti, sem ég hef hér meðferðis, Stjórnarráð Íslands eftir Agnar Kl. Jónsson, sem er alveg tilvalin bók fyrir nýja þm. að kynna sér af því að þar er mikinn fróðleik að finna.

Spurningin er þessi: Er ríkisstjórninni þörf á fréttamiðlun og upplýsingastreymi til fjölmiðla og almennings? Ég svara þeirri spurningu hiklaust játandi. Ég tel að ég sé ekki aðfinnsluverður fyrir að setja mann í þetta starf. Það gæti frekar verið að það mætti finna að því, að fyrrv. ríkisstj. skyldi ekki setja mann í starf blaðafulltrúa ríkisstj. (Gripið fram í.) Þá Magnús Torfa. Já, hann var eins góður þá og hann er nú, og það hefði kannske verið til bóta fyrir fyrrv. ríkisstj. að hafa slíka upplýsingamiðlun í fullkomnu lagi.

Ég held að það sé ákaflega þýðingarmikið, að það sé sem greiðastur gangur, ef svo má segja, á milli ríkisstj. og þeirra aðila, sem eru nefndir fjölmiðlar, og almennings. Við skulum segja líka að það sé krafa tímans og ég hef líka að vissu marki beitt mér fyrir því að ýta undir það sjónarmið með því að láta undirbúa og semja og leggja fram reyndar í fyrra frv. um rétt manna til þess að eiga aðgang að upplýsingum hjá stjórnvöldum. Það frv. hefur nú verið endurflutt. Þess vegna varð ég óskaplega hissa, og má nú nota orðtakið, að mér duttu allar dauðar lýs úr höfði þegar þeir, sem af mestum áhuga hafa talað um opna stjórnsýslu, — og vel sé þeim fyrir það — og að almenningur þurfi að eiga sem greiðastan aðgang að upplýsingum, standa hér upp og fara að fetta fingur út í það, að settur hafi verið blaðafulltrúi. Að vísu gerðu flestir það af formlegum ástæðum sem byggðust á misskilningi hjá þeim. En þó er harmsefni, að það skyldi koma fram hjá sumum, að það væri ætlun hv. fjvn. að leggja svona störf niður, skera niður fjárveitingar til slíkrar starfsemi. Hvar eru þessir hv. þm. staddir?

Ég verð að segja það, að mér finnst lítið samræmi á milli orða og gerða þegar þannig er haldið á málum. Ég hafði lítið svo á að þeir mundu taka því fagnandi, að það væri einmitt stigið mikið spor í þá átt að koma á lifandi, greiðara sambandi á milli stjórnvalda og þá fyrst og fremst í þessu dæmi sjálfrar ríkisstj., æðsta stjórnvaldsins raunverulega í landinu, og fjölmiðla og almennings. Ég trúi því ekki, að fjölmiðlar taki því ekki fagnandi að fá slíkan mann sem þeir geta snúið sér til, haft aðgang að, sérstakan, og fengið upplýsingar hjá. Ég trúi ekki því fyrr en ég tek á því, að árið 1978 sitji þeir menn í fjvn. sem fari að telja eftir fjárveitingu til slíks starfs, til slíks upplýsingastreymis, sem vilja skera slíkt starf niður, sem vilja halda því við, að allt sé sem áður fyrr, sem mest á bak við lokaðar dyr. Er það meiningin? Er það meiningin hjá hv. fjvn.-mönnum? Ég býst við að það verði þröngar dyrnar þar inn með önnur mál sem þarf að sækja um fjárveitingar til, eins og t.d. öryggisnefnd og því um líkt, ef hlutur þessa starfs verður sá sem sumir hafa látið í veðri vaka.

Hitt aðalatriðið er svo að hæfur maður veljist til þessa starfs. Það tel ég að hafi tekist. Auðvitað eru margir ágætir menn og ágætlega hæfir til þessa starfs, þ. á m. ágætir menn sem nefndir voru af samráðherrum mínum, þó ég tæki þennan mann fram yfir. Og það er af því, að sjónarmið mín í þessu efni eru þau, að þó að hér sé um að ræða það sem kallað er blaðafulltrúi ríkisstj. og hann heyri stjórnarfarslega undir forsrh., þá sé það meginatriði, að þessi maður sé sem sjálfstæðastur í starfi, eftir því sem unnt er, og hitt, sem er kjarnaatriði, að hann njóti trausts, hann sé viðurkenndur að vera vammlaus maður og heiðvirður, bæði fjölmiðlar og almenningur treysti þeim upplýsingum sem hann lætur frá sér fara., Þetta er sá höfuðkostur sem blaðafulltrúi hverrar ríkisstj. sem er þarf að hafa til að bera.

Auðvitað er það mín persónulega skoðun, en ég hygg þó skoðun æðimargra, að það sé leitun að manni sem betur fullnægir þessum skilyrðum en Magnús Torfi Ólafsson. Og það gladdi mig einmitt, að það kom fram hjá flestum þm., sem tóku til máls um þetta, að þeir gerðu ekki aths. við hann sem slíkan og hans starfshæfni, heldur luku einmitt lofsorði á hann. En það er of langt mál og ég ætla ekki að fara út í það, að það eru auðvitað ákaflega margháttuð störf sem bíða blaðafulltrúa ríkisstj. Hann verður að vera fjölfróður maður. Hann þarf að safna upplýsingum. Hann þarf að hafa tiltækar upplýsingar. Hann þarf að vera efnistökum ráðh. og ríkisstj. til þjónustu með það að gefa út fréttatilkynningar. Hann þarf að tala við innlenda fjölmiðla. Hann þarf að standa í sambandi við erlenda fjölmiðla, taka á móti mönnum, þegar þeir koma hingað, og veita þeim upplýsingar, senda þeim upplýsingar o.s.frv., o.s.frv. Þarna er því um mjög mikilsvert starf að ræða að mínum dómi, — starf sem á að vera unnið á hlutlægan hátt, og þá fyrst þegar það er unnið á hlutlægan hátt er að því styrkur fyrir þá ríkisstj. sem slíkan blaðafulltrúa hefur, og skiptir engu máli hvaða ríkisstj. á í hlut.

Herra forseti. Ég bið afsökunar á því, hvað ég hef tekið mikinn tíma hér. En mér skildist að það hefði orðið talsvert fjaðrafok út af þessu s.l. þriðjudag, og þess vegna vildi ég ekki láta dragast úr hömlu að standa fyrir máli mínu, því að annars hefði kannske getað farið eins og í einhverju ævintýrinu, lítil fjöður sem losnaði og varð eitthvað mikið úr um síðir. Það var rétt að taka strax fram til þess að fyrirbyggja misskilning, að ég hef farið hér algjörlega að réttum lögum og eftir réttum formum. Ef einhverjir efast um það, t.d. hv. fjvn., þá tel ég mjög ráðlegt fyrir þá að leita til óvilhallra lögfræðinga og fá álit þeirra á því, hvort hér hafi verið vikið út af settum reglum.

Ég skal nú ekki frekar fjölyrða um það sjónarmið, sem haldið er fram, að það ætti eiginlega að ráða menn eftir pólitískum litarhætti í þetta starf. Það er eins og ég sagði löngu úr sögunni. Ég er ekki hræddur við að hafa þá, sem eru andstæðir mér í pólitík, að starfsmönnum. Ég hef haft yfir að segja fjórum rn. þann tíma sem ég hef verið ráðh. Ég hef ekki hugmynd um, hvar sumir þeirra eru í pólitík sem hafa starfað þar með mér, en um marga þeirra er alkunna að þeir hafa verið á andstæðri pólitískri skoðun við mig. Ég get lýst því yfir, að ég hef aldrei orðið var við að þeir hafi brotið af sér eða brotið þann trúnað sem ég hef sýnt þeim. Ég vil jafnframt segja það, að ég vona að enginn þeirra verði leiddur til vitnisburðar um það, að ég hafi á nokkurn hátt látið hann gjalda þess, hvaða pólitíska skoðun hann aðhylltist. Pólitík er góð, en pólitík verður að halda innan vissra marka. Þá fyrst getur kerfið gengið.

Ég skal, eins og ég sagði, ekki hafa þessi orð fleiri að sinni og ekki heldur taka til máls um þetta frekar, af því ég hef talið mig gera grein fyrir mínu máli og vildi ekki liggja undir neinu ámæli í sambandi við það. En ef tilefni gefst til getur verið að ég komi aftur upp í pontuna, því eins og ég sagði tók ég með mér nesti heiman að, bók Agnars Kl. Jónssonar um stjórnarráðið, þar sem ýmsan fróðleik er að finna og er eitthvert hið ágætasta rit sem hefur verið skráð um þessi efni.