21.05.1979
Efri deild: 112. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5115 í B-deild Alþingistíðinda. (4473)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég átti ekki kost á að hlusta á ræðu hv. þm., hún hefur eflaust verið hin merkilegasta. Ég heyrði hins vegar áðan, að hann taldi að ég hefði átt að svara til einhverra saka hér. Ég kannast ekki við neina sök. Bifreið mín var rekin á vegum ríkisins alllengi og mér var þá tjáð að allur rekstrarkostnaður hennar yrði greiddur af ríkinu. Ef þar er eitthvað sem brýtur í bága við það, þá treysti ég því, að ríkisendurskoðendur athugi slíkt. Það verður þá tvímælalaust leiðrétt. Hér er ekkert að fela, ekki nokkur skapaður hlutur.