13.11.1978
Sameinað þing: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Því miður gat ég ekki verið við þegar umr. þessar hófust, þar sem ég var bundinn við störf annars staðar. En góðviljaðir menn hafa sagt mér frá helstu efnisatriðum í ræðu hæstv. forsrh., auk þess sem hæstv. ráðh. hefur lofað því að skýra þetta mál betur ef óskað er. Ég reikna sem sé með því, að hér sé til umræðu sú ráðstöfun, sem kom til umr. s.l. þriðjudag, að stofna til embættis blaðafulltrúa ríkisstj. með þeim hætti sem gert var, en ekki nein ný ráðstöfun sem kynni að hafa verið gerð síðar.

Ég tel það náttúrlega ekki vera sambærilegt að líkja starfi blaðafulltrúa ríkisstj. við starfsemi prests, því ég tel ekki að þarna hafi ríkisstj. verið að ráða sér sálusorgara, heldur verið að ráða sér blaðafulltrúa — og ekki aðeins það, heldur verið að stofna til embættis, eins og lagt er til að gera í fjárlagafrv., með tveimur föstum starfsmönnum og væntanlega einhverjum kostnaði í sambandi við það.

Það fer ekki á milli mála, öllum er það ljóst, að hv. Alþ. hefur sett ýmis lög sem gera ráð fyrir því, að ýmsar stofnanir ríkisins og ríkið sjálft hafi heimild til þess að ráða sér starfsmenn til tiltekinna verkefna. T.d. úir og grúir af slíkum heimildum í grunnskólalögunum. Engu að síður er hér aðeins um heimildarákvæði að ræða, og venjan hefur verið sú, þetta hefur verið framkvæmt þannig svo lengi sem ég þekki til, sem að vísu er ekki mjög lengi, að í slík embætti hefur aldrei verið ráðið nema til þess hafi fengist heimild ráðninganefndar ríkisins. Það hefur ávallt verið venjan, að menn, sem ráðnir eru til þjónustu hjá ríkinu, eru ráðnir annaðhvort samkvæmt samþykkt Alþingis í fjárl. um það, að störfin skuli stofna, ellegar með heimild í öðrum lögum að fenginni umsögn og afgreiðslu ráðninganefndar, og á þeim tíma sem ég hef starfað í fjvn., eru mýmörg fordæmi fyrir því, að ráðninganefnd ríkisins hefur ekki viljað fallast á að stofnanir ríkisins fái að ráða sér starfsmenn og fjölga sínu starfsliði, þó að í hinum og þessum lögum sé gert ráð fyrir því, að slík ráðning fari fram, slík ráðning sé heimil. Auðvitað verður einhver að reyna að halda í hemilinn á útþenslu ríkisbáknsins. Það hafa verið fjvn. Alþingis í umboði þessarar stofnunar og ráðninganefnd í umboði ríkisstj. og Alþingis.

Þegar þetta mál var rætt hér á þriðjudaginn í s.l. viku tók ég það sérstaklega fram og ég held allir þeir, sem um þetta mál töluðu, að aths. væru hér ekki fram færðar vegna þess, að Magnús Torfi Ólafsson hafi verið ráðinn blaðafulltrúi ríkisstj. Við tókum það sérstaklega fram, held ég allir þm eða nær allir sem hér töluðu, að maðurinn Magnús Torfi Ólafsson skipti engu máli í þessu sambandi, það sem máli skipti væri ekki heldur fjárupphæðin. Laun eins blaðafulltrúa vega ekki þungt á metaskálum ríkisfjármála, og það má kannske segja sem svo, að það muni ekki um einn kepp í sláturtíðinni. Hvorki einstaklingurinn Magnús Torfi Ólafsson né þeir fjármunir, sem hér eru í húfi, skipta megin máli.

Það, sem skiptir meginmáli í þessu sambandi, er að það hefur verið ákveðið m.a. af þessari stofnun, hvernig með ráðningarmál manna skuli fara og bæði fjvn.-menn og ráðninganefnd ríkisins, fjvn.-menn nú í tvö sumur, hafa unnið hörðum höndum að því að koma í veg fyrir, að forstöðumenn ríkisstofnana beittu því valdi sínu sem þeir hafa til þess að ráða fólk fram hjá þessum reglum, og meira að segja með þeim hætti að hóta sumum forstöðumönnum ríkisstofnana að taka alveg af þeim ráðningarvaldið, ef þeir færu ekki að settum reglum, og fyrirskipa öðrum forstöðumönnum ríkisstofnana að segja upp ólöglega ráðnu starfsfólki, þ.e.a.s. starfsfólki sem þeir hafa heimild til þess að ráða í lögum, en hafa hvorki fengið fjárhagslegar heimildir frá Alþingi til að ráða né heimildir ráðninganefndar. Nú síðast í sumar sendi undirnefnd fjvn. frá sér mörg bréf með eindregnum tilmælum til viðkomandi fagráðuneyta um að launagreiðslur í slíkar óheimilaðar stöður yrðu tafarlaust stöðvaðar. Þegar það svo gerist, að hæstv. forsrh. ríkisstj. sem ég styð, — ekki bara til allra góðra verka, heldur einnig til misgóðra verka, — þegar það gerist, að hæstv. forsrh., húsbóndinn á heimilinu, ræður starfskraft til ríkisins sem að vísu er heimild fyrir í lögum að ráða megi, en ekki hefur verið samþykktir og borinn undir ráðninganefnd og aðeins hefur verið gerð till. til fjvn. um að heimilað verði fjárútgjöld til á árinu 1979, — þegar hæstv. forsrh., húsbóndinn á heimilinu, sniðgengur þær venjur, sem ríkt hafa í þessum málum á umliðnum árum og þm. í fjvn. hafa barist fyrir að halda fram gagnvart forstöðumönnum ríkisstofnana, þá fannst mér ástæða til þess að gera aths., og ég tel að sú aths. standi enn í fullu gildi.

Það var ekki einu sinni leitað til ráðninganefndar til þess að spyrja um afstöðu hennar til þessa máls. Hæstv. ríkisstj. hafði gert till. um málið til Alþ. sem Alþ. hefur enn ekki afgreitt. Fjvn. er að fjalla um það, hvort hún muni leggja til að þessi till. í fjárlagafrv. verði samþ. eða hún verði felld. Fjvn. hefur enn ekki tekið afstöðu til þess. Ég spurði formann fjvn. um það síðast í morgun, hvort hann teldi að búið væri að taka afstöðu til þessa máls í n., og hann kvað nei við.

Það var bókað á fundi fjvn., þegar þetta mál kom þar til umr., — ég vil taka það fram, — okkur stjórnarsinnum þar til sárra leiðinda mörgum hverjum, að fara þess á leit við formann fjvn., að hann ræddi þetta mál sérstaklega við hæstv. fjmrh. og kæmi á framfæri við hann aths. nm. við þessa afgreiðslu og óskaði skýringa. Formaður fjvn. tjáði mér í morgun, að hann hefði þegar haft tal af hæstv. fjmrh., komið þessum aths. á framfæri við hann, óskað eftir skýringum hans og tekið það fram, að þessi till. í fjárlagafrv. væri, eins og aðrar till. í frv., enn til meðferðar í n. og hún ætti eftir að taka afstöðu til till., en mundi að sjálfsögðu ekki gera það fyrr en að fengnum nánari útlistunum hæstv. fjmrh. og eðlilegum skýringum. Þannig stendur sem sé þetta mál.

Það, sem ég vil leggja áherslu á að lokum í þessu sambandi, er að ítreka það, að engu máli skiptir í mínum huga hvað sá maður heitir, sem ráðinn er til þess að vera blaðafulltrúi ríkisstj. Ekki skiptir meginmáli í mínum huga sú upphæð, sem mun renna til þess að greiða honum laun úr ríkissjóði. En við skulum gera okkur fulla grein fyrir því, að stjórnvaldsathafnir hæstv. ríkisstj. grundvallast á því valdi sem hér er fengið, á því valdi sem við förum með, alþm., á því að við styðjum þær stjórnvaldsathafnir sem hæstv. ríkisstj. er að gera hverju sinni. Þess vegna finnst mér það sjálfsögð vinnubrögð, bæði af mínum ráðh. og ráðh. annarra flokka, að þeir hafi samráð sín á milli um þær ákvarðanir, sem teknar eru, og finnst mér ekki æskilegt að t.d. ráðh. þessarar hæstv. ríkisstj., sem ég styð heils hugar, heyri það í kvöldfréttum eins og aðrir þm., stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar, að þeir hafi verið að ráða sér blaðafulltrúa þá um daginn eða forsrh. fyrir þeirra hönd, þegar þeir, eins og fram kom í máli tveggja hæstv. ráðh. hér s.l. þriðjudag, telja að málið hafi ekki fengið afgreiðslu á ríkisstjórnarfundi, ekki einu sinni hvort ráðið skyldi til þessa embættis, til þess stofnað eða ekki. Ég tel slík vinnubrögð ekki æskileg og tel eðlilegt að menn segi hug sinn þegar slíkt kemur upp, vegna þess að auðvitað getur þetta skapað fordæmi. Og ég held að þessi fordæmi, sem hér um ræðir, séu ekki æskileg, það sé ekki æskilegt að fjvn.-menn, sem styðja þessa hæstv. ríkisstj. og vilja leggja sig fram um að beita því aðhaldi í ríkisfjármálunum sem þessi ríkisstj. ætlar að beita, — ég tel mjög óæskilegt að þeir séu settir upp við vegg þannig að hægt sé að benda þeim á það, að hæstv. ríkisstj., sem þessir þm. styðja, fari sjálf ekki eftir þeim reglum sem þessum þm. er ætlað að gera forstöðumönnum ríkisstofnana að hlíta.