21.05.1979
Efri deild: 112. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5116 í B-deild Alþingistíðinda. (4475)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. É þakka fyrir að fá að gera hér örstutta athugasemd. Ég lofaði hæstv. forseta að hún skyldi aðeins vera ein mínúta.

Hæstv. fjmrh. upplýsti sjálfur í fyrri ræðu sinni í dag, að hann hefði ákveðið sjálfur þessar lánskjarareglur og vextina og bæri einn ábyrgð á þeim, eins og hann sagði orðrétt, og frá því verður ekki vikist. Það eru þær reglur um lánskjörin sem hæstv, ráðh. ákvað sjálfur. Ég ætla ekki að gera að umtalsefni hér hugleiðingar hans um fríðindi annarra stétta, svo sem prófessora. Það er að vísu rétt, að prófessorar hafa nokkuð góð laun, en mér fannst ummæli hæstv. ráðh. um fríðindi þeirra sýna mikla vankunnáttu í þeim efnum og mælist til þess að hann kynni sér það, þó að það sé alveg rétt að launakjör prófessora sem og annarra hálaunastétta í þessu landi eru ekki í samræmi við þá jafnlaunastefnu sem við vildum gjarnan fylgja. Hins vegar vil ég fagna því, að hæstv. ráðh. er reiðubúinn að fara að berjast gegn þessum fríðindum. En það er ekki vænlegt að upphafið á þeirri baráttu sé ítrekaðar neitanir hæstv. ráðh. um að veita upplýsingar um þau efni.