21.05.1979
Efri deild: 112. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5112 í B-deild Alþingistíðinda. (4472)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. vék að því í upphafi ræðu sinnar, að saga þessara fríðinda, eins og hann orðaði það, væri löng. Það er alveg rétt. En það er kjarninn í þeirri kröfu, sem sigurvegarar kosninganna settu fram, síðustu alþingiskosninga, að þessi fríðindatími væri liðinn, að þjóðfélag fríðindanna yrði afnumið á Íslandi, þar væru allir jafnir, ráðherraembætti væri ekki einhver æðri tign sem þyrfti sérstök fjármunafríðindi sér til handa. Ég lýsti því yfir við 1. umr. þess frv. sem hér hefur verið gert að umræðuefni, að þetta væri kjarni málsins. Það er hins vegar misskilningur hjá hæstv. fjmrh., að það hafi þurft einhver sérstök lög til að fella niður heimildina til að veita afslátt á aðflutningsgjöldum og tollum fyrir ráðherrabifreiðar. Hæstv. fjmrh. hefði sjálfur á sínum fyrsta degi í rn. getað ákveðið að hætta að nota þessa heimild, til þess hafði hann allan stjórnskipulegan rétt. Það þurfti ekki löggjöf hér á Alþingi til að taka þá ákvörðun. Hitt gat svo komið í kjölfarið til að koma í veg fyrir að eftirmenn hans beittu þessari heimild, það að breyta lögunum. En það var á engan hátt háð því hvað gert væri varðandi lagasetninguna, hvort þessari heimild væri beitt eða ekki. Þess vegna er lagasetningin sjálf eða tilraun til hennar yfirvarp í þessum efnum.

Hæstv. fjmrh. hefur nú játað hér í hv. d., Ed. Alþingis, að hann sé sá ráðh. sem tekið hafi 3 millj. kr. lán á, að því er hann telur, 22% vöxtum. Vörn hæstv. fjmrh. í þessu máli er byggð á því, að hann hafi farið eftir settum reglum. Það er aðeins hluti sögunnar, vegna þess að sá aðili, sem setti regluna um hina lágu vexti á þessu láni, var hæstv. fjmrh. sjálfur, eins og hann hefur nú játað hér í hv. d. og ráðuneytisstjóri fjmrn. tjáði fjh.-og viðskn. Ed. Það er því hæstv. ráðh., sem hefur upp á eigin spýtur, sitt eindæmi algerlega, ákveðið að lánskjör þess láns, sem hann einn hefur tekið, séu með þessu hagstæða hætti eða 11% lægri vöxtum en almenningur í þessu landi þarf að borga af þeim lánum sem hann á almennt aðgang að í bankakerfinu um þessar mundir. Þess vegna er líka deilt á það, hæstv. fjmrh., að þær hagnaðar- og fríðindareglur, sem þarna eru settar af ráðh. sjálfum, en ekki ríkisstj., fela í sér þessa lágvaxtastefnu í lánakjörum, bílalánakjörum hæstv. ráðh. Hins vegar finnst mér það þakkarvert, að loks skuli hafa tekist eftir mikið erfiði og langa sögu, sem ég rakti hér í upphafi, að fá það fram, hver var sá hæstv. ráðh. sem þetta lán tók, þ. e. fjmrh. sjálfur.

Hæstv. ráðh. vitnaði hér í ýmis önnur lán frá árunum 1970 og 1971, en það munu vera lán sem veitt voru vegna kerfisbreytinga í þessum málum og hæstv. fjmrh. þáverandi, Magnús Jónsson, beitti sér fyrir. En samkv. þeim upplýsingum, sem ráðuneytisstjóri fjmrn. gaf hv. fjh.- og viðskn. Ed. hafa á síðustu árum aðeins tvö önnur lán til einstaklinga verið veitt úr ríkissjóði Íslands, annað til bifreiðakaupa og hitt til húsakaupa, bæði þessi lán til tveggja embættismanna ríkisins sem hæstv. ráðuneytisstjóri neitaði að nafngreina. Það er því mikill misskilningur hjá hæstv. fjmrh. að vera að gefa það hér til kynna, að það sé einhver aragrúi af þessum lánum. Það eru aðeins tvö önnur lán samkv. upplýsingum ráðuneytisstjóra fjmrn. Þau voru bæði veitt á síðasta kjörtímabili og annað þeirra fékk embættismaður ríkisins til bílakaupa og hitt fékk annar embættismaður ríkisins til húsakaupa, hvort tveggja fyrir sjálfan sig. Þeir eiga báðir húsið og bílinn og fengu eingöngu þessa sérstöku lánafyrirgreiðslu, lán upp á nokkrar milljónir króna sem ég gæti rakið hér. En að sjálfsögðu nafngreindi ráðuneytisstjórinn ekki þessa menn, þó að ég telji fyllilega nauðsynlegt að hæstv: fjmrh. upplýsi einnig hverjir þessir tveir aðrir einstaklingar eru sem hafa á síðari árum fengið lán úr ríkissjóði. (Gripið fram í: Þeir eru fleiri.) Það getur vel verið, hv. fyrrv. menntmrh., að þeir séu fleiri, en vegna þess, hve treglega hefur nú gengið að fá upplýsingar hjá hv. ráðuneytisstjóra fjmrn., hef ég ekki ástæðu til að rengja á þessu stigi þó þær litlu upplýsingar sem hann hefur veitt okkur, og þær upplýsingar sem hann hefur veitt eru að þau séu bara tvö. Ef hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson veit um fleiri óska ég eftir að hann upplýsi það hér.

Alla vega er það ljóst, að þau lánskjör, sem þessu láni eru samfara, þær reglur, sem hæstv. ráðh. setti sjálfur nú í reynd fyrir sjálfan sig eingöngu, eru 11% lægri vextir en almenningi í þessu landi bjóðast.

Ég vil þakka þeim ráðherrunum tveim, Kjartani Jóhannssyni og Benedikt Gröndal, fyrir það sem þeir sögðu hér. Það orðalag, sem var í fréttum blaða í dag, er ekki alveg nákvæmt í þá veru sem ég sagði við viðkomandi blaðamenn. Ég fullyrði ekkert um þau efni, og því ber vissulega að fagna að hæstv. tveir ráðh. hafa gefið þær upplýsingar hér, að þeir hafi engu að leyna í þessum efnum og séu samþykkir því, að þetta mál sé tekið til rækilegrar skoðunar á þann hátt sem ég hef hér lagt til. Og ég skal fyllilega segja það hér, að ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þær upplýsingar, sem þeir gáfu, séu réttar, en ég tel hins vegar nauðsynlegt að reikningarnir komi á borðið. Ég vil hins vegar geta þess, að ég saknaði þess að hæstv. dóms- og landbrh., sem þó var hér í salnum þegar þessar yfirlýsingar voru gefnar og þegar þessar umr. fóru fram, skyldi ekki einnig koma hingað upp og gefa sams konar yfirlýsingu. Hæstv. menntmrh. hefur ekki keypt sér bifreið eftir að hann tók sæti í þessari ríkisstjórn.

En eins og ég sagði áðan tel ég höfuðatriði þessa máls að það komi allt á borðið. Við höfum nú eftir langa mæðu fengið lántöku fjmrh. sjálfs á borðið, og ég hef með bréfi mínu í dag til yfirskoðunarmanna ríkisreikninga lagt drög að því að beita hinni réttu aðferð til að gerð sé heildarúttekt á fylgiskjölum og öðru varðandi þann rekstrar- og viðhaldskostnað sem þarna hefur átt sér stað, svo að hv. þm. sjálfir, eins og segir í þessu bréfi mínu, geti metið hvort um umframkostnað hins opinbera hafi verið að ræða. Það er hins vegar rétt, sem hv. þm. Ágúst Einarsson sagði hér áðan, að enn sem komið er hafa ekki í nefndum þingsins komið formlega fram upplýsingar sem leggja þetta mál á borðið. Ég hef hins vegar, eftir þær athuganir, sem ég hef gert, og viðræður sem ég hef átt við einstaka menn, talið rétt að hlífa embættismönnum stjórnarráðsins við það að þurfa að eltast við þessar upplýsingar, vega þær og meta og leggja þær á borðið. Það hefur gengið erfiðlega að fá þá til þeirra verka og þeir eiga sér sína húsbændur, sem eru ráðherrarnir, og ég hef þess vegna talið eðlilegt að víkja embættismönnunum undan þeirri skyldu og víkja beint til þeirra trúnaðarmanna sem Alþingi hefur sjálft kosið, yfirskoðunarmanna ríkisreikninga, í samræmi við það bréf sem ég hef nú þegar kynnt í hv. deild.

Um það, sem hér hefur verið sagt um upplýsingagjöf og upplýsingaskyldu, mætti margt segja. Ég hef þegar fengið nokkurn tíma á síðustu dögum þessa þings hjá hæstv. forseta til að ræða þetta mál og mun geyma mér umr. um þann þátt til síðari tíma. Ég vil hins vegar segja hæstv. fjmrh. það, að ég tel að sú stefna, sem hann kynnti hér sem sína stefnu, að veita ekki upplýsingar um þá einstaklinga eða aðila sem hafa fengið lán úr opinberum sjóðum, sem ríkissjóður er, sé röng stefna. Og ég vil minna á það, að þegar hæstv. fjmrh. var einn af forstjórum — held ég að það heiti formlega — Framkvæmdastofnunar ríkisins og sú stofnun var sett á laggirnar fyrir nokkrum árum, þá var einmitt tekin upp sú stefna þar að gefa út opinberlega í skýrslu Framkvæmdastofnunar skrá yfir alla þá aðila sem höfðu fengið þar lán. Og ég get ekki séð að það eigi neinar aðrar reglur að gilda um þá opinberu sjóði, sem eru í vörslu Framkvæmdastofnunar, og forstjóra hennar, heldur en um ríkissjóð. Þetta eru hvort tveggja fjármunir almennings í landinu. Ég mun halda áfram að berjast fyrir því, að allar upplýsingar þessa máls komi á borðið. Ég tel að það sé nauðsynlegt, einkum og sér í lagi þegar horft er til næstu vikna og mánaða, þegar þessi hæstv. ríkisstj. þarf að halda áfram í þeim mikla ólgusjó þjóðmálanna sem nú er í okkar landi. Hún þarf á öllu sínu siðferðisþreki, hún þarf á öllum sínum innri styrk að halda til að ráða við þau vandamál. Það er svo hins vegar þjóðarinnar að dæma hvaða ályktun hún vill draga af þeim upplýsingum sem hér hafa komið fram. En ég vil láta þá skoðun mína í ljós, að ég tel að þau lánskjör, sem hæstv. fjmrh. hefur veitt sjálfum sér, séu í hæsta lagi óeðlileg.

Að lokum vil ég svo þakka samnefndarmönnum mínum í hv. fjh.- og viðskn. Ed. fyrir drengilegan og ötulan stuðning þeirra við að upplýsa þetta mál.